fbpx
Fimmtudagur 02.janúar 2025
Fréttir

Færist skrefi nær móður sinni með hverjum pósti

Brynja hóf leitina að uppruna sínum í byrjun árs – Biðin erfiðust, en ferlið hefur kennt henni mikið um sjálfa sig

Ritstjórn DV
Laugardaginn 24. desember 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef einhver finnst og ef þau vilja hitta mig, þá fer ég örugglega fyrr út en ég hafði ætlað mér,“ segir Brynja Valdimarsdóttir, sem í ársbyrjun tók þá ákvörðun að ráðast í það stóra verkefni að leita uppruna síns og móður sinnar á Srí Lanka. DV ræddi við Brynju fyrir ári þegar hún stóð á krossgötum og var að vega og meta hvort hún ætti að gefa grænt ljós á formlega upprunaleit. Þá hafði hún nýlega fengið fæðingarvottorð sitt og önnur skjöl sem hún hafði eftir áralanga forvitni, ákveðið að kalla eftir upp á von og óvon um að þau væru til. Brynja fæddist á Srí Lanka en það var þann 14. desember 1985 sem móðir hennar hér á landi sótti hana sex vikna gamla og veikburða og bjó henni öruggara og betra líf hér á landi.

DV lék forvitni á að vita hvað gerst hefði í leit Brynju á þessu ári sem liðið er frá því hún sagði sögu sína í DV. Enn á ný stendur hún á tímamótum í verkefninu og möguleikinn á að finna móður hennar verður raunverulegri með hverjum töluvpóstinum sem henni berst nú frá ræðismanninum á Srí Lanka.

Hjólin fóru að snúast eftir viðtalið

„Í kjölfar þess að greinin birtist í fyrra þá fóru hjólin að snúast og það mjög hratt. Margt fólk, sem ég þekkti ekkert fyrir ári, hafði samband og bauð fram aðstoð sína. Fólk sem er tengt Srí Lanka og fólk sem var að vinna í þessum ættleiðingarmálum á sínum tíma. Ég var hissa á að fá þetta fólk með mér í lið,“ segir Brynja. Það var síðan í ársbyrjun sem hún tók ákvörðun um að hún myndi fara til Srí Lanka á árinu 2017 og hóf að safna í ferðasjóð.

Hún segir að aðstoð í upprunaleit Íslenskrar ættleiðingar hafi verið takmörkuð varðandi ættleiðingar frá þessum tíma, sem voru með þeim fyrstu. „Mér fannst ég komin í smá blindgötu og það gerðist í nokkur skipti í þessu ferli og á þessu ári. Það var högg og vonbrigði en ég vildi halda áfram og leita sannleikans. Ég gafst ekki upp og alltaf kom nýtt fólk, með nýjar upplýsingar sem leiddu mig áfram hliðargötur, en alltaf áfram veginn þó.“

Ekki tilbúin í sjónvarpið

Brynja gerði hlé á leitinni í sumar en hreyfing komst á málin á ný eftir að þættir Sigrúnar Óskar Kristjánsdóttur, Leitin að upprunanum, voru sýndir á Stöð 2. Brynja segir að leitað hafi verið til hennar um að vera í þáttunum eftir viðtalið við DV.

„En ég var ekki alveg tilbúin í það. Það er ekki fyrir alla, varðandi svona persónuleg mál. Þetta voru frábærir þættir og hafa kveikt alveg nýtt ferli hjá mörgum sem eru í þessum hugleiðingum. Mér finnst magnað að þær hafi allar fundið sitt fólk, sem er fjarri því sjálfsagt og ég samgleðst þeim mjög. Þetta er frábær leið til að leita upprunans, þótt hún henti kannski ekki öllum.“

Þættirnir vöktu mikla athygli og í kjölfarið var Brynju bent á að hafa samband við ræðismanninn á Srí Lanka vegna leitarinnar að móður sinni. Hún hafði samband við utanríkisráðuneytið hér sem vísaði henni á íslenska sendiráðið á Indlandi sem kom henni í samband við ræðismanninn. Allt gerðist þetta fljótt en eftir að hún hafði sent erindi til ræðismannsins tók við bið. Eftir að hún athugaði með stöðu mála fékk hún þær upplýsingar að ræðismaðurinn hefði móttekið póstinn og hún fengi líklega póst eftir áramót. Hann barst þó fyrr en hana hafði grunað.

