fbpx
Fimmtudagur 26.september 2024
Fréttir

Rúna og Ásgeir ráðþrota: Bolað út úr eigin íbúð vegna kannabisreykinga nágranna

Lyktin hefur læst sig í allt – „Ekki hægt að opna gluggann án þess að kúgast“ – Hafa hlotið heilsubresti

Auður Ösp
Miðvikudaginn 13. janúar 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við erum komin á þann stað að við getum þetta ekki lengur. Við verðum að komast heim til okkar aftur,“ segir Rúna Loftsdóttir en hún og eiginmaður hennar, Ásgeir Sigurðsson, hafa nú séð sig tilneydd til þess yfirgefa íbúð sína við Norðurbakka í Hafnarfirði eftir að ungt par flutti inn í íbúðina fyrir neðan. Fullyrðir Rúna að parið reyki daglega kannabisefni og fylgi því gífurleg kannabislykt sem hafi læst sig í íbúð þeirra hjóna með skelfilegum afleiðingum.

Sökum þessa er eignin óíbúðarhæf, að þeirra sögn, og hafa þau neyðst til þess að flytja inn á ættingja og vini. Þá verði aðrir íbúar hússins einnig fyrir ónæði vegna lyktarinnar. Rúna gagnrýnir hversu lítill réttur íbúðareigenda er og segir það skelfilegt að vera bolað út af eigin heimili.

Vandræði frá fyrsta degi

„Við höfum búið í íbúðinni í rúmt ár en tengdafaðir minn átti hana frá upphafi,“ segir Rúna í samtali við DV.is. Um er að ræða fjölbýlishús á fjórum hæðum að Norðurbakka 23 og eru tuttugu íbúðir í stigaganginum. Að sögn Rúnu er íbúðin hönnuð á þann veg að svalirnar eru innbyggðar og allir gluggar vísa út á svalir. Lykt og reykur úr nærliggjandi íbúðum á því greiða leið þar inn.

Hún segir parið hafa leigt íbúðina fyrir neðan frá því í byrjun desember. „Strax fyrsta daginn byrjum við að finna kannabislykt. Þetta smýgur sér alls staðar inn. Þetta fólk reykir allan sólarhringinn þannig að þetta hefur verið stanslaust frá fyrsta degi. Þessi lykt er búin að læsa sig í allt: húsgögn, föt og hvaðeina. Það er ekki hægt að opna gluggann því þá kúgast ég af lyktinni. Við prófuðum að hafa allt lokað, kveikja á viftu og hafa opið fram á stigagang en það dugði engan veginn. Auk þess angar stigagangurinn líka af þessari lykt,“ segir Rúna jafnframt og tekur fram að börn búi einnig í húsinu og þurfi að lifa við óþefinn.

Eru á vergangi

Rúna og Ásgeir sáu sér ekki annað fært en að yfirgefa íbúðina einungis örfáum dögum eftir að parið á neðri hæðinni flutti inn. „Síðan þá höfum við flakkað á milli vina og ættingja og við erum beinlínis á vergangi. Við höfum mest verið hjá mömmu minni og mágkonu. Það er ekki hægt að segja að það hafi verið ánægjuleg aðventa hjá okkur. Þetta er bæði andlegt álag sem og líkamlegt og við gjörsamlega buguð.“

„Við höfum reynt að tala við leigjendurna en við mætum bara skeytingi og öskrum frá þeim. Stjórn húsfélagsins hefur líka reynt að tala við leigjendurna sem og eiganda íbúðarinnar,“ segir hún og bætir við að eigandi íbúðarinnar skelli skollaeyrum við ástandinu. „Hann vill ekkert gera og virðist vera alveg sama um þetta. Hann segist ekki „kæra sig um að að lenda í einhverjum lögfræðikostnaði.“ Hann fær greidda sína leigu og lætur þar við sitja. Á meðan erum við algjörlega réttlaus. Ég hefði haldið að það myndi vera einfalt að rifta leigusamningi á grundvelli þess að lögreglan hefur margoft haft afskipti af leigjendunum en eigandinn virðist ekkert skeyta um það. Þar af leiðandi eru það bæði eigandi íbúðarinnar og leigjendurnir sem eru að koma okkur á götuna.“

Hendur lögreglunnar bundnar

„Við höfum einnig ítrekað kallað á lögregluna vegna þeirra og það var seinast á sunnudaginn sem hún kom,“ heldur hún áfram. „Það er hins vegar eins og það vanti allan lagaramma í kringum þetta því það er mjög takmarkað sem lögreglan getur gert og það eru bara tímabundnar lausnir.“

„Einn íbúi stigahússins, sem var að hringja í lögreglu vegna megnar kannabislyktar í sameign, kom hingað inn til okkar og sagði að það væri eins og koma inn í myrkur að ganga inn í húsið. Þau svör sem við fáum frá lögreglunni eru þau að það eina sem geti hjálpað okkur er að tilkynna fólkið í gríð og erg og hringja í hvert sinn sem við verðum vör við reykingar. Lögreglan hefur sagt við okkur að með þessum hætti getum við kannski pirrað þetta fólk nógu mikið til þess að þau gefist upp og flytji út.“

