Geitin brann nánast til kaldra kola
IKEA-geitin við Kauptún í Garðabæ brann nánast til kaldra kola í nótt eftir að eldur var borinn að henni. Tilkynnt var um eld í geitinni klukkan fjögur í nótt og að sögn lögreglu sáust hinir grunuðu yfirgefa vettvanginn í bifreið sem var stöðvuð skömmu síðar. Þar voru þrír menn handteknir og voru tveir þeirra vistaðir í fangageymslu lögreglu.
Mbl.is hefur eftir varðstjóra hjá slökkviliðinu að geitin hafi nánast brunnið til kaldra kola. Í síðustu viku var reynt að kveikja í geitinni en þeir sem þar voru að verki höfðu ekki erindi sem erfiði. Þeir mega reyndar prísa sig sæla því litlu mátti muna að þeir kveiktu í sér, eins og sást á öryggismyndavélum og greint var frá á dögunum.