Fjárfestirinn Birgir Þór Bieltvedt á í viðræðum um að ganga inn í eigendahóp veitingastaðarins Snaps við Þórsgötu. Fari svo munu núverandi eigendur Snaps, Sigurgísli Bjarnason og Stefán Melsted, verða hluthafar í Jómfrúnni ásamt Birgi og Jakobi Einari Jakobssyni, framkvæmdastjóra smurbrauðsstaðarins við Lækjargötu.
„Ég er að skoða samstarf við þá félaga. Það er ekki búið að ganga frá einu eða neinu en það verður innan veitingageirans. Ég get ekki sagt meira fyrr en málin eru klár en þetta ætti að skýrast á næstu tveimur vikum,“ segir Birgir í samtali við DV.
Birgir og eiginkona hans, Eygló Björk Kjartansdóttir, eru meðal annars hluthafar í Domino’s á Íslandi, djús- og samlokustaðnum Joe and the Juice og veitingastaðnum Gló. Jakob og Birgir keyptu Jómfrúna í fyrra af Jakobi Jakobssyni og Guðmundi Guðjónssyni, stofnendum smurbrauðsstaðarins. Þá hafa hjónin áform um að opna veitingastað undir merkjum Hard Rock við Lækjargötu, við hliðina á Jómfrúnni, í sumar.
Þegar DV fjallaði um áformin í desember í fyrra vildi Birgir ekki svara hvort aðrir fjárfestar kæmu að verkefninu. Aðspurður svarar Stefán að engin áform séu um að hann og Sigurgísli komi að rekstri annarra veitingastaða í eigu hjónanna.