fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

„VIÐURKENNING VAR MÉR HVATNING TIL AÐ HALDA ÁFRAM“

Finnur Andrésson (46) er sjálfmenntaður áhugaljósmyndari:

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 1. maí 2017 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Finnur hafði aldrei komið nálægt ljósmyndun áður þegar hann keypti sér fyrstu myndavélina 2011, síðan þá hefur hann verið óstöðvandi, myndir hans eru til sölu í hinum ýmsu formum, hann stofnaði ljósmyndaklúbb, hefur tekið þátt í ljósmyndakeppnum og haldið sýningu, auk þess sem hin virta fréttastofa CNN valdi ljósmyndir hans meðal bestu mynda sem þar hafa birst.

Finnur hefur lag á að ná myndum af fuglum í „action“.
BARIST UM BITANN Finnur hefur lag á að ná myndum af fuglum í „action“.

Mynd: Finnur Andrésson

Smellt af

„Ég keypti mér fyrstu myndavélina mína, litla Samsung nx10, árið 2011 þegar ég flutti upp á Skaga og ætlaði bara svona að eiga hana til að mynda fjölskylduna,“ segir Finnur, sem er uppalinn í Neðra-Breiðholti. Honum líkar vel að búa á Skaganum og stefnir ekki á að flytja í bæinn aftur. „Ég var búinn að prófa mörg áhugamál áður, eins og gítar og ýmislegt annað, en um leið og ég prófaði ljósmyndunina þá bara klikkaði eitthvað og ég fann að þetta átti við mig.“
Finnur fór að rúnta um Skagann og taka myndir og fékk algjöra dellu að eigin sögn, „ég sá eitthvert myndefni og var búinn að sjá fyrir mér um leið í huganum hvernig myndin myndi líta út fullkláruð. Oft þurfti ég að snarstoppa þegar eitthvert myndefni poppaði upp á ferðum mínum.“ Hann er sjálfmenntaður í ljósmynduninni og hefur aldrei farið á námskeið og finnst mun betra að spyrja sér reyndari ljósmyndara og prófa svo og fikra sig áfram sjálfur. „Eftir að ég fékk ljósmyndadelluna þá gekk ég í ljósmyndaklúbb hér á Akranesi og hengdi mig á aðra ljósmyndara mér reyndari, var duglegur að spyrja hvernig þeir hefðu myndað, hvaða ljósop þeir hefðu notað og svo framvegis, síðan fór ég að fikta áfram og prófa eftir þeirra leiðbeiningum og fór að taka bara ágætis myndir.“

Norðurljósin stíga dans um Akrafjall.
FJALLIÐ LOGAR Norðurljósin stíga dans um Akrafjall.

Mynd: Finnur Andrésson

Viðurkenningar frá CNN

Ljósmyndadellan var fljót að skila Finni viðurkenningu en sama ár og hann byrjaði að mynda sendi hann nokkrar mynda sinna til fjölmiðlarisans CNN og strax sama ár var ein mynda hans valin sem ein af fimm bestu ferðamyndum sem birst höfðu á vefsíðunni fimm ár þar á undan. „Myndina tók ég af Höfrungi AK91, sem er gamall stór trébátur sem var í Slippnum hér á Akranesi,“ segir Finnur. „Viðurkenningin var mér hvatning til að halda áfram.“ Seinna sama ár lenti myndin af Höfrungi í öðru sæti í ljósmyndakeppni Mbl og Canon. Og ekki leið á löngu áður en að næsta viðurkenning kom frá CNN, en ári seinna var norðurljósamynd sem Finnur tók af gamla vitanum á Breiðinni valin sem ein af sex fallegustu myndunum af himingeimnum.
„Eftir þá viðurkenningu fóru heimsóknir að streyma inn bæði á Facebook-síðuna mína og Twitter,“ segir Finnur, en hann má finna á Facebook undir Finnur photography og á Twitter undir Photos_Iceland. Hver sem er getur sent inn myndir til CNN. „Það er ekkert mál að senda inn myndir í I-report, hver notandi hleður sínum myndum bara inn sjálfur,“ segir Finnur. Það eru hins vegar ekki allar myndir valdar sem ferðamynd dagsins, en myndir frá Finni höfðu þrisvar sinnum verið valdar sem ferðamynd dagsins, áður en myndin af Höfrungi var valin sem ein af þeim bestu.

