fbpx
Sunnudagur 05.janúar 2025
Fréttir

Vilja að sjómenn niðurgreiði veiðigjöld með launum sínum

Sjómenn vekja athygli á umdeildri kröfu SFS um kostnaðarþátttöku þeirra – Krafan sett til hliðar og samþykkt að hún yrði rædd í samningnum sem var felldur

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 18. október 2016 13:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Sjómenn eru á leið í ótímabundið verkfall frá og með 10. nóvember næstkomandi eftir að það var samþykkt með miklum meirihluta atkvæða á mánudag. Sjómenn hafa verið að stála hnífa sína í kjarasamningsbaráttunni undanfarna daga í ljósi yfirstandandi kosningar um ótímabundið verkfall í kjölfar þess að þeir felldu kjarasamning sem undirritaður var 24. júní síðastliðinn. Líkt og áður hefur komið fram hafa samningar sjómanna verið lausir í sex ár og hafa margir sjómenn notað tækifærið til að vekja athygli á stöðu sinni á samfélagsmiðlum.

Einn liður í því var að vekja athygli á kröfugerð Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS), áður LÍÚ, í samningaviðræðunum. Þar vekur sérstaka athygli krafa SFS um nýjar og auknar álögur frá stjórnvöldum til dæmis vegna veiðigjalds verði dregnar frá aflaverðmæti fyrir skipti. Þessi kostnaðarþátttaka sjómanna hefði í för með sér umtalsverða launalækkun fyrir sjómenn, þar sem minna yrði eftir til skiptanna af aflaverðmætum fyrir þá. Krafan er líka að það sama eigi við um trygginga-, raforku- og kolefnisgjald. Þessi krafa SFS hefur auk margra annarra verið eitt helsta bitbeinið í viðræðum og eitthvað sem sjómenn hafa ekki viljað sætta sig við. Formaður Sjómannasambands Íslands segir kröfuna um kostnaðarþátttöku sjómanna í veiðigjöldum arfavitlausa.

Þessar kröfur SFS höfðu þó auk annarra stórra mála verið sett til hliðar í samningaviðræðunum sem lauk með undirritun í sumar. Í samningnum sem felldur var urðu aðilar sammála og bókað að kostnaðarþátttaka sjómanna í veiðigjöldum, nýsmíði skipa og sambærileg ákvæði yrðu rædd, fyrir lok samningstíma. Eftir stendur þó að þetta atriði var eitt þeirra aðalmála sem útgerðarmenn lögðu áherslu á og er að finna í kröfugerð þeirra.

Hefði lækkað laun um tugi prósenta

„Þegar veiðigjöldin voru há hefði það þýtt að laun sjómanna hefðu lækkað um 30 prósent á einum degi,“ segir Valmundur Valmundsson, formaður Sjómannasambands Íslands, aðspurður um málið. „Þetta yrði kannski 15 prósent í dag en það gerir enginn svona. Fyrir utan að við sækjum ekki í auðlindina, nema sem starfskraftur. Við nýtum hana ekki okkur til hagsældar, að öðru leyti en því að við vinnum við þetta. Við fáum ekki hagnað af fyrirtækjunum, við fáum ekki hagnað af útgerðinni. Ef við fengjum það yrðum við kannski reiðubúnir að ræða að taka þátt í þessu, en það er ekki í boði,“ segir formaðurinn.

Formaður Sjómannasambands Íslands segir að sjómenn sæki ekki í auðlindina nema sem starfskraftur og fái ekki hagnað af útgerðinni. Það sé fáránleg krafa að þeir niðurgreiði veiðigjöld sem lögð eru á fyrirtækin.
Valmundur Valmundsson Formaður Sjómannasambands Íslands segir að sjómenn sæki ekki í auðlindina nema sem starfskraftur og fái ekki hagnað af útgerðinni. Það sé fáránleg krafa að þeir niðurgreiði veiðigjöld sem lögð eru á fyrirtækin.

DV fjallaði um það fyrr á þessu ári hvernig útgerðir fá 10 prósenta afslátt af launum sjómanna í sjö ár þegar þær kaupa ný skip. Hið svokallaða nýsmíðaákvæði kjarasamninga þeirra er afar umdeilt meðal sjómanna enda eru þeir í raun að greiða fyrir ný skip útgerðanna úr eigin vasa. Í umfjöllun DV kom fram að dæmi eru um að áhafnir skipa hafi skilað 10–12 prósentum af smíðaverði skipa til útgerðar í formi launa. Kröfur SFS eru af sama toga og finnst sjómönnum sem enn eigi að seilast dýpra í vasa þeirra til að mæta útgjöldum.

„Þeir geta átt sín auðlindagjöld sjálfir. Við erum alveg tilbúnir að standa með þeim í að lækka þau en að við förum að greiða það fyrir þau er bara fáránlegt,“ segir Valmundur sem sagði þegar DV ræddi við hann fyrir helgi að mikil samstaða væri meðal sjómanna.

Grjótharðir sjómenn

„Hvert sem maður fer þá eru menn bara grjótharðir. Þetta gengur ekki svona lengur. Menn eru búnir að vera samningslausir í sex ár og viðkvæðið er alltaf að það sé ekki hægt að semja við okkur því óvissan í sjávarútvegi sé svo mikil. Ég sé ekki annað en að hún verði það næstu 20 árin, eigum við þá bara að vera samningslausir?“

Sjómenn telja sig hafa á þessum tíma orðið eftir á mörgum sviðum. Vissulega hoppi þeir upp og niður í launum eftir aflaverðmæti en það séu fleiri sjálfsögð atriði sem nauðsynlegt sé að breyta.

„Fólkið í landi fær desember- og orlofsuppbót. Sjómenn fá það ekki. Fólkið í fiskvinnslunni og tengdum störfum þar sem þarf að vera í slorgalla allan daginn fær borgað nánast allan vinnufatnað. Sjómenn fá andvirði þriggja vettlingapara á mánuði, svo dæmi sé tekið. Það er því heilmikið eftir á hjá okkur. Menn verða að fara að hysja upp um sig brækurnar og fara að semja við okkur.“

DV leitaði skýringa á forsendum þessara krafna um kostnaðarþátttöku sjómanna í veiðigjöldum hjá Heiðrúnu Lind Marteinsdóttur, framkvæmdastjóra SFS. Þau svör fengust að sjómenn greiði eða taki þátt í hluta veiðigjalda, meðal annars í Færeyjum og á Grænlandi, og þessi þátttaka hafi því verið til skoðunar og umræðu á þeim forsendum. SFS vildi að öðru leyti ekki tjá sig um samningaviðræður og einstaka mál að svo stöddu.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Í gær

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Í gær

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“