„Ég vaknaði í morgun við fullt pósthólf af skjáskotum vina minna af þessu. Ég las það sem Salvör skrifaði, sendi henni þá póst og bað hana um að fjarlægja nafnið mitt úr þessum bókmenntarannsóknum sínum og birta afsökunarbeiðni á sama vettvangi.“
Þetta segir Steinar Bragi í samtali við DV. Steinar Bragi er ósáttur við skrif sem Salvör Kristjana Gissurardóttir birti á Facebook-síðu sinni. Þar fjallaði Salvör um frétt Stöðvar 2 þar sem Eva Dís Þórðardóttir sagði frá skelfilegu kynferðisofbeldi í söfnunarþætti Stígamóta. Á einum stað í viðtalinu lýsir Eva manninum með þessum orðum:
„Maðurinn var eldri, var á listamannalaunum og hafði nógan tíma til að atast í mér.“
Salvör birti frétt Vísis á Facebook-síðu sinni og skrifaði:
„Er ekki alveg eins gott að segja bara nafnið á manninum sem stúlkan vísar í. Þessi sem var á listamannalaunum. Ég er ekki að segja að það sé Steinar Bragi en sögusvið sumra sagna hans er ansi myrkt. En hann er ekki sá eini sem skrifar um ofbeldi gagnvart konum. Glæpasögur er ein vinsælasta sögugerð nútímans og þemað þar er oft kynferðislegt ofbeldi.“
Brugðust margir illa við þessu líkt og kemur fram í frétt DV. Steinar Bragi hefur nú tjáð sig um málið en hann hefur íhugað að fara í málarekstur. DV sendi spurningu á Steinar og var innlegg Salvarar þá enn inni. Steinar Bragi segir að enn sem komið er hafi Salvör ekki beðist afsökunar:
„Ætli ég gefi henni ekki færi á því enn þá, þótt eflaust hafi fullt af fólki séð færsluna. – Það gleður mig ekkert sérstaklega að þurfa í málarekstur yfir meiðyrðum og sóa með því tíma fjölda manna. En það er jafn erfitt að sitja þegjandi hjá þegar ég er bendlaður við svona hryggilegt mál,“ segir Steinar Bragi og bætir við:
„Salvör virðist leggja það að jöfnu að vera raunsannur í lýsingum á ofbeldi og vera ofbeldismaður sjálfur, sem eru í sjálfu sér ákaflega góð meðmæli með því sem ég skrifa en að sama skapi ákaflega, skelfilega vitlaust af henni.“
Uppfært klukkan 23:00 – Salvör baðst afsökunar og fjarlægð færsluna.