Gestum var ráðlagt að kaupa frekar vatnið á 400 krónur
Flöskuvatn sem eigandi Hótel Adam seldi gestum sínum á 400 krónur kom úr sömu krönum og gestir hótelsins höfðu verið varaðir við að drekka úr.
Frá þessu greinir RÚV en þetta fékkst staðfest hjá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur.
DV.is greindi frá málinu í febrúar, en það vakti athygli þegar myndir af sérmerktum vatnsflöskum birtust á samfélagsmiðlum. Var gestum boðið að kaupa tveggja lítra vatnsflösku á 400 krónur.
Gestum hótelsins var ráðlagt að drekka ekki vatnið úr krönum hótelsins. Rannsókn á vatninu úr krönum hótelsins leiddi ekkert óeðlilegt í ljós og samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirlitinu hefur eigandinn viðurkennt að hafa tappað á flöskurnar af krana á hótelinu.