Sjokk eftir óvæntan póst

„Síðan var ég að undirbúa tónleika fyrir söngnemendur mína í byrjun desember og kíkti á tölvupóstinn minn. Þar sá ég póst frá Srí Lanka með titilinn: Leitin að móður þinni.
Ég missti símann og hjartað byrjaði að slá á yfirsnúningi. Án þess að hugsa opnaði ég póstinn – þótt ég væri alls ekki tilbúin að lesa það sem í honum stóð. Þar kom fram að leit væri hafin að móður minni sem búi „hér“ – og síðan stóð heimilisfangið hjá henni. Það var sjokk. Þarna fannst mér ég vera komin mjög langt áfram. Svona litlar upplýsingar, sem eru í raun mjög miklar.“

Eftir sjokkið voru tilfinningar Brynju blendnar. „Ég var ánægð en gerði mér líka grein fyrir að ég myndi fá þessar upplýsingar í pörtum, sem er mjög erfitt. Eiginlega verra en að fá þetta allt í einu, því þá þarf maður ekki að bíða. Ég er því eiginlega bara að bíða eftir næsta pósti, ég veit ekki hvaða svör þar verður að finna en það er eitthvert annað skref.“

Bið eftir svörum erfið

Aðspurð hvort heimilisfangið sem leitarteymið á Srí Lanka hafði upp á sé síðasta þekkta heimilisfang eða núverandi heimilisfang móður hennar, segir Brynja að hún viti það í raun ekki.

„Ég veit ekki hvort hún sé dáin eða á lífi og það kemur örugglega í ljós í næsta pósti. En hún hefur búið á þessu heimilisfangi og það kemur fram í fæðingarskjölunum mínum, þótt það hafi ekki verið heimilisfang. Þetta er bærinn, rétta nafnið á henni. Þau eru svo rosalega klár þarna úti, þau finna fólk sem er búið að skipta um nafn og hvað eina. Þarna búa 20 milljónir manna og ekki helmingur er skráður hjá Þjóðskrá. Ég skil ekki hvernig þau fara að þessu. Þetta er magnað og þau eru vön að gera þetta. Þannig að ég legg bara allt mitt traust á þeirra vinnu. Ég er gríðarlega þakklát fyrir þeirra vinnu, þau eru ekki að fá neitt fyrir þetta. Þau eru bara að hjálpa. En þetta heimilisfang er eitthvað sem móðir mín hefur búið á, en hvort hún býr þar í dag verður að koma í ljós. Ég verð bara að bíða og það er það erfiðasta í þessu ferli.“

Næsti póstur og hver póstur eftir það færir hana því hugsanlega nær líffræðilegri móður sinni og svörum við spurningunum sem brunnið hafa á henni um árabil. Brynja segir að henni hafi ekki dottið í hug fyrir ári að hún myndi komast svona langt af sjálfsdáðum og á eigin forsendum. Hún ætlar sér út til Srí Lanka á næsta ári, en ef allt gengur að óskum þá reiknar hún með að fara fyrr út. Allt veltur þó á næsta pósti og nýjum upplýsingum.

Áhuginn varð að báli

Brynja kveðst hafa þroskast og lært mikið á síðasta ári, ekki síst um sjálfa sig.

