fbpx
Mánudagur 22.júlí 2024
Fréttir

Starfsmenn Kaupþings fengu hundruð milljóna í bónus eftir nauðasamning

Kaupþing greiddi út bónusa til tugi starfsmanna í byrjun árs – Hæstu greiðslurnar námu 30 til 50 milljónum – Kaupþing minnkar við sig og flytur úr Borgartúninu

Ritstjórn DV
Föstudaginn 19. febrúar 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kaupþing greiddi út bónusa í upphafi þessa árs til tugi núverandi og fyrrverandi starfsmanna í kjölfar þess að nauðasamningar slitabúsins voru staðfestir af dómstólum undir lok desember á síðasta ári. Þeir starfsmenn sem töldust vera í hópi lykilstjórnenda gamla bankans og áttu rétt á hæstu bónusgreiðslunum fengu á bilinu 30–50 milljónir króna í sinn hlut, jafnvirði árslauna þeirra, samkvæmt heimildum DV.

Í flestum tilfellum hafði Kaupþing hins vegar samið um það við starfsmenn, bæði Íslendinga og útlendinga, að þeir myndu fá bónusgreiðslur sem næmu 3 til 6 mánaðarlaunum þeirra ef skuldaskilum bankans myndi ljúka með samþykkt nauðasamnings. Sé litið til þess að regluleg laun starfsmanna slitabúsins námu að meðaltali tveimur milljónum króna á fyrri hluta ársins 2015 má áætla að bónusgreiðslur til þessa hóps hafi verið um sex til tólf milljónir á mann. Miðað við að Kaupþing úthlutaði bónusum til tugi manns, en samkvæmt heimildum DV var meginþorri starfsmanna með ákvæði um slíkar greiðslur í ráðningarsamningum sínum, þá er ljóst að heildarfjárhæðin sem Kaupþing innti af hendi í bónusa í upphafi ársins nam hundruðum milljóna, hugsanlega nærri milljarði króna.

Kaupþing svaraði ekki fyrirspurn DV um hversu margir starfsmenn hafi fengið bónusa né heldur hver heildarfjárhæð greiðslnanna var.

Ekki háð neinum skilyrðum

Í forsíðufrétt DV þann 27. maí á síðasta ári var upplýst um að Kaupþing hefði á árunum 2012 og 2013 samið við stóran hluta starfsmanna sinna um að þeir myndu fá greidda bónusa við samþykkt nauðasamnings. Á þeim tíma var orðið ljóst að áform slitastjórnar Kaupþings um að ljúka uppgjöri búsins með nauðasamningum myndi að öllum líkindum frestast um ófyrirséðan tíma. Því var talið mikilvægt, í því skyni að halda helstu lykilstarfsmönnum og stjórnendum, að umbuna þeim meðal annars með slíkum bónusgreiðslum þegar – og ef – nauðasamningar myndu klárast.

Það var síðan 23. desember síðastliðinn sem frumvarp Kaupþings að nauðasamningi, eftir að hafa verið staðfest átta dögum áður af dómstólum, tók formlega gildi samkvæmt íslenskum lögum. Skömmu síðar voru bónusgreiðslur því inntar af hendi til fjölmargra starfsmanna Kaupþings en engu máli skipti um endurheimtur kröfuhafa samkvæmt nauðasamningnum – eina skilyrðið fyrir bónusgreiðslum var að slíkur samningur yrði samþykktur af íslenskum dómstólum.

Kolbeinn segist ekki hafa fengið bónus frá Kaupþingi

Kolbeinn Árnason

Kolbeinn Árnason

Kolbeinn Árnason, fyrrverandi yfirlögfræðingur Kaupþings, er ekki í þeim hópi sem fékk greiddan bónus frá slitabúinu í upphafi þessa árs.

Kolbeinn lét af störfum sem framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings sumarið 2013 og tók í kjölfarið við starfi framkvæmdastjóra Landssambands íslenskra útgerðarmanna (núna Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS) í ágúst sama ár. Kolbeinn hafði verið einn af lykilstarfsmönnum slitabúsins og unnið náið með slitastjórn og helstu ráðgjöfum kröfuhafa við að útbúa þann nauðasamning sem var lagður fyrir Seðlabankann í október 2012 en hlaut aldrei brautargengi.

