Segist ekki tengjast herferðinni á neinn hátt – Sögð vera hryðjuverkamaður og skoðanakúgari í beinni útsendingu
Sema Erla Serdar, formaður Samfylkingarinnar í Kópavogi, skýtur fram spurningu þess efnis á Facebok-síðu sinni hvort Útvarp Saga ali á fordómum og hatri hjá fólki. Sjálf er Sema sökuð um að tengjast herferð þar sem auglýsendur eru hvattir til að sniðganga Útvarp Sögu. Í samtali við DV segist Sema Erla ekki koma nálægt herferðinni, þó hún fagni henni.
Eins og áður kom fram fór nýlega af stað herferð á samfélagsmiðlum þar sem auglýsendur á Útvarpi Sögu voru hvattir til að hætta að auglýsa á stöðinni. Yfir þúsund manns hafa stutt herferðina. Pressan greindi frá á dögunum. Herferðin fór af stað í kjölfar þess að annar eigandi stöðvarinnar sagði hælisleitendur hérlendis tilheyra hryðjuverkasamtökunum ISIS.
Sema, sem hefur verið dugleg við að gagnrýna þá sem hún telur ala á fordómum gagnvart innflytjendum, birti skjáskot af hatursfullum ummælum þar sem hún er sögð leggja fólk í einelti, „múslima djöfull“ og „Araba tussa.“
Sjá nánar: Sema Erla hjólar í Bítið: Sagði þáttastjórnendur ala á ótta og hatri í garð múslima
Í samtali við DV segir Sema að hún hafi verið kölluð hálftyrkneskur hryðjuverkamaður, skoðanakúgari og þöggunarkommúnisti svo eitthvað sé nefnt, í beinni útsendingu á Útvarpi Sögu.
„Sannleikurinn hefur ekki verið að vefjast fyrir í málflutningi stöðvarinnar og það á heldur ekki við hér. Þó ég telji herferðina ágætis leið til að vekja athygli á hatursáróðri og fordómum stöðvarinnar á ég ekki heiðurinn að henni,“ segir Sema, en segir samt sem áður þáttastjórnendur á stöðinni, sem og stuðningsmenn hennar hafa farið hamförum í skrifum og umræðum um sig.