„Þegar þessi ósköp skullu yfir okkur í byrjun desember þá var það okkar fyrsta nálgun að almennar reglur fjöleignarhúsalaga væru virtar, það er að segja með heimilisfrið eftir klukkan ellefu á kvöldin,“ segir Rúna. Það eru einnig mjög skýrar reglur hér í húsfélaginu sem eru öllum sýnilegar í sameign: Að milli ellefu á kvöldin og sjö á morgnanna eiga allir íbúar að hafa svefnró og þar er ekki bara verið að fjalla um hljóðmengun heldur eiga allir íbúar að hafa þann rétt að sofa heima hjá sér. Það var okkar fyrsta nálgun við leigjandann að þau myndu virða þessar reglur en þar mætti okkur ofboðslegur ofstopi og tveim dögum seinna hótun, en þá rakst maðurinn minn á þau frammi í sameign og sagði við þau að „þessu yrði að linna,“ segir Rúna en viðbrögðin voru ofafengin.

„Þar fékk Ásgeir þau skilaboð að „Ef þú ert eitthvað að hóta mér þá veistu ekki hverju þú ert að mæta“. Í kjölfarið á því fór mamma leigjandans að ónáða okkur í heimasímann á þeim forsendum að við værum með ofstopa gegn syni hennar. Eftir eina lögregluheimsóknina,þegar lögreglan fór inn til þeirra og þurfti meðal að snúa hann niður,þá fékk ég hótun í formi vinabeiðni á Facebook. Ég hunsaði það einfaldlega.“

Hún segir að þau hafi einnig leitað til lögfræðings vegna málsins. „Þar fengum við þau svör að í raun sé ekkert mál að rifta leigusamningum og koma þeim út en á meðan eigandinn vill ekkert gera og er að draga lappirnar þá er staðan einfaldlega svona,“ segir hún og bætir við að tveir kostir blasi við í málinu: Annað hvort að fá eigandann í lið með þeim og rifta leigusamningnum eða þá að fara í mál við hann. „Það tekur marga mánuði í kerfinu og kostar mikið. Í raun væri þá betra að selja, sem er fáránleikinn í þessu öllu saman.“

Vaknaði með kvef, höfuðverk og ógleði

Ástandið er því óbreytt að sögn Rúnu og er ekki aðeins komið að þolmörkum hjá þeim hjónum heldur einnig öðrum íbúum hússins. „Fólk hefur verið að taka verðmæti úr geymslum hjá sér af ótta við þjófnað. Það veit enginn hvað er hægt að gera.“

Þar sem að Rúnu var tjáð að best væri að tilkynna parið sem oftast hefur hún reynt að gista í íbúðinni svo hún geti gert lögreglunni viðvart. Á meðan getur Ásgeir ekki dvalið þar. „Hann er með alvarlegan hjartasjúkdóm og þessi reykur ýfir upp einkennin vegna þess að þegar þú ert hjartasjúklingur þá þarftu súrefni, það er númer eitt, tvö og þrjú. Hann fær gífurleg þyngsli fyrir hjartað,“ segir hún.

„Ég gisti þar í nótt og treysti mér ekki í vinnuna í morgun því það var reykt svo mikið. Ég reyndi að sofa inni í stofu en það dugði ekki til. Ég vaknaði með kvef, höfuðverk og ógleði og leið ömurlega.“

Hún segir þau hjónin gjörsamlega ráðalaus gagnvart ástandinu. „Við viljum vekja athygli á hversu óréttlát það er að eigendur íbúðar þurfa að vera á götunni. Við erum algjörlega réttlaus í okkar eigin íbúð og það er svakalega erfiður biti að kyngja. Við sjáum ekki fram á endann á þessu og þess vegna tel ég nauðsynlegt að vekja upp umræðu um þessi mál, um takmarkaðan rétt íbúðareigenda.“

Við vinnslu fréttarinnar ræddi DV við eiganda íbúðarinnar sem neitaði að tjá sig um málið.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 13 klukkutímum

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi

Drengurinn sem grunaður er um hnífstunguárásina á menningarnótt áfram í gæsluvarðhaldi
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing

Vinsælasti borgarfulltrúinn ætlar á þing
Fréttir
Í gær

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco

Tveir Íslendingar sagðir hafa svikið rúmlega hálfa milljón Bandaríkjadala út úr fyrirtæki í San Francisco
Fréttir
Í gær

Maðurinn sem lést í Hlauptungufossi var frá Katar

Maðurinn sem lést í Hlauptungufossi var frá Katar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“

„Í fyrsta skiptið í mínu lífi var ég meðhöndlaður eins og hundur“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Dópsali með fulla vasa af peningum sagðist hafa verið að selja vændi

Dópsali með fulla vasa af peningum sagðist hafa verið að selja vændi