Gleði og góðir gestir í Petersen-svítunni
Söngvarinn Geir Ólafsson og markaðsfræðingurinn Adriana Patricia Sánchez Krieger gengu í hjónaband sunnudaginn 20. ágúst síðastliðinn. Athöfnin fór fram í Bústaðakirkju og gaf séra Pálmi Matthíasson þau saman. Síðan var haldið í Petersen-svítuna í Gamla bíói, þar sem gestir nutu veitinga og skemmtiatriða.
„Kannski er ég gamaldags, en ég trúi á hjónabandið,“ segir Geir einlægur. „Mér finnst það líka skipta miklu máli fyrir dóttur okkar að foreldrar hennar séu giftir. Það veitir líka ákveðið öryggi, Adriana ferðast mikið erlendis.“
Geir bar upp bónorðið við Gróttu árið 2013 þegar þau trúlofuðu sig, en parið kynntist árið 2009. „Það hefur verið til marks um herramennsku að maðurinn biðji konuna um að heitbindast sér og Adriana er kaþólsk og þar ber karlmaðurinn upp bónorðið,“ segir Geir. „Í sambandi okkar og á heimili ríkir gagnkvæm virðing og vinátta, þó að við höfum haft þann hátt á að ég bæri upp bónorðið, en ekki hún.“
Veðrið lék við hjónin á brúðkaupsdeginum og segir Geir að dagurinn hafi tekist vel og verði lengi í hávegum hafður. Í kirkjunni sungu Ingólfur „veðurguð“ Þórarinsson og Kristján Jóhannsson. Ingó söng lagið Wonder of you sem Elvis Presley gerði vinsælt á sínum tíma og Kristján söng Ave Maria. „Það var mikill heiður að fá þá báða, þeir eru ólíkir en báðir einstaklega hæfileikaríkir. Ingó söng án hljóðnema við undirleik Þóris Baldurssonar og hann hefur alveg þrusurödd.“
Þegar brúðhjónin gengu úr kirkjunni ómaði lagið For Once In My Life með Michael Bublé. „Adriana var búin að óska eftir því lagi, en átti síðan frekar von á að Sinatra myndi hljóma.“
Brúðkaupsferð bíður aðeins betri tíma. Adriana og dóttirin Anna Rós eru farnar til Kólumbíu, meðan Geir fer í að undirbúa næstu verkefni. „Þær verða úti í tvo mánuði, svo fer ég út til þeirra og kem með litlu heim í lok október og fer þá að undirbúa jólatónleikana mína, The Las Vegas Christmas Show, sem verða í Gamla bíói 8. desember næstkomandi.“
Um er að ræða stórtónleika, þar sem verður kvöldverður og sýning, að hætti Las Vegas. Uppselt var á sýninguna í fyrra. „Strax eftir sýninguna í fyrra, fórum við yfir hvernig til tókst og ákváðum þá næstu,“ segir Geir. Með Geir í sýningunni verður stórsveit frá Las Vegas og íslenskir söngvarar, bæði þekktir og aðrir, sem munu stíga sín fyrstu spor í sýningunni.
„Með hljómsveitinni munu sjást hlutir sem hafa ekki sést áður hér á landi, innanborðs eru hljóðfæraleikarar sem hafa spilað með mörgum af þekktustu söngvurum heims, eins og Celine Dion og Barbra Streisand. Don Randi er líklega búinn að spila með stærstu stjörnum Bandaríkjanna. Ég get boðið fólki upp á gæði á heimsvísu og mér finnst það mjög gaman. Við munum endurlífga Elvis Presley, en hann býr á Íslandi og kemur og syngur,“ segir Geir og brosir.
Guðrún Árný og Ingó veðurguð munu koma fram og einnig koma fram ungir söngvarar sem ekki hafa komið fram áður. „Fyrir 15–20 árum þá hefði ég sjálfur viljað eiga sama tækifæri. Með þessu er ég að setja mig í spor unga fólksins og gefa því tækifæri. Ef allt gengur að óskum og tónleikarnir verða árlegir, þá er stefnan að gefa alltaf ungu tónlistarfólki tækifæri til að koma fram. Ég myndi segja að það vanti aðeins meiri kærleika í samfélagið, maður er bara að stækka flóruna með því að gefa öðrum tækifæri, ef menn halda að þeir eigi bransann þá verða þeir bara hrokafullir og gleyma að það er fólkið sem skiptir máli.“
Geir segir mikilvægt að gleyma sér ekki. „Ég á góða konu og yndislegt barn, en það er mikilvægt að vera þakklátur fyrir það sem maður hefur og vakandi yfir því sem maður er að gera. Hver hæfileiki er guðs gjöf og svo er það okkar mannanna að greiða leið fyrir aðra og skoða hvað maður er að gera. Það er svo gaman að samgleðjast öðrum fyrir hæfileika þeirra. Maður er líka að ýta undir að viðkomandi líði betur. Maður þarf alltaf að ná því besta úr fólki og það gerir maður með því að bera virðingu fyrir fólki,“ segir Geir Ólafsson, nýkvæntur og hamingjusamur og byrjaður að hugsa til jóla.
Það var glatt á hjalla og skemmtileg atriði í brúðkaupsveislunni. Geir söng sjálfur nokkur lög og Furstarnir, hljómsveit hans, spilaði og söng. „Már Gunnarsson söng, hann er ungur og hæfileikaríkur og á framtíðina fyrir sér. Söngvararnir Stefán Helgi og Davíð skemmtu líka, þeir eru frábærir.“
Geir var sjálfur veislustjóri. „Ég fattaði þegar ég kom heim um kvöldið að ég var varla búinn að borða eða drekka, ég var bara að hugsa um að gestunum okkar liði vel.“
Í veislunni var boðið upp á veglegar veitingar að hætti Múlakaffis, pinnamat, naut, lamb og sushi. Einnig var boðið upp á rauðvín, hvítvín og bjór. Í eftirrétt var brúðkaupsterta frá Sveinsbakaríi. „Veislan stóð frá kl. 16–19 og fólk skemmti sér konunglega á þeim tíma. Við völdum sunnudag, bæði vegna þess að okkur fannst allir gifta sig á laugardegi og eins er mikið að gerast í ágúst og kannski erfiðara að fá gesti á laugardegi. Við buðum 100 manns og ég held það hafi 98 mætt. Það var næstum 100 prósent mæting.“
ATHÖFN: Bústaðakirkja sunnudaginn 20. ágúst kl. 16.VEISLA: Petersensvítan, Gamla bíói, veitingar frá Múlakaffi.VEISLUSTJÓRI: Geir sjálfur.BRÚÐURINN: Brúðarkjóllinn var keyptur í Kólumbíu. Bára Kemp hjá Hár og snyrting sá um hár.BRÚÐGUMINN: Fötin voru keypt í Kólumbíu.GESTIR: Um 100 gestir, þar á meðal Kristján Jóhannsson tenór, Bjarni Ármannsson, Már Gunnarsson, séra Pálmi Matthíasson og Unnur Ólafsdóttir, Ragnheiður Guðfinna Guðnadóttir, Bryndís Schram og Jón Baldvin Hannibalsson.SKEMMTIATRIÐI: Furstarnir, hljómsveit Geirs, Geir sjálfur, Már Gunnarsson, og söngvararnir Stefán Helgi (tenór) og Davíð Ólafsson (bassi).