„Þetta hefur kennt mér þolinmæði, gríðarlega þolinmæði. Að bíða eftir svona erfiðum fréttum. Þetta hefur líka kennt mér hvað fólk er hjálpsamt og vill hjálpa manni í persónulegustu málum manns. Ég er svo þakklát að hjartað í mér er að springa. Ég fann ekki þennan áhuga á að leita þegar ég var yngri, það var eitthvað sem kveikti það í mér. Eftir að ég varð eldri þá vaknaði þetta og núna fyrir ári varð þetta að báli. Þá varð ég að vita upprunann. Það er sterkt í mér, það er kannski ekki sterkt í öllum. Það er eitthvað sem ég lærði líka um sjálfa mig. Ég hef þroskast og er hugrakkari en ég hélt ég væri.“

Alltaf búist við því versta

Í gegnum allt ferlið hefur Brynja lagt mikla áherslu á að halda sér niðri á jörðinni. Ekki láta væntingarnar hlaupa með sig í gönur og hún hafði undirbúið sig vel. Það er enda margt sem getur farið úrskeiðis í svona viðkvæmum málum. Oft eru börnin sem konur gáfu til ættleiðingar leyndarmál og þær gætu neitað að gangast við börnunum sem koma í leit að þeim áratugum síðar.

„Mér finnst erfitt að hugsa um að allt gangi upp, það liggur við að ég fari að gráta. Ef allt gengur að óskum þá gæti ég talið líklegt að ég færi út í febrúar. Ég á von á frekari svörum í janúar en veit ekki hversu löng bið er eftir þeim. Ég veit að það er erfitt að leita að fólki með takmarkaðar upplýsingar en þau eru að gera sitt allra besta. Ef þau finna hana setja þau upp fund þar, ef hún vill hitta mig, og það fer allt eftir því hvað hún vill. Ég get ekki ákveðið það út frá mínum forsendum, það verður að taka mið af hennar þörfum og vilja. Þetta er viðkvæmt málefni, það eru svo mörg leyndarmál á bak við mörg af þessum tilfellum. Eins og Íslensk ættleiðing sagði; maður getur verið að rústa fjölskyldum. Ég vil ekki leggja það á hana. Ef hún vill ekki, þá sætti ég mig við það. Ég ætla ekki að ýta neitt á það og ég verð að virða hennar óskir og vilja.“

Brynja segir langsótt fyrir hana að hugsa um að líffræðileg móðir hennar vilji hitta hana og að allt gangi að óskum. „Ég hef verið of jarðbundin í þessu eiginlega, býst alltaf við því versta. En þetta hefur gengið rosalega vel. Ég er ótrúlega ánægð með að hafa tekið þann tíma sem ég þurfti, ekki fara einhverja hraðferð. Þegar ég verð eldri vil ég geta munað og ég hef skrifað niður dagbók um hvert einasta atriði sem hefur gerst. Ég vil líka að sonur minn hafi aðgang að því og geti lesið yfir þetta og vitað um sinn uppruna. Ég lagði mig alla fram um það.“

Enn stendur Brynja því á ákveðnum tímamótum og bíður eftir næsta púsli í púsluspilið sem hefur verið að taka á sig mynd síðasta árið.

„Algjörlega. Það eru mörg púsl sem hafa bæst við síðan þá. Þetta púsluspil er að taka á sig mynd, og hún verður alltaf skýrari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Þessi fengu fálkaorðuna í dag

Þessi fengu fálkaorðuna í dag
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Snilldarráðið sem sigraði heimsbyggðina – Svona „eignast“ þú 111.000 krónur „aukalega“

Snilldarráðið sem sigraði heimsbyggðina – Svona „eignast“ þú 111.000 krónur „aukalega“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Búa ekki á landinu og hafa ekki borgað fasteignagjöldin

Búa ekki á landinu og hafa ekki borgað fasteignagjöldin
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Aldraður lögfræðingur gagnrýnir Snorra – „Ég hef alltaf talið þá aum­ingja sem ráðast á minni mátt­ar“

Aldraður lögfræðingur gagnrýnir Snorra – „Ég hef alltaf talið þá aum­ingja sem ráðast á minni mátt­ar“