IP útgerð í Garðabæ var rekin með 7,5 milljóna tapi í fyrra
Hvalveiðifyrirtækið IP útgerð ehf. var rekið með 7,5 milljóna króna tapi í fyrra. Það ár veiddu starfsmenn þess 29 dýr. Afkoman var þá örlítið lakari en árið 2014 þegar reksturinn skilaði 6,7 milljóna tapi.
IP útgerð er í eigu Höllu Hallgeirsdóttur en eiginmaður hennar Gunnar Bergmann Jónsson hefur stundað hrefnuveiðar í rúman áratug. Síðustu ár hefur fyrirtæki þeirra gert út skipið Hrafnreyður KÓ-100 en bókfært virði þess var 5,5 milljónir í árslok 2015. Aðrar eignir félagsins, sem er skráð í Garðabæ, námu þá 848 krónum en skuldirnar samtals 22,5 milljónum.
Félag Höllu var eitt tveggja fyrirtækja sem stunduðu hrefnuveiðar síðasta sumar. Gunnar sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar þann 2. september síðastliðinn að starfsmenn útgerðarinnar hefðu veitt 46 dýr í sumar. Aukin eftirspurn og léleg aflabrögð hafa leitt til þess að flytja hefur þurft hrefnukjöt hingað til lands. Vörur útgerðarinnar eru seldar í verslunum hér á landi en hjónin eiga einnig félagið IP dreifing ehf. Það var rekið með 265 þúsunda króna hagnaði í fyrra og átti þá eignir upp á 30 milljónir.