Selur hefur krækt hér bæði í makríll sem aðalrétt og krossfisk í dessert.
MATARTÍMI Selur hefur krækt hér bæði í makríll sem aðalrétt og krossfisk í dessert.

Mynd: Finnur Andrésson

Heillaðist af fuglum

Við viðurkenningarnar frá CNN öðlaðist Finnur meira sjálfstraust við ljósmyndunina og fór að leita fanga á fleiri stöðum eftir myndefni. Hann hefur hins vegar aldrei myndað brúðkaup, fermingar eða aðra slíka viðburði þó að hann hafi verið beðinn um það, en hann hefur tekið myndir á bæjarhátíðinni Írskum dögum. „Það kom eldra fólk í ljósmyndaklúbbinn og var að sýna okkur fuglamyndir,“ segir Finnur. „Ég hafði engan áhuga, en ákvað samt að prófa og ég heillaðist algjörlega af fuglunum og er aðallega í að taka nærmyndir af þeim og „action“-myndir, þá sérstaklega af krummanum, ég er mjög hrifinn af honum. Mér finnst svona dæmigerðar kennslubókamyndir ekki spes, hef meira gaman af að mynda fuglana að gera eitthvað.“

Norðurljósin kveikja líf um stund í eyðibýlinu.
NARFASTAÐIR Norðurljósin kveikja líf um stund í eyðibýlinu.

Mynd: Finnur Andrésson

Með viðurnefni sem sá ofvirkasti

„Ég er oft kallaður ofvirkasti ljósmyndari Akraness,“ segir Finnur hlæjandi greinilega sáttur við viðurnefnið. Og það er líklega réttnefni því Finnur hefur verið mjög ötull í að koma sér og myndunum sínum á framfæri og gefst ekki upp þó að hann fái nei sem svar í fyrstu tilraun og hvað þá annarri eða tíundu. „Það eru margir góðir ljósmyndarar til og ég segi stundum að maður þarf ekki að vera bestur, heldur vera duglegastur að koma sér áfram og skapa sér nafn.“ Auk þess að senda myndir til CNN þá hefur Finnur einnig sent myndir til National Geographic, tekið þátt í keppnum hér heima og bæði unnið og verið í öðru sæti og sent tölvupóst hingað og þangað til að koma sér á framfæri.
„Ég sendi endalaust póst, til dæmis á erlenda leikara og býð þeim myndir til sölu og á hljómsveitir og býð þeim til sölu myndir á diska og albúm. Ég meira að segja gerðist svo frakkur að senda póst á prins í Dúbaí, sem hefur að vísu ekki enn þá svarað mér.“
Finnur fékk styrk frá Akranesbæ 2014 og hélt ljósmyndasýningu og einnig hefur hann selt bænum myndir. „Fyrst fékk ég nei sem svar, en ég hélt áfram að bjóða þeim myndir til kaups og í dag hef ég selt þeim nokkrar myndir.“

„Hljóður í hafið röðull rennur, roðnar og býður góða nótt.“
SÓLARLAG VIÐ AKRANESVITA „Hljóður í hafið röðull rennur, roðnar og býður góða nótt.“

Mynd: Finnur Andrésson

Ljósmyndir til sölu í ýmsum formum

Finnur er duglegur að setja myndir á bæði Facebook og Twitter og margar þeirra má kaupa í hinum ýmsu stærðum og formum. Auk þess að selja myndirnar í hefðbundnu formi í öllum stærðum er hægt að kaupa þær bæði í ramma, á striga eða áli, þá er hægt að kaupa hálsmen, púða, lyklakippur og segla svo eitthvað sé nefnt. „Ég geri hálsmenin sjálfur og er með seglapressu, síðan læt ég prenta fyrir mig á púða. Nú ef fólk vill bolla eða annað slíkt með mynd, þá er líka ekkert mál að redda því. Ég hef mætt með vörurnar mínar á nokkra markaði og gengið vel. Ég er líka búinn að selja myndir á nokkur hótel og aðra staði og má sem dæmi nefna að Fjalakötturinn í Aðalstræti er með fjölda mynda eftir mig.“
Finnur hefur líka gefið út dagatöl með myndum sínum. „Ég gaf út Norðurljósadagatal 2014 og 2017 og Krummadagatal 2016.“ Finnur hefur einnig auglýst fyrir fyrirtæki og sem dæmi má nefna að hann kom fram í auglýsingu fyrir Nýherja þar sem hann lýsti reynslu sinni af Canon 7d Mark ii-myndavélinni og fyrir Hátækni auglýsti hann Nokia-síma sem var með 42 megapixla myndavél: „Það var mjög gaman, síminn var ekki spes en myndavélin var fín.“

