Fleiri starfsmenn sagðir hafa leitað til lögreglu
Vinnumansalsmálið sem lögreglan hefur til rannsóknar átti sér stað á Hótel Adam á Skólavörðustíg. Þetta kom fram í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Greint var frá því í gær að konunni hefði verið haldið nauðugri í starfi á hóteli á höfuðborgarsvæðinu.
Hótelið sem um ræðir er Hótel Adam, að því er fram kom í fréttum Stöðvar 2 í kvöld, en hótelið komst í fréttirnar fyrr á árinu vegna þess að það seldi gestum sínum kranavatn sem búið var að tappa á flöskur. Voru gestir hvattir til að drekka frekar vatnið úr flöskunum sem kostaði 400 krónur.
Konan sem fjallað var um í gær var sögð hafa verið látin gista í herbergi með yfirmanni sínum. Hún er sögð hafa fengið greiddar tæpar 60 þúsund krónur þrátt fyrir að hafa verið við vinnu nær alla daga mánaðarins.
Í fréttum Stöðvar 2 í kvöld kom fram að fleiri starfsmenn hótelsins hafi leitað til lögreglu síðastliðna daga vegna gruns um að vera fórnarlömb mansals. Félagið sem heldur utan um reksturinn heitir R. Guðmundsson ehf. og er skráður eigandi þess Ragnar Guðmundsson. Í fréttum Stöðvar 2 kom fram að ekki liggi fyrir hvort Ragnar tengist máliniu sjálfur, en hann mun vera staddur erlendis.