Gæti gefið flokknum aukinn byr í komandi kosningabaráttu
Sigur Sigurðar Inga Jóhannssonar, forsætisráðherra, og Lilju Daggar Alfreðsdóttur, utanríkisráðherra í formannskjöri á flokksfundi Framsóknarflokksins í gær, gæti beint jákvæðri athygli að flokknum og gefið honum byr undir báða vængi í kosningabaráttunni.
Þetta segir Baldur Þórhallsson, Prófessor í stjórnmálafræði, í Morgunblaðinu í dag.
Baldur bendir á að flokkurinn sé nú kominn með nýja forystu. Formaðurinn hafi gegnt embætti forsætisráðherra í nokkra mánuði og verið farsæll í starfi auk þess sem hann höfði til fólks á landsbyggðinni.
Þá sé Lilja Alfreðsdóttir ný í stjórnmálum og nokkuð óumdeild og höfðar hún að mati Baldurs meira til hefðbundins fylgis á höfuðborgarsvæðinu.
Baldur segir að Framsóknarflokknum hafi þannig tekist að endurnýja sig fyrir kosningar og telur hann að Sigurður Ingi og Lilja verði áberandi í umræðunni fram að kosningum þar sem þau eru nýkjörin í embætti.
Þetta veiti flokknum tækifæri í kosningabaráttunni en átökum innan flokksins þurfi að linna.
Baldur telur einnig að með Sigurð Inga í formannsstólnum hafi flokkurinn styrkt stöðu sína fyrir komandi stjórnarmyndunarviðræður því Sigurður Ingi geti væntanlega unnið með bæði hægri- og vinstriflokkum.