Í tilkynningu Kaupþings vegna starfsloka Kolbeins kom fram að hann myndi áfram starfa sem ráðgjafi Kaupþings. Að ósk slitastjórnar búsins myndi hann sinna „verkefnum sem tengjast undirbúningi að framlagningu fyrirhugaðs nauðsamnings Kaupþings“, var haft eftir Kolbeini í tilkynningunni.

Aðspurður hvort hann hafi verið hluti af þeim starfsmönnum sem áttu rétt á bónusgreiðslum frá Kaupþingi, meðal annars vegna þessara ráðgjafarverkefna, segir Kolbeinn svo ekki vera. „Ég hvorki fékk slíkan bónus né átti ég rétt á honum. Ég lauk þar störfum fyrir næstum tveimur árum og skyldum og réttindum mínum gagnvart Kaupþingi er lokið,“ sagði Kolbeinn í skriflegu svari til DV.

Fá rífleg stjórnarlaun í eigin vasa

Á meðal þeirra lykilstarfsmanna og stjórnenda Kaupþings sem áttu rétt á hæstu bónusgreiðslunum, samkvæmt heimildum DV, voru þeir Jóhann Pétur Reyndal, Marinó Guðmundsson, Hilmar Þór Kristinsson, Þórarinn Þorgeirsson og Þröstur Ríkharðsson. Jóhann Pétur hefur verið yfirmaður eignastýringar Kaupþings undanfarin ár en Marinó og Hilmar Þór starfa einnig undir því sviði. Þórarinn og Þröstur hafa hins vegar gegnt yfirmannsstöðu á lögfræðisviði Kaupþings eftir að Kolbeinn Árnason, fyrrverandi framkvæmdastjóri lögfræðisviðs Kaupþings og núna framkvæmdastjóri Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, hætti störfum hjá slitabúinu sumarið 2013. Aðrir starfsmenn sem taldir eru í hópi lykilstarfsmanna Kaupþings eru Anna Sigríður Arnardóttir, Arnar Scheving Thorsteinsson og Arnaldur Jón Gunnarsson. Anna Sigríður hefur starfað á eignarstýringar- og lögfræðisviði Kaupþings en þeir Arnar Scheving og Arnaldur Jón hafa unnið náið með Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, formanni slitastjórnar, á því sviði sem heldur utan um svonefndar vandræðaeignir (Non-operating assets, NOA) Kaupþings.

Margir af þessum sömu lykilstarfsmönnum sitja einnig í stjórnum erlendra félaga þar sem slitabúið á hagsmuna að gæta sem stór hluthafi. Í langflestum tilfellum þá fara þóknanagreiðslur, sem eru í erlendum gjaldeyri, fyrir slíka stjórnarsetu til starfsmannanna sjálfra – ekki Kaupþings – en oft er um að ræða talsverðar fjárhæðir. Þannig er Hilmar Þór varaformaður stjórnar finnska fjárfestingafélagsins Norvestia og situr jafnframt í stjórn drykkjarvöruframleiðandans Refresco Garber. Fyrir stjórnarsetu í Norvestia á árinu 2014 fékk Hilmar Þór 32 þúsund evrur, jafnvirði 4,5 milljóna króna, en þóknanagreiðslur til sjö manna stjórnar Refresco námu 500 þúsund evrum, eða sem jafngildir að meðaltali ríflega tíu milljónum króna á ári á mann. Þá á Jóhann Pétur Reyndal sæti í stjórn bresku verslunarkeðjunnar Karen Millen og Aurora Fashions, félags sem var stofnað 2009 og yfirtók rekstur helstu verslunarkeðja Mosaic Fashions. Jóhann Pétur hefur setið í stjórnum Karen Millen og Aurora Fashions frá árinu 2011 en auk þess er hann, ásamt Önnu Sigríði, í stjórn breska fasteignaþróunarfélagsins Fitzroy Place Residential.

