fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

Aníta þarf að reiða fram 60 þúsund krónur vegna fósturláts: „Þetta gerir þessa hræðilegu lífsreynslu helmingi erfiðari“

Mikil fjárútlát sem fylgja eftirfylgni og rannsóknum – „Ömurlegt að þurfa að greiða tugi þúsunda fyrir þá lífsreynslu að missa fóstur“

Auður Ösp
Þriðjudaginn 8. mars 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég gerði mér þess vegna engan veginn grein fyrir því þegar þetta kom fyrir mig að ég myndi sitja uppi með allan þennan kostnað. Ég var bara orðlaus þegar ég fékk alla þessa reikninga. Mig langaði helst að öskra og grenja,“ segir Aníta Rún Harðardóttir en henni blöskraði verulega þegar hún komst að því að hún sæti uppi með reikninga upp á tugi þúsunda frá kvennadeild Landspítalans eftir að hafa sótt þar læknisþjónustu í nokkur skipti vegna fósturmissis. Hún segir það afar slæmt að þurfa að leggja í svo mikil fjárútlát ofan á það mikla andlega álag sem fylgi fósturmissi auk þess sem við hafi bæst mikill lyfja og ferðakostnaður.

Aníta er 19 ára gömul, í sambandi og móðir 2 ára gamallar stúlku.

Hún var gengin um 8 vikur í febrúar síðastliðnum þegar skyndilega fór að blæða. Ljósmóðir á Selfossi tjáði henni að um svokallaða hreiðurblæðingu væri að ræða og ráðlagði henni að fara heim og hvíla sig.

„Morguninn eftir var ég ennþá með verki og blæðingar og það var þá sem að ljósmóðirin tjáði mér að líklega væri um fósturmissi að ræða.“

Hún var í kjölfarið send á Landspítalann þar sem hún gekkst undir skoðanir og rannsóknir. Fóstrið fannst ekki í leginu. Hún var í kjölfarið send í aðgerð sem átti að útiloka að um utanlegsfóstur væri að ræða.

„Þá var hreinsað útúr eggjaleiðurum og legi og síðan var fóstrið farið. Fóstrið fannst í þeim vefjum sem eru í leginu en þetta var ekki utanlegsfóstur. Ég var síðan send heim daginn eftir aðgerðina sem fór fram seint um kvöldið.“

8700 krónur í hvert skipti

Aníta segir í kjölfar aðgerðarinnar hafi hún þurft að leita fjórum sinnum á bráðamóttöku kvennadeildarinnar, bæði til að fara í eftirskoðun vegna aðgerðarinnar og einnig vegna mikilla og stöðugra verkja sem ekki fannst skýring á. Þá hafi þurft að taka blóðprufu oftar en einu sinni til að mæla lækkandi þungunarhormón. Í hvert skipti hafi hún þurft að greiða komugjald upp á 6200 krónur og þá bættist við gjald vegna blóðprufu upp á 2500 krónur. Samkvæmt gjaldskrá Landspítalans þurfa almennir sjúklingar án afsláttarkorts að greiða umrædda upphæð.

„Ég þurfti stöðugt að koma aftur því það fannst engin skýring á verkjunum. Þessir verkir voru svo hrikalegir að ég gat ekki gengið og það þurfti að hjálpa mér við allt, ég gat ekki baðað mig eða farið á klósettið,“ bætir Aníta við.

„Það endaði þannig að í öll skiptin sem ég leitaði á spítalann var ég send heim og sagt að taka verkjalyf. Yfirleitt fékk ég nokkurra mínútna spjall við lækni og svo búið. Ég var boðuð í aðra blóðprufu þegar tvær vikur voru liðnar frá aðgerðinni, sem ég endaði á að mæta ekki í enda sá ég ekki fram að geta farið að borga 8700 krónur til viðbótar ofan á allt saman.“

Ég kemst ekki hjá því að hugsa að ef ég hefði bara farið í fóstureyðingu þá hefði ég ekki endað í svona svakalegum mínus

„Þegar það var sagt við mig að ég yrði að fara í þessar rannsóknir og blóðprufu þá gat ég að sjálfsögðu ekki neitað. Það sem er eitthvað svo kaldhæðnislegt við þetta er að þegar ég varð ófrísk þá velti ég fyrir mér möguleikanum að fara í fóstureyðingu enda var þungunin ekki plönuð,“ segir hún. „Ég kemst ekki hjá því að hugsa að ef ég hefði bara farið í fóstureyðingu þá hefði ég ekki endað í svona svakalegum mínus. Hvort sem þú ferð í fóstureyðingu eða missir fóstrið er fóstrið farið, það er tekið útúr þér. Er málið bara að láta konur þjást ennþá meira með því að láta þær borga svona mikið fyrir þetta? Er ekki nógu slæmt að missa fóstrið?,“ heldur Aníta áfram.

