Í kvikmyndinni Ég man þig, sem gerð er eftir samnefndri bók Yrsu Sigurðardóttur, gegnir hús á Hesteyri á norðanverðum Vestfjörðum stóru hlutverki. Húsið er þó alls ekki á Hesteyri, heldur stendur það við Víkurbraut 4 í Grindavík og með aðstoð tölvutækninnar er það fært til Vestfjarða.
Húsið heitir Bakki og er í eigu Minja- og sögufélags Grindavíkur, en félagið eignaðist húsið í maí 2015 og vinnur nú að endurbyggingu þess. Ég man þig er að miklu leyti kvikmynduð í og við Bakka.
Bakki er forn verbúð, byggð 1933 og er talin vera elsta uppistandandi verbúð á Suðurnesjum. Vonir standa til að í framtíðinni muni Bakki hýsa byggðasafn Grindvíkinga og aðra menningartengda starfsemi.