Starfsmönnum mun fækka mikið

Starfsmönnum Kaupþings hefur fækkað talsvert á undanförnum árum samhliða því að slitabúið hefur umbreytt eignum yfir í lausafé en um mitt síðasta ár störfuðu 43 manns hjá slitabúinu. Fyrirséð er að starfsmönnum, ekki síst þeim sem eru á skrifstofu Kaupþings í Reykjavík, muni fækka mikið á næstunni eftir að kröfuhafar fá yfirráð yfir félaginu. Til stendur að flytja starfsemi Kaupþings úr Borgartúni 26 á næstunni, samkvæmt upplýsingum DV, en skrifstofur slitabúsins hafa verið þar til húsa síðustu ár.

Ekki er vitað til þess að slitastjórn Kaupþings sé hluti af þeim hópi starfsmanna Kaupþings sem átti rétt á bónusgreiðslum við staðfestingu nauðasamnings. Þeir sem sitja í slitastjórn eru ekki skilgreindir sem starfsmenn Kaupþings enda eiga þeir að vera hlutlausir aðilar sem eru skipaðir af héraðsdómi. Slitastjórn Kaupþings er skipuð þeim Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni, sem er formaður slitastjórnar, Feldísi L. Óskarsdóttur og Theodór S. Sigurbergssyni. Á fyrstu sex mánuðum síðasta árs námu þóknanir til þeirra samtals 126 milljónum króna, eða sem nemur að meðaltali 7 milljónum króna á mann á mánuði. Þá samþykktu kröfuhafar Kaupþings að setja að lágmarki tíu milljarða króna í sérstakan sjóð til að tryggja skaðleysi slitastjórnar í allt að tólf ár eftir nauðasamning. Geta meðlimir slitastjórnar þannig gengið á sjóðinn til að standa straum af ýmsum kostnaði sem kann að falla á þá vegna mögulegra málsókna.

Kröfuhafar Kaupþings samþykktu sem kunnugt er á síðasta ári stöðugleikaskilyrði íslenskra stjórnvalda sem fólust meðal annars í framsali innlendra eigna sem voru bókfærðar á 120 milljarða króna auk þess að koma að fjármögnun Arion banka í erlendri mynt til langs tíma. Kröfuhafar Kaupþings hafa heimild til að draga frá allt að 5 milljarða króna af stöðugleikaframlagi sínu til stjórnvalda til að standa straum af rekstrarkostnaði sem stofnast til við rekstur Kaupþings á Íslandi en undir þá frádráttarheimild falla hins vegar ekki bónusgreiðslur líkt og þær sem núna hafa verið inntar af hendi til starfsmanna.

Fengu margfalt hærri bónusa en starfsmenn Kaupþings

Fengu margfalt hærri bónusa en starfsmenn Kaupþings

Hundruð milljóna króna bónusgreiðslur Kaupþings voru inntar af hendi aðeins ríflega tveimur vikum eftir að íslenska eignaumsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðarás fjárfestingabanki, greiddi 20–30 núverandi og fyrrverandi starfsmönnum félagsins yfir 3 milljarða króna í bónus. Þrátt fyrir að sumir lykilstjórnendur Kaupþings hafi fengið veglega bónusa – á bilinu 30 til 50 milljónir – þá komast þeir ekki í hálfkvisti við þær bónusgreiðslur sem nokkrir af helstu stjórnendum ALMC fengu í sinn hlut um miðjan desember á síðasta ári.

Þannig námu bónusgreiðslur til nokkurra lykilstjórnenda ALMC, eins og upplýst var um í forsíðufrétt DV síðastliðinn þriðjudag, hundruðum milljóna króna á mann. Þar var meðal annars um að ræða þá Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmann hjá LOGOS og stjórnarmann í ALMC, og Jakob Ásmundsson, fyrrverandi forstjóra Straums fjárfestingabanka, en hann gegndi starfi fjármálastjóra ALMC fram til ársins 2013. Óttar er á meðal þeirra sem tilnefndir eru í fimm manna stjórn hins nýja eignarhaldsfélags Kaupþings.

