fbpx
Laugardagur 21.desember 2024
Fókus

Lamdi bróður sinn og nennir ekki að djamma: Öll litlu atriðin sem þú þarft að vita um Guðna en skipta kannski mestu máli

Nærmynd af nýjum forseta – langar að hitta Obama – Mikill fjölskyldumaður – Nýtur sín best með bók

Auður Ösp
Sunnudaginn 26. júní 2016 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðni Th. Jóhannesson er nýkjörinn forseti Íslands. Skoðanakannarnir voru honum í vil nær allan tímann, en engu að síður var munurinn heldur minni á lokasprettinum heldur en búist var við. Guðni hlaut loks 71.356 at­kvæða í for­seta­kosn­ing­un­um, eða 38,49 prósent greiddra at­kvæða, og verður hann sjötti for­seti lýðveld­is­ins. Hefur þjóðin fagnað niðurstöðunni í dag og flestir ánægðir með útkomuna og virðast ætla að sameinast um nýjan forseta.

Guðni er fæddur í Reykjavík 26. júní árið 1968 og ólst upp í Garðabænum; sonur hjónanna Margrétar Thorlacius, kennara og blaðamanns, og Jóhannesar Sæmundssonar, íþróttakennara og landsliðsþjálfara. Hann á tvo bræður, Patrek, íþróttafræðing og handboltaþjálfara, og Jóhannes sem starfar sem kerfisfræðingur. Voru bræðurnir skírðir að kaþólskum sið en Guðni yf­ir­gaf kaþólsku kirkj­una í kjöl­far frétta af glæp­um ým­issa kaþólskra presta og stendur í dag utan trúfélaga. Faðir Guðna lést úr krabbameini árið 1983, þegar Guðni var á fermingaraldri og sá móðir hans þá alfarið um uppeldi bræðranna.

Guðni æfði sjálfur handbolta á sínum yngri árum en í samtali við Bakaríið á Bylgjunni nýlega viðurkenndi hann fúslega að hann að hann hefði eitt sinn lamið „Patta“ eins og hann kallar bróður sinn. Þá sagðist hann hafa sjálfur lagt handboltaskóna á hilluna og „hætt á toppnum“ þegar hann var í kringum 16 ára aldur þar sem hann sá að yngri bróðir hans var orðinn mun betri í íþróttinni en hann. Viðurkenndi hann þó glettilega að hann státaði af tveimur titlum: hann er annars vegar Norðurlandameistari stúdenta í handknattleik og hins vegar miðlandabikarmeistari í Bretlandi í handbolta með stórliðinu Warwick Jaguars.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Sprenglærður fræðimaður

Guðni lauk stúdentsprófi frá MR árið 1987 og tók þá við nám í sagnfræði og stjórnmálafræði við Warwick háskóla á Englandi. Eftir það tók við nám í þýsku við Háskólann í Bonn og þá lærði Guðni rússnesku í einn vetur við Háskóla Íslands Hann útskrifaðist síðan meistaragráðu í sagnfræði frá HÍ árið 1997 og lauk MSt gráðu í sögu frá Oxford háskóla árið 1999. Það var þar sem hann kynntist tilvonandi eiginkonu sinni, hinni kandadísku Elizu Reid sem þá stundaði nám í nútímasögu.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Eliza er með MSt-gráðu frá Oxford-háskóla og BA-gráðu í alþjóðasamskiptum frá Toronto-háskóla, og hefur starfað meðal annars sem ritstjóri tímaritsins Icelandair Stopover og sem blaðamaður hjá Reykjavik Grapevine og Iceland Review. Þá hefur hún starfað fyrir Calidris og tekið að sér ýmis ritstörf og verkefnastjórnun auk þess sem hún er í Félagi kvenna í atvinnulífinu.

Guðni lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary, University of London árið 1999, og hefur starfað sem dósent í sagnfræði við Háskóla Íslands. Þá hefur hann starfað sem kennari við Háskóla Íslands, Háskólann í Reykjavík, Háskólann á Bifröst og University of London. Hann hefur skrifað fjölda sagnfræðirita, meðal annars um þorskastríði og forsetaembættið, auk fjölda bóka og fræðigreina um sögu Íslands og samtíð. Má þar nefna ævisögu Gunnars Thoroddsen og bókina Óvinir ríkisins, auk bókarinnar Völundarhús valdsins sem fjallar um embættistíð Kristjáns Eldjárns og metsöluritið Hrunið.

Lítið fyrir skemmtanalífið

Þau Guðni og Eliza hafa verið búsett á Íslandi frá árinu 2003 og hafa þau búið á Seltjarnarnesi ásamt börnum sínum en það eru þau Duncan Tindur (f. 2007), Donald Gunnar (f. 2009), Sæþór Peter (f. 2011) og Edda Margrét (f. 2013). Þá á Guðni dótturina Rut (f. 1994) með fyrri eiginkonu sinni, Elínu Haraldsdóttur, viðskiptafræðingi og listakonu.

Aðdáandi skoskrar rokkhljómsveitar

Á meðan á kosningabaráttunni stóð svaraði Guðni þónokkrum persónulegum spurningum sem sneru að einkalífinu. Í fyrrnefndu samtali við Bakaríið á Bylgunni á dögunum kom til að mynda upp úr krafsinu að eftirlætismaturinn hans væri pönnusteikt bleikja, en hann viðurkenndi þó að hann væri ekki mjög liðtækur í eldhúsinu; hann hefði einfaldlega ekki gaman af eldamennsku. Hann kvaðst jafnframt vera lítið fyrir skemmtanalífið.

„Ég fer lítið út á djammið svokallaða. Ég hélt einu sinni að til þess að vera maður með mönnum þyrfti maður að gera það. Það er ótrúlegt frelsun fólgin í því að gera bara það sem maður vill og hafa engar áhyggjur af því sem aðrir hugsa um mann. Þannig að ég hætti að sýnast og þykjast hafa gaman af því að vera úti á föstudagskvöldum,“ sagði hinn nýkjörni forseti og bætti við að honum fyndist fátt betra en lesa góða bók, og þá helst ævisögu. „Hnausþykkan doðrant, einhvers staðar úti í horni í friði. Búinn að leika við börnin og allt komið í ró.“

Hann kvaðst jafnframt vera mikill aðdáandi skosku rokkhljómsveitarinnar Big Country. Hann var einnig spurður um hvað honum fyndist kynþokkafullt og stóð þá ekki á svari.

„Hrein fegurð, sem maður sér bara strax. Engin tilgerð og ekki neitt haft fyrir henni. Hún bara geislar af fegurð,“ sagði Guðni áður en hann svaraði því aðspurður að hann væri meiri brjóstamaður en rassamaður. Þá kvaðst hann vera stuðningsmaður Manchester United í enska boltanum en þar sem hann hefði búið á Englandi í átta ár þá hefði hann hlýjar taugar til allra liða sem hafa tengst þeim stöðum sem hann hefur búið á.

Meira fyrir ketti en hunda

Guðni tuskaði einu sinni bróður sinn til. Guðni þótti liðtækur handboltamaður á sínum yngri árum. Bróðir Guðna, Patrekur Jóhannesson náði ansi langt í íþróttinni og var einn af okkar bestu mönnum um árabil.
Guðni tuskaði einu sinni bróður sinn til. Guðni þótti liðtækur handboltamaður á sínum yngri árum. Bróðir Guðna, Patrekur Jóhannesson náði ansi langt í íþróttinni og var einn af okkar bestu mönnum um árabil.

Mynd: Reuters

Augljóst er að Guðni er mikill fjölskyldumaður en í samtali við Vísi í síðustu viku svaraði hann aðspurður að fallegasti staðurinn á íslandi væri „garðurinn heima í góðu veðri, fullur af krökkum og fjöri.“ Þá sagði hann að stærstu stundirnar í lífi sínu hefðu veri fæðingar barna sinna fimm. Hann kvaðst jafnframt vera stoltastur af börnunum sínum og að rómantískasta augnablikið í lífi hans hefði verið þegar eiginkona hans Eliza bað um hönd hans.

Upp úr umræddu samtali kom einnig í ljós að nýkjörinn forseti vann eitt sumar á fraktskipi og annað sumar á olíuborpalli og að hans eftirlætiskvikmynd væri The Shawshank Redemption. Þá kvaðst hann vera meiri kattavinur en hundavinur og viðurkenndi jafnframt að hafa tvisvar sinnum fengið sekt fyrir of hraðan akstur. Það myndi þó aldrei koma fyrir aftur. Þá kom upp úr krafsinu að hann æki um á 2003 árgerð af Toyota Previa. Leiða má þó líkur á því að þeim farskjóta verði skipt út á næstunni.

Langar að hitta Obama

Guðni er sólginn í lakkrís og heldur mikið upp á lagið „Ég er kominn heim“ með Óðni Valdimarssyni líkt og kemur fram á vef Bleikt. Hans eftirlætis bók er alfræðiorðabókin Britannica og hann dreymir um að hitta Barack Obama. Aðspurður um hvert sé hans helsta mottó í lífinu þá stendur svo sannarlega ekki á svari og má ef til vill segja að það svar endurspegli framkomu hans í kosningabaráttunni. Það er: „Vertu þú sjálfur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Í gær

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kærastinn hættur að veita henni athygli – Íhugar að verða klámstjarna

Kærastinn hættur að veita henni athygli – Íhugar að verða klámstjarna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur sannfærðir um að þetta hafi verið leynileg skilaboð Bieber til fyrrverandi

Aðdáendur sannfærðir um að þetta hafi verið leynileg skilaboð Bieber til fyrrverandi