„Ég vil ekki sjá að hann sé hérna“
„Ég vil ekki sjá að hann sé hérna,“ var hrópað að Bjartmari Oddi Alexanderssyni á fundi Þjóðfylkingarinnar, nýstofnaðrar hreyfingu þjóðernissinna á Íslandi. Fundargestir vildu ólmir losna við hann úr salnum.
Þjóðfylkingin, sem meðal annars berst gegn byggingu mosku á Íslandi og vill vinna eftir kristnum gildum, hélt kynningarfund á Nordica hóteli síðastliðna helgi. Greint er frá fundinum á vef Fréttatímans, þar sem stefna flokksins er sögð ganga út á að „endurheimta óljósa fortíð sem aldraðir fundargestir einir könnuðust við“.
Andrúmsloftið á fundinum var afslappað þar til fundarstjóri ávarpaði Bjartmar Odd sem hefur verið virkur á Pírataspjallinu og birti meðal annars umtöluð viðtöl við Margréti Friðriksdóttur og Örvar Harðarson á Youtube um innflytjendamál, en sá síðarnefndi var fundarstjóri á fundinum. Krafðist Örvar þess að Bjartmar kynnti sig og útskýrði nærveru sína.
Töluvert uppnám varð á fundinum vegna þessa og má heyra eldri mann ítrekað hrópa „Út! Út!“. Þá má á einu myndbandinu sjá eldri mann halla sér í átt til Bjartmars og spyrja: „Hérna, ertu gay?“ Bjartmar svarar því neitandi.
Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur um að Bjartmari yrði vísað á dyr varð niðurstaðan sú að hann fékk að vera áfram í salnum, en þó gegn því að hann ætti ekki afturkvæmt ef hann „afskræmdi orð fundarmanna“.