Bónusar ALMC, sem áætlað var í ársbyrjun 2015 að myndu nema samtals 23 milljónum evra, jafnvirði 3,3 milljarða króna, eru langsamlega hæstu bónusgreiðslur sem greiddar hafa verið af íslensku félagi allt frá falli fjármálakerfisins haustið 2008. Að meðaltali námu þær um 100 milljónum á starfsmann. Sumir fengu hins vegar mun meira, aðrir talsvert minna.

Af þeim um það bil 20–30 núverandi og fyrrverandi starfsmönnum ALMC sem fengu slíkar bónusgreiðslur undir lok síðasta árs er meirihluti þeirra erlendir aðilar. Hins vegar er einnig um að ræða Íslendinga sem hafa starfað fyrir bæði ALMC og Straum fjárfestingabanka á undanförnum árum. Á meðal þeirra lykilstjórnenda sem fengu langsamlega hæstu bónusgreiðslurnar frá ALMC eru – fyrir utan þá Óttar og Jakob – þeir Andrew Bernhardt og Christopher Perrin. Þeir sitja í stjórn ALMC ásamt Óttari. Aðrir Íslendingar sem áttu rétt á umtalsverðum bónusgreiðslum frá ALMC voru þau Birna Hlín Káradóttir, yfirlögfræðingur Fossa Markaða, og Magnús Ingi Einarsson, framkvæmdastjóri fjármála- og rekstrarsviðs Kviku fjárfestingabanka.

Jóhannes yfir vandræðaeignum

Fyrsti hluthafafundur eignarhaldsfélags Kaupþings fer fram 29. febrúar næstkomandi og mun þá ný fimm manna stjórn taka formlega við félaginu. Hlutverk hennar verður að hafa umsjón með óseldum eignum Kaupþings, sem nema nærri 400 milljörðum og munar þar mestu um 87% hlut í Arion banka, og umbreyta þeim í laust fé og úthluta til kröfuhafa. Starfandi stjórnarmenn verða Jóhannes Rúnar og Bretinn Matthew Turner en hann hefur starfað sem ráðgjafi Kaupþings allt frá árinu 2013 þegar kröfuhafar tilnefndu hann sem forstjóra félagsins eftir nauðasamning. Hefur hann meðal annars setið í stjórnum Karen Millen og Aurora Fashions á þeim tíma en samkvæmt heimildum DV stendur núna til að hann muni gegna stöðu framkvæmdastjóra eignastýringar Kaupþings. Jóhannes Rúnar verður hins vegar framkvæmdastjóri yfir þeim eignum sem skilgreinast sem vandræðaeignir (NOA lánasafnið) en um mitt síðasta ár nam bókfært virði þeirra, en nánast einungis er um að ræða eignir í Bretlandi, tæplega 29 milljörðum króna.

Þá verða einnig í stjórninni Óttar Pálsson, hæstaréttarlögmaður hjá LOGOS og helsti ráðgjafi kröfuhafa gömlu bankanna um árabil, Paul Copley, endurskoðandi og einn af meðeigendum PwC í London, og Alan J. Carr, bandarískur lögmaður. Samkvæmt heimildum DV verður Paul Copley stjórnarformaður Kaupþings en hann var á meðal þeirra sem stýrðu fjárhagslegri endurskipulagningu fjárfestingabankans Lehman Brothers í Evrópu.

Helstu eigendur Kaupþings eftir nauðasamning eru bandarísku vogunarsjóðirnir Taconic Capital, Abrams Capital og York Global. Samtals voru rúmlega tvö þúsund kröfuhafar hluti af nauðasamningi Kaupþings og verða því hluthafar í hinu nýja eignarhaldsfélagi. Á meðal þeirra er Eignasafn Seðlabanka Íslands (ESÍ) en hlutur þess verður tæplega 6% sem gerir ESÍ að fjórða stærsta einstaka hluthafa Kaupþings. Fyrirséð er hins vegar að hluthöfum fækki mikið á komandi mánuðum og misserum samhliða því að stærstu eigendur Kaupþings munu kaupa út smærri aðila.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“

Gestrisni Íslendinga kom spænsku pari gríðarlega á óvart – „Þetta fólk þekkti okkur ekki neitt“