fbpx
Laugardagur 02.nóvember 2024
Fréttir

Stærstu eignir sumra sjóða Eaton Vance í krónum

Skuldabréfasjóðir Eaton Vance eiga krónur fyrir um 40 milljarða – Er í hópi stærstu aflandskrónueigenda

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 10. maí 2016 09:35

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Skuldabréfasjóðir á vegum bandaríska sjóðastýringarfyrirtækisins Eaton Vance Management eiga íslensk ríkisskuldabréf í krónum fyrir nærri 40 milljarða. Að langstærstum hluta er um að ræða aflandskrónur, sem hafa verið fastar á bak við fjármagnshöft hérlendis undanfarin ár, en einnig óverðtryggð ríkisskuldabréf sem sjóðir í stýringu Eaton Vance hafa verið að kaupa á síðustu mánuðum og misserum í gegnum nýfjárfestingaleið Seðlabanka Íslands.

Samkvæmt yfirlitum um eignasamsetningu verðbréfasjóða í stýringu hjá Eaton Vance í lok mars á þessu ári er fyrirtækið með fimm skuldabréfasjóði sem eiga eignir í íslenskum krónum auk þess sem einn hlutabréfasjóður átti skráð íslensk hlutabréf fyrir um 500 milljónir króna. Það sem vekur einkum eftirtekt er að þegar litið er til gjaldmiðlasamsetningar eigna skuldabréfasjóðanna þá er krónueign þeirra í öllum tilfellum á meðal hlutfallslega stærstu eigna sjóðanna. Þannig er krónueign tveggja stærstu skuldabréfasjóðanna – Global Macro Absolute Return Advantage Fund og Global Macro Absolute Return Fund – næststærsta eign þeirra, en samtals eru sjóðirnir með krónueignir í stýringu að fjárhæð 34 milljarða. Tæplega 5% af um samtals 700 milljarða hreinni eign skuldabréfasjóðanna eru krónueignir. Eru sjóðirnir því með gnóttstöðu (e. long position) í krónunni og hafa verið að bæta við eign sína í íslenskum ríkisskuldabréfum þar sem „innlendar skuldir landsins hafa orðið enn eftirsóknarverðari“, eins og segir í gögnum frá skuldabréfasjóðunum.

Eaton Vance Management, eitt af stærstu sjóðastýringarfyrirtækjum heims, er á meðal þeirra erlendu fjármálafyrirtækja sem eiga hvað mestra hagsmuna að gæta þegar kemur að því að leysa út um 290 milljarða aflandskrónueignir í fyrirhuguðu útboði Seðlabankans í næsta mánuði. Þá mun aflandskrónueigendum bjóðast að losna strax með fé sitt úr landi í gegnum gjaldeyrisforða Seðlabankans með verulegu álagi eða að skipta á eignum sínum fyrir ríkisskuldabréf í krónum til 20 ára með útgöngugjaldi fyrstu sjö árin eða skuldabréfi til meðal langs tíma í evrum. Þeir fjárfestar sem fallast ekki á þessi skilyrði stjórnvalda enda með krónueignir sínar á læstum reikningum, eða svonefndum stöðugleikareikningum, til langs tíma á engum eða neikvæðum vöxtum. Frumvarp um stöðugleikareikninga ætti að verða lagt fram á Alþingi í þessari viku eða þeirri næstu.

Lýtur öðrum lögmálum

Rétt eins og fjallað hefur verið um í DV þá íhuga sumir af umsvifamestu eigendum aflandskróna, meðal annars Eaton Vance, að taka ekki þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans og velja fremur þann kost að enda með fé sitt á læstum reikningum. Eru sjóðirnir sagðir vera ekki reiðubúnir að selja krónueignir sínar á gengi sem er tugprósentum lægra en opinbert gengi krónunnar og kanna þeir því núna hvaða lagalegu úrræði þeir hafa til að bregðast við væntanlegum aðgerðum stjórnvalda. Þannig hafa sjóðirnir meðal annars leitað til íslenskra ráðgjafa til að greina betur stöðu sína.

Í fjárhagsupplýsingum frá sjóðunum, til dæmis hjá Eaton Vance og bandaríska sjóðastýringarfyrirtækinu Loomis Sayles, má hins vegar sjá að þeir telja að markaðsvirði þessara aflandskrónueigna sé nærri 40% lægra miðað við skráð gengi krónunnar. Með öðrum orðum vænta þeir þess að við útgöngu úr höftum, þar sem þeir selja krónueignir sínar fyrir erlendan gjaldeyri úr forða Seðlabankans, verði gengið um 195 krónur gagnvart evru. Til samanburðar var gengið í þeim gjaldeyrisútboðum sem Seðlabankinn hélt í tengslum við fjárfestingaleiðina á árunum 2011 til 2015 að meðaltali um 220 krónur gagnvart evru. Rétt er hafa í huga að aflandskrónur eru sérstakur eignaflokkur sem lýtur öðrum lögmálum en venjulegar krónur, sem hafa ríkari heimildir til fjárfestinga hérlendis, og eru því fyrir vikið talsvert ódýrari en aðrar íslenskar krónur.

Kaupir íslensk hlutabréf

Þrátt fyrir að fyrirséð sé að erlendir aðilar á borð við Eaton Vance þurfi að taka á sig tugprósenta afföll af krónueignum sínum taki þeir þátt í gjaldeyrisútboði Seðlabankans þá hafa þeir verið að fjárfesta á síðustu mánuðum í skráðum hlutabréfum og ríkisskuldabréfum á Íslandi. Þannig var greint frá því í DV í lok febrúar á þessu ári að fjárfestingarsjóðurinn Global Macro Portfolio, sem er stýrt af Boston Research and Management, dótturfélagi Eaton Vance, væri kominn í hóp tuttugu stærstu hluthafa HB Granda og Eimskipa. Er eignarhlutur sjóðsins í þessum tveimur félögum metinn á um 900 milljónir króna en auk þess hafa aðrir sjóðir tengdir Eaton Vance verið að kaupa fyrir talsverðar fjárhæðir í öðrum fyrirtækjum sem eru skráð í Kauphöll Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald

Maðurinn sem er grunaður um að hafa banað móður sinni í Breiðholti úrskurðaður í áframhaldandi gæsluvarðhald
Fréttir
Í gær

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko

Efni sem valda krabbameini og ófrjósemi fundust í snyrtivörum – Eilífðarefni í vörum Sephora og Kiko
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“

Hjúkrunarfræðingar kæra launamun: „Það er 2024 og við erum stödd þarna“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“

Sigmar furðar sig á viðbrögðunum: „Elín Margrét lét þá ekki slá sig út af laginu“