– Bruggmeistarar Borgar Brugghúss notuðu fyrstu uppskeruna af íslenskum humlum
Nýr bjór sem Borg brugghús mun kynna á næsta ári er bruggaður með íslenskum humlum úr gróðurhúsi á Flúðum. Aldrei áður hefur bjór verið framleiddur með humlum héðan af landi var um fyrstu uppskeru nytjaplöntunnar á Íslandi að ræða.
Bruggmeistarar Borgar, sem er í eigu Ölgerðar Egils Skallagrímssonar, greindu frá þessu á Facebook-síðu fyrirtækisins á föstudag. Segir þar að humlarnir séu af gerðinni Columbus en plantan er notuð til að bragðbæta bjór og auka geymsluþol. Ekki kemur fram um hvers konar bjór er að ræða eða hvaða nafn hann mun fá.
„Loksins!! – íslenskir humlar!!!. Sá merki viðburður átti sér stað í vikunni að við brugguðum bjór úr fyrstu uppskeru af íslenskum humlum sem voru ræktaðir af miklum snillingum í gróðurhúsi á Flúðum og eru af gerðinni Columbus. Við getum ekki beðið eftir því að smakka á þessu. Tímamót! — at Borg Brugghús,“ segir í færslunni.