Kaffi, gisting og hægt að koma og horfa á Netflix
„Hrefna Lind er ung einstæð móðir sem býr í Vesturbænum. Hún er nýskilin og á ungan son. Hún stendur frammi fyrir því að þurfa að selja íbúðina sem þau búa í, en mest af öllu vill hún búa þar áfram, enda yndisleg íbúð. Í stað þess að láta deigan síga hannaði Hrefna Lind plan.“
Þannig hljóðar texti sem Hrefna Lind tónlistarkona og listamaður birtir á styrktarsíðunni Karolina fund. Hún hefur ákveðið að fara óvenjulega leið til að reyna halda húsnæði sínu. Hún átti íbúðina með þáverandi manni sínum en nú eftir skilnað þarf hún að borga hann út ætli hún sér að dvelja í íbúðinni áfram. Á Karolina fund er hægt að styrkja Hrefnu með framlögum, frá 1.800 krónum upp í rúmar 10 milljónir. Fyrir þá upphæð fæst eftirfarandi í staðinn:
„Guð minn góður! Þetta er upphæðin til að kaupa fyrrverandi manninn minn út!!! Ég býð þér að gista í gestaherberginu hvenær sem þú vilt næstu tvö árin. Að auki færðu eins mikið af kaffispjalli og tequila-hugleiðslu og þú vilt. Að sjálfsögðu færðu eintak af sérstakri viðhafnarútgáfu af EP-plötunni minni.“
Fyrir 1800 krónur sendir Hrefna persónulega kveðju á Facebook og fyrir 3.600 krónur fær viðkomandi að kíkja í heimsókn og horfa á 2 þætti af uppáhalds sjónvarpsseríunni á Netflix með Hrefnu og meðleigjanda hennar Stefáni. Fyrir 4.800 krónur er boðið upp á kaffispjall við eldhúsborðið og fyrir litlu meira getur viðkomandi mætt með barnið sitt og leyft því að leika sér á trampólíni í garðinum og skotist í verslun á meðan. Fyrir 48.000 fæst þetta:
„Ertu að koma í bæinn yfir helgina? Þú færð gistingu í gestaherberginu yfir heila helgi. Innifalið er kaffispjall og tequila hugleiðsla. Auk Vinyl plötu, My House.“
Hrefna Lind útskýrir svo betur ástæðuna af hverju hún ákvað að biðla til almennings um að styrkja hana.
„Ég var að byrja í framhaldsnámi þegar ákvörðun um skilnað átti sér stað. Það er sérstök upplifun þegar heimsmyndin, öryggið og draumar falla um sjálft sig og brotna undan fótum manns. Sem listakona og einstæð móðir í Reykjavík, spyr ég hvernig er mögulegt að púsla saman nýrri heimsmynd og finna sér öruggt skjól? Til þess að verkefnið gangi upp, biðla ég til ykkar um hjálp. Þetta er alveg hægt, því það er komið plan. Ég þarf einungis tvær milljónir til að standa straum á framleiðslu plötunnar, af upplifununum og til þess að geta borgað af húsinu næstu mánuði. Ef það nást tíu milljónir, þá er ég örugg um ókomna tíð.“
Hrefna birtir einnig myndskeið á Karolina Fund síðunni. Þar er stutt innslag frá leigjanda hennar. Þar segir hann:
„Ég heiti Stefán Ingvar og er leigjandi hjá Hrefnu á Sólvallagötunni. Ég er búinn að leigja hjá henni í hálft ár, frá því að hún og maðurinn hennar skildu. Leigumarkaðurinn er mjög lélegur og mér þætti leiðinlegt ef hún missti íbúðina. Þá þarf ég að finna mér annað herbergi.“
Draumur Hrefnu er að geta lifað á listinni en hún kveðst elska að gera tónlist.
„Ég er 31 árs, hámenntuð með fullt af námslánum, á 7 ára gamlan strák sem er algjör snillingur. Bý í yndislegri íbúð í Vesturbænum. Ég hef breytt henni í upplifunarrými. Viltu koma í heimsókn?“
Hér má finna söfnun Hrefnu á Karolina Fund.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=L9iCwd8Qsas&w=640&h=360]