fbpx
Þriðjudagur 03.desember 2024
Fréttir

Katrín útilokar ekki viðræður við Sjálfstæðisflokkinn

Píratar hafna samstarfi við Framsóknarflokkinn – Fimm flokka stjórn ekki í myndinni

Ritstjórn DV
Föstudaginn 25. nóvember 2016 08:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Píratar hafna algjörlega samstarfi við Framsóknarflokkinn og því eru hugmyndir um að Katrín Jakobsdóttir geti haldið áfram tilraunum til myndunar fimm flokka stjórnar óraunhæfar. „Framsóknarflokkurinn er ekki til umræðu af okkar hálfu,“ segir Smári McCarthy í samtali við DV. Katrín vildi ekki, í samtali við DV, útiloka að Vinstri græn myndu ræða við Sjálfstæðisflokkinn um stjórnarmyndun.

Eftir að upp úr slitnaði í viðræðum Vinstri grænna, Pírata, Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar og Viðreisnar síðastliðið miðvikudagskvöld voru uppi hugmyndir um að Framsóknarflokkurinn gæti hugsanlega komið í stað Viðreisnar í stjórnarmyndunarviðræðum. Til þess hefði í það minnsta tvennt þurft að koma til, að Björt framtíð sliti samfloti sínu með Viðreisn, og að Píratar féllu frá þeirra afstöðu sinni að vinna ekki með Framsóknarflokknum. Píratar eru hins vegar ekki tilbúnir til þess.

Viðreisn sögð hafa siglt undir fölsku flaggi

Píratar halda fast við að samstarf með Framsókn eða Sjálfstæðisflokki séu út úr myndinni. Þá er mikill urgur í garð Viðreisnar innan raða Pírata. Mat Pírata er að Viðreisn sem heild hafi ekki komið að borðinu af fullum heilindum. Hluti þingmanna Viðreisnar hafi ekki komið að borðinu af heilum hug og aldrei haft hug á að ná lendingu í viðræðunum. Viðlíka raddir heyrast úr röðum Vinstri grænna.

„Fimm flokka stjórn er því út úr myndinni“

Mat Pírata mun nú vera að fáir leikir séu í stöðunni sem innihaldi Pírata sem þátttakendur í ríkisstjórn. Þingmenn flokksins vilja gjarnan halda áfram samfloti með Vinstri grænum undir forystu Katrínar Jakobsdóttur og hrósuðu þeir verkstjórn Katrínar mjög í viðtölum eftir að upp úr viðræðunum slitnaði. Hins vegar sjái þeir ekki fyrir sér með hvaða hætti það geti orðið.

VG telur tilgangslaust að halda áfram

Birgitta Jónsdóttir lýsti því yfir í gær, fimmtudag, að hún hefði áhuga á að leiða stjórnarmyndunarviðræður sömu fimm flokka og sigldu í strand síðastliðinn miðvikudag. Úr herbúðum Vinstri grænna lýstu menn þeirri skoðun að tilgangslaust væri að hefja viðræður aftur að nýju milli flokkanna fimm, þær myndu engu frekar skila undir forystu Birgittu en þær hefðu skilað undir forystu Katrínar.

Katrín átti í gær í samskiptum við formenn flokkanna með það fyrir augum að glöggva sig á stöðunni. Innan raða Vinstri grænna var áhugi á að fá Framsóknarflokkinn að viðræðuborðinu og sömuleiðis mun Samfylkingin ekki hafa verið því fráhverf. „Valkostum fækkaði fremur en hitt. Ég hef fengið það staðfest að fimm flokka stjórn með þátttöku Framsóknarflokksins er ekki valkostur, bæði af þeirra hálfu og af hálfu annarra. Fimm flokka stjórn er því út úr myndinni,“ sagði Katrín

Útiloka ekki viðræður við Sjálfstæðisflokk

Katrín á því ekki nema einn leik í stöðunni, að ræða við Sjálfstæðisflokkinn. Innan þingflokks Vinstri grænna munu vera skiptar skoðanir um hvort yfirhöfuð sé gerlegt að hefja slíkt samtal. Hluti þingflokksins leggst algjörlega gegn slíkum hugmyndum á meðan einhver hluti hans vill ekki loka á viðræður. Yrði farið í þær má hins vegar fullyrða að Vinstri græn gengju að borðinu með óbragð í munni. Hins vegar yrði það aldrei stjórn með Framsóknarflokknum, það útiloka Vinstri græn algjörlega.

Katrín ræddi við Bjarna Benediktsson í gær en gaf ekkert upp um hvað hefði farið þeim á milli.

Er einhver annar valkostur í stöðunni fyrir Vinstri græn annar en að ræða við Sjálfstæðisflokkinn um stjórnarmyndun?
„Það er nokkuð ljóst að svo er ekki, ef maður kann tölfræði.“

Telur þú þá ástæðu til að láta á það reyna?
„Ég bara hef ekki tekið neina afstöðu til þess. Það liggur fyrir að við reyndum okkar, þá leið sem við vildum fara. Það gekk ekki og við munum fara yfir stöðuna á þingflokksfundi í fyrramálið [í dag, föstudag]. Það er því engin niðurstaða sem liggur fyrir en það er ljóst að staðan er bara mjög þröng.“

Muntu þá skila stjórnarmyndunarumboðinu á morgun [í dag, föstudag]?
„Ég mun fara yfir það með þingflokknum.“

Spurð hvort þetta svar Katrínar, að hún hafi ekki þegar ákveðið að skila umboðinu, þýði ekki einmitt að hún hafi hug á að hefja viðræður við Sjálfstæðisflokkinn vildi hún ekki svara því.

Innan Sjálfstæðisflokksins mun vera vilji til þess að reyna á nýjan leik að mynda ríkisstjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð, og þá gjarnan með Framsóknarflokknum einnig. Þeirri skoðun lýsti Brynjar Níelsson meðal annars í samtali við DV og sagði að hann teldi ekki meinbugi á því að ná samkomulagi um þá málaflokka sem helst bæri í milli í.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign

Pútín hækkar „ónothæfan“ hershöfðingja í tign
Fréttir
Fyrir 12 klukkutímum

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu

Fæstir hafa líklega hugsað út í þessa þróun stríðsins í Úkraínu
Fréttir
Í gær

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn

Joe Biden harðlega gagnrýndur eftir að hann náðaði son sinn
Fréttir
Í gær

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín

Mjög ósáttur og hvetur Icelandair til að skammast sín