Hún segir það hafa verið síst til þess að bæta líðan sína að í hvert sinn sem hún leitaði á spítalann eftir aðgerðina hafi hún verið minnt á missinn sem hún var að ganga í gegnum. „Alltaf var verið að minna mig á að fóstrið væri farið. Fóstrið sem hefði getað breyst í jafn hamingjusamt barn og dóttur mína. Fóstrið sem ég hefði getað eytt restinni af ævi minni með. Fóstrið sem ég var orðin svo spennt fyrir að fá í heiminn var farið. Fyrir fullt og allt. Andlega hliðin mín fór í rúst. Ég grenjaði útaf engu. Ég átti mjög erfitt með að sjá óléttar konur eða nýfædd börn. Þó svo að þetta fóstur hafi bara verið einhver frumuklessa inni í mér átti ég mjög erfitt með að sætta mig við þetta.“

Hún gagnrýnir jafnframt að henni hafi ekki verið boðin andlegur stuðningur eða einhvers konar sáluhjálp til að takast á við fósturmissinn.

„Þegar ég spurði hvort ég gæti fengið að tala við einhvern aðila var mér tjáð að ég gæti leitað til sálfræðings eða geðlæknis sem hefði þá haft í för með sér ennþá meiri kostnað. Eða þá talað við prest eða djákna sem ég þyrfti að finna sjálf. Mér finnst skrítið að það sé ekki hægt að leita til einhvers þarna til að tala við og fá andlegan stuðning. Maður þarf nefnilega að vera ansi harður af sér svo þetta hafi ekki áhrif á mann.“

Ótrúlegt óréttlæti

Aníta segist gera ráð fyrir að heildarkostnaðurinn sem fylgi fósturmissi hennar sé í kringum 60 þúsund krónur og inni í því sé lyfjakostnaður, ferðakostnaður, komugjöld á kvennadeildina og rannsóknargjöld, fyrir og eftir aðgerðina en aðgerðin sjálf var ókeypis. Þá sé ekki talinn með tekjumissirinn sem hún varð fyrir sökum þess að hún neyddist til vera frá vinnu dögum saman vegna kvala.

Þeir sem hafa orðið fyrir miklum útgjöldum vegna læknishjálpar, lyfja, sjúkra-, iðju- og talþjálfunar geta átt rétt á endurgreiðslu kostnaðar að hluta samkvæmt upplýsingum sem finna má á heimasíðu Tryggingastofnunar Við mat á endurgreiðslu eru lögð til grundvallar heildarútgjöld vegna læknishjálpar, lyfja og þjálfunar, að teknu tilliti til viðmiðunartekna einstaklings eða fjölskyldu. Aníta segir að hún hyggist kanna rétt sinn hvað þetta varðar en hún segir gagnrýnisvert að hafa verið rukkuð í hvert skipti sem hún leitaði á kvennadeildina.

Það er ekki eins og maður geymi bara 60 þúsund krónur í rassvasanum

„Það er ekki eins og maður geymi bara 60 þúsund krónur í rassvasanum, auk þess sem við eigum annað barn og það er kostnaður sem fylgir því. Það er líka þess vegna sem mér finnst þetta allt saman svo fáránlegt; það eru ekki allir sem geta reitt fram þennan pening og hvað eiga þeir þá að gera?,“ spyr hún.

„Mér var bent á það nýlega að hugsanlega gæti ég fengið eitthvað af þessu endurgreitt frá Sjúkratryggingum Íslands en það var aldrei minnst neitt á það við mig hjá Landspítalanum og rétt eins og með andlega stuðninginn þá þarftu að ganga á eftir þessari endurgreiðslu, það er enginn sem býður þér neitt af fyrra bragði.“

Hún segir þetta gera þessa hræðilegu lífsreynslu helmingi erfiðari. „Það er ömurlegt að þurfa að greiða tugi þúsunda fyrir þá lífsreynslu að missa fóstur. Þetta er svo ótrúlega óréttlátt. Ég hef heyrt um konur sem hafa misst fóstur og það er talað um sársaukann, vanlíðanina og missinn sem fylgir þessu en það talar enginn um allan kostnaðinn sem getur hlotist af þessu.“

Hún segist vonast til að vekja upp umræður um þær aðstæður sem blasa við konum sem þurfa að ganga í gegnum fósturmissi. „Ég vona svo heitt og innilega að þetta muni einhvern tíman breytast. Konur eiga ekki að þurfa að lenda í því sama og ég lenti í.“

Skylt að innheimta

Í skriflegu svari frá Landspítalanum segir:

„Landspítala er skylt að innheimta tiltekin gjöld hjá sjúklingum skv. reglugerð sem heilbrigðisráðherra setur. Innheimta skal fyrir hverja komu og gæta verður jafnræðis við þá innheimtu. Núverandi reglugerð er nr. 1144/2015.

Þegar sjúklingur hefur samtals greitt kr. 35.200,- fyrir heilbrigðisþjónustu á sama almanaksári gefa Sjúkratyggingar Íslands út rafrænt afsláttarskíteini, sem tryggir lægra gjald út árið. Sjúkratryggingar endurgreiða jafnframt mismun ef um ofgreiðslu er að ræða.

Ef sjúklingur er ósáttur við gjaldtöku eða þjónustu býður spítalinn upp á að sérstök nefnd endurskoði komugjöldin.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum