Segist vera fórnarlamb í málinu og neitar sök
Faðir íslensku stúlkunnar sem situr í fangelsi grunuð um aðild að smygli á töluverðu magni af kókaíni segir að hún sé fórnarlamb í málinu og neiti sök. Ekkert sé hæft í því að parið hafi nefnt Guðmund Spartakus Ómarsson í yfirheyrslum líkt og paragvæskur blaðamaður gerði í samtali við RÚV.
RÚV greindi frá þessu í kvöldfréttum sínum í gærkvöldi. Blaðamaðurinn sem um ræðir, Cándido Figueredo Ruiz, sagði í samtali við RÚV að parið hefði nefnt við yfirheyrslur hjá lögreglu að Guðmundur Spartakus, sem DV hefur áður fjallað um, væri einn af umsvifamestu fíkniefnasmyglurum á svæðinu.
Í frétt RÚV í gærkvöldi kom fram að brasilískur lögmaður konunnar hafi aflað gagna hjá lögreglu í Fortaleza, sem utanríkisráðunehytið sá svo um að þýða. Þar komi fram að parið hafi ekki nefnt neitt nafn í yfirheyrslum hjá lögreglu.
„Okkur finnst þetta mikill ábyrgðarhlutur að varpa þessu fram, því við teljum að þetta geti komið stúlkunni í verulega hættu,“ segir faðirinn í samtali við RÚV. „Við vitum og höfum séð að það hefur bara farið fram ein yfirheyrsla það sem ekkert þessu líkt kemur fram, þannig að það er alveg á kristaltæru að þau sögðu ekki til eins eða neins.“
Faðirinn sagði að stúlkan væri nú komin í kvennafangelsi og aðbúnaður þar sé merkilega góður. Hann segir hana bera sig vel en óvissan sé mikil og málið taki á fjölskylduna. „Það líður öllum hræðilega. Fólk er nánast rúmliggjandi og óstarfhæft.“