Ljósmyndaklúbbur og vitinn endurlífgaður

Eins og áður sagði gekk Finnur í ljósmyndaklúbbinn Vitann á Akranesi þegar ljósmyndadellan heltók hann 2011. „Sá klúbbur er enn starfandi og eru um 60 manns félagar þar,“ segir Finnur. „Ég fann mig ekki þar og stofnaði sjálfur ljósmyndaklúbbinn Höfrung og það eru á milli 80–100 félagar í honum í dag. Það er því ljóst að það er mikill áhugi á ljósmyndun á Akranesi og segist Finnur líta á alla þá sem jafna og að í dag eru aðrir áhugaljósmyndarar farnir að hengja sig á hann og læra, líkt og hann gerði sjálfur þegar hann tók sínar fyrstu myndir.
Finnur átti einnig þátt í því árið 2011 að Akranesviti var opnaður aftur fyrir almenning. „Vitinn hafði ekki verið opinn í 30 ár og það voru nokkrir ljósmyndarar búnir að reyna að fá lykil að honum til að komast inn og mynda þar, en fengu alltaf það svar að það væri ekki hægt. Ég hringdi í Siglingamálastofnun og bað um samband við þann sem réð öllu, korteri seinna var ég kominn með lykil að vitanum og fór þangað að mynda. Síðan fór ég með lykilinn til Hilmars Sigvaldasonar, formanns ljósmyndaklúbbsins, og sagði við hann að mér fyndist að hann ætti að halda lyklinum.“ Í dag er Vitinn opinn almenningi fimm daga í viku og fyrrnefndur Hilmar starfar þar sem vitavörður. Þar hafa verið haldnar bæði ljósmyndasýningar og tónleikar og þar má fá gefins dagatöl Finns, meðan eintök endast, enda er Finnur hættur að selja þau þegar þetta langt er liðið á árið.

Hvernig er framtíðin hjá ofvirkum ljósmyndara?

„Mig langar til að lifa á ljósmynduninni í framtíðinni,“ segir Finnur. „Ég keypti mér sjö manna Nissan Patrol í sumar og er að sækja um rekstrarleyfi, mig langar að keyra ferðamenn í norðurljósaferðir og kenna þeim að taka norðurljósamyndir. Bjóða upp á meiri upplifun en bara ferð fram og til baka. Svo átti ég afmæli núna 10. apríl og fékk dróna í afmælisgjöf, mér finnst mjög spennandi að prófa hann og ég stefni á að læra betur á hann og nýta hann við ljósmyndunina,“ segir Finnur sem er bara rétt að byrja og hvetur aðra til að gera eitthvað með myndirnar sínar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“

Dularfull eftirlýsing lögreglunnar á Norðurlandi vestra vekur athygli – „Ætlið þið að vera með skemmtiatriði hjá þeim sem svara?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“

Gleymið Bjarna og kökuskreytingunum – nú er það Bjarnapitsa – „Sjáið drenginn, hann á ekkert að vera að vinna á þingi“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“

Getur ekki gleymt því sem hún sá í tölvu eiginmannsins – „Ég man það í hvert skipti sem við stundum kynlíf“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það

Segist vera konan sem Tommy Fury hélt framhjá með og segir þessa mynd sanna það
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“

„Maður þarf bæði að leyfa henni að vera og fara, sorginni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna

Prestur rekinn eftir að hafa hleypt Sabrinu Carpenter inn í kirkjuna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 4 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja