fbpx
Miðvikudagur 04.desember 2024
Fókus

Uppgjör Gilberts: Áður óbirt myndband sýnir árásina í Laugum í nýju ljósi

Staðið í deilum við Hilmar Leifsson – Nýtt myndskeið frá átökum fyrir utan World Class – „Ég byrjaði að drekka 11 ára“

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 20. desember 2016 21:21

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Í langan tíma hefur mig langað að stíga fram og upplýsa um deilurnar á milli mín og Hilmars Leifssonar. Þær snúast ekki eingöngu um mig og hann, heldur margt annað fólk. Ýmsar getgátur hafa verið á lofti en slúður gagnast engum. Ég hafði lagt fram kærur og ég valdi að tjá mig ekki til að skemma ekki mín mál eða annarra. Ég hef því haft vit á því að þegja, þótt erfitt hafi verið að lesa lygar sem Hilmar hefur haft uppi um mig opinberlega. Ég kærði Hilmar og Óskar Barkarson og tvo Pólverja fyrir árás á mig fyrir utan Laugar. Nú er komið í ljós að lögreglan henti kærunni í ruslið.“

Þetta segir Gilbert Grétar Sigurðsson í samtali við DV. Gilbert og Hilmar hafa á síðustu árum staðið í harðvítugum deilum sem ítrekað hafa ratað í fjölmiðla og hafa ásakanir gengið á víxl. DV greindi frá átökum fyrir utan World Class í Laugum í ágúst 2014. Myndband náðist af átökunum. Dv.is birtir í dag annað myndband sem hefur aldrei komið fyrir almenningssjónir og fer nánar í saumana á sögu Gilberts og Hilmars. Myndbandið má sjá neðst í fréttinni. Nú er komið í ljós að Laugamálið fór ekki fyrir dóm og vill Gilbert stíga fram og segja alla söguna frá sínu sjónarhorni.

Sjá einnig: Í átökum við World Class

„Ég hafði ráðfært mig við fjölda lögmanna og lögreglan sagði sjálf að þetta væri borðleggjandi fangelsi. Þeir voru fjórir, ég einn. Nú þegar búið er að henda málinu í ruslið spyr ég, má þá ráðast fjórir á einn með stórhættulegri straumbyssu og höggum? Svo virðist vera.“

Hilmar Leifsson vildi lítið láta hafa eftir sér um ásakanir Gilberts þegar eftir því var leitað en stutta yfirlýsingu frá honum má finna neðst í fréttinni.

Æska Gilberts

Gilbert fer reglulega heim.
Ólst upp á Grundarfirði Gilbert fer reglulega heim.

Gilbert er fæddur í apríl, 1981 í Reykjavík. Fimm árum síðar flutti hann ásamt móður sinni, eldri systur og yngri bróður til Grundarfjarðar.

„Mamma vann í sjoppunni og var líka fiskvinnslunni. Hún tók að sér alla vinnu sem bauðst til að halda okkur krökkunum uppi. Fyrst í stað áttum við lítið sem ekkert en það var alltaf matur á borðum. Ári síðar kynntist hún fósturpabba mínum.“

Lífið varð bærilegra þegar tvö sáu um að sjá fjölskyldunni farborða. Fósturfaðir Gilberts var skrifstofustjóri í hraðfrystihúsinu og tók Gilbert að sér eins og hann væri hans eigin sonur. Gilbert var að eigin sögn uppátækjasamt barn og stundaði íþróttir af kappi. Hann eignaðist lítinn gúmmíbát sem hann safnaði fyrir með því að tína dósir. Á þessum gúmmíbát réri hann svo um allan Grundarfjörð.

„Ég réri marga kílómetra á þessum bát, pínulítill polli. Ég styrkti botninn með því að líma slöngubætur undir hann eins og eru á vinnuvélum þannig að ég gæti róið á bátnum upp í allar fjörur án þess að hann myndi springa.“

Úti í firðinum stendur sker upp úr sjónum á fjöru. Þangað kveðst Gilbert hafa róið alla daga er sjór var sléttur.

„Ég átti mjög góðar stundir úti á þessu skeri. Oftast sat ég þarna einn. Það var lítil fjara í skerinu og þar hlóð ég vörðu. Á háflóði flæddi alltaf yfir skerið en þá stóð varðan mín alltaf upp úr sjónum. Ég hélt þessari vörðu við og fannst ég eiga þetta sker og þetta var mitt athvarf. Þarna sat ég með fuglunum og kyrrðinni.“

Lagði krakka í einelti

„Ég átti erfitt með að tjá mig og fann fyrir djúpri ró þegar ég drakk. Þrettán ára byrjaði ég að safna bjór sem ég tók frá mömmu og pabba.“

Gilbert kveðst hafa átt einn góðan og traustan vin á æskuárunum.

„Ég átti ekki samleið með jafnöldrum mínum og átti ekki auðvelt með að vera innan um fólk. Ég var hálflokaður sem gerði að verkum að ég byrjaði að drekka áfengi snemma.

Hafðirðu orð á þér að vera villingur?

„Bæði og. Ég viðurkenni að ég lagði krakka í einelti sem barn. Ég vissi ekki af hverju ég gerði það og ég gerði mér ekki grein fyrir hvað ég væri að gera. Þegar ég varð eldri og þroskaðri áttaði ég mig á sársaukanum sem ég hafði valdið.“

Það sat í Gilbert. Hann langaði oft að safna kjarki og biðja krakkana afsökunar á hegðun sinni.

„Þegar ég tók sporin í AA fór ég alveg þangað niður og heimsótti alla,“ segir Gilbert og bætir við að honum hafi verið vel tekið. „Það voru margir hissa á að ég hefði unnið í sjálfum mér niður í æsku, sumir mundu ekki eftir þessu. Aðrir sögðu að þetta hefði ekki verið svona alvarlegt. Það var ein stelpa sem var gríðarlega þakklát. Það létti af henni mikilli byrði að ég játaði mínar misgjörðir og við féllumst í faðma.“

„Ég viðurkenni að ég lagði krakka í einelti sem barn.“

Gilbert kveðst oft hafa viljað skrifa grein um einelti út frá sjónarhóli geranda. Það sé sjaldgæft að sjá þá sem hafi beitt einelti opna sig.

Var erfitt að biðja afsökunar?

„Þetta var rosalegur léttir. Mig var búið að langa svo lengi að koma þessu frá mér. Þegar ég kynntist AA sporunum var þetta eitt af verkefnunum, að játa misgjörðir sínar. Þá fór ég yfir líf mitt í leiðsögn með sponsor og punktaði hjá mér hverja ég hafði skaðað og gerði hreint fyrir mínum dyrum. Útborgunin sem ég fékk andlega var ótrúleg. Það breytti lífi mínu og vonandi varð líf þeirra sem ég hafði sært bærilegra líka.“

Flytur til Reykjavíkur

Eftir að grunnskólagöngu Gilberts lauk flutti hann til föður síns í Reykjavík. Hann hóf nám í grunndeild málmiðnaðar í Iðnskólanum. Stefnan var að fara síðar í vélskólann og verða vélstjóri eða flugvirki. Samhliða námi og yfir sumartímann vann Gilbert í byggingarvinnu og hafði góðar tekjur ásamt því að taka einn og einn túr á sjó þar til hann fékk fast pláss og starfaði sem sjómaður næstu tvö árin.

„Ég keypti mína fyrstu íbúð 18 ára. Draumurinn var að komast sem fyrst úr foreldrahúsum. Ég flutti inn með barnsmóður minni en við eigum í dag strák sem er að verða 15 ára,“ segir Gilbert og bætir við að hann hafi átt erfitt með að ná tökum á áfengisneyslu sinni.

Hversu gamall varstu þegar þú byrjaðir að drekka áfengi?

„Ég varð vitni að ljótum hlutum og ég var enginn engill sjálfur.“

„Ég byrjaði að drekka 11 ára. Ég átti erfitt með að tjá mig og fann fyrir djúpri ró þegar ég drakk. Þrettán ára byrjaði ég að safna bjór sem ég tók frá mömmu og pabba. Oft drakk ég einn bjór fyrir svefninn. Þau fóru í bæjarferðir og keyptu þá marga kassa af bjór og þá var auðvelt að stela einum og einum án þess að þau grunaði nokkuð. Bjórinn drakk ég eins og gos, lagðist síðan á koddann og lognaðist út af. Ég notaði bjórinn í raun sem svefnlyf.“

Eftir því sem árin liðu ágerðist drykkjan. Kveðst hann þrátt fyrir drykkju alltaf hafa unnið mikið og haft góðar tekjur.

„Eins og fleiri á góðæristímanum lifði ég hátt og keypti stórt og íburðarmikið endaraðhús í Mosfellsbæ. Ég hannaði það allt sjálfur að innan. Það var keypt allt það nýjasta og flottasta. Þarna bjuggum við á besta stað, ég og seinni barnsmóðir mín og dóttir okkar. Á þessum tíma átti ég í vandræðum með áfengi og önnur fíkniefni. Þegar ég missti allt tók við tveggja ára fyllerí upp á líf og dauða.“

Gilbert og barnsmóðir hans ákváðu að tími væri til kominn að fara hvort í sína áttina eftir fjögurra ára samband. Honum reyndist viðskilnaðurinn við dóttur sína þungbær.

„Ég man alltaf eftir því, þegar ég var uppi í Tröllateig, í nýja fína húsinu, með allar fjarstýringarnar með öllum ljósunum og sérhönnuðu húsgögnunum. Ég var útkeyrður eftir neyslu, allir voru farnir og ég var inni í eldhúsi þegar ég tók eftir fingraförum dóttur minnar á bakaraofninum. Ég tímdi ekki að þurrka þau af, alveg sama hversu oft ég þreif húsið. Ég skoðaði alltaf þessi fingraför þegar ég fór að sofa. Þá settist ég með stól við ofninn og horfði á þessi pínulitlu fingraför. Og ég grét. Ég er svo mikill snyrtipinni, bara eitt fingrafar fer í mínar fínustu, en fingraförin á bakaraofninum voru aldrei þrifin og voru bara fyrir mig.“

Meðferð

Árið 2008 skráði Gilbert sig í meðferð og leitaði sér aðstoðar erlendis. Til þess notaði hann sína síðustu fjármuni. „Ég var eignamikill í fasteignum þegar þetta var og notaði síðustu þrjár milljónirnar sem ég átti til að fara í meðferð. Ég sá ekki eftir þeim peningum. Ég vissi að ef ég fjárfesti í edrúmennsku myndi ég ná þessum aurum til baka. Á þessum tíma var ég búinn að vera í dagneyslu í meira en ár á áfengi og kókaíni. Í þannig neyslu endar maður í undirheimunum án þess endilega að gera sér grein fyrir því að þetta séu undirheimar. Ég varð vitni að ljótum hlutum og ég var enginn engill sjálfur. Ég taldi að ef ég myndi fara í dýrustu og flottustu meðferðina yrði ég sjálfkrafa edrú. En ég tók aldrei sporin og ég var edrú í átta mánuði.“

„Ég ældi og pissaði blóði í marga mánuði og var með blæðandi magasár.“

Þá tók aftur við dagneysla í tvö ár til ársins 2011. Líkaminn var að gefa upp öndina. Gilbert sat dag einn á móti lækni sem sagði að hann myndi ekki lifa af ef hann tæki ekki á sínum málum.

„Ég ældi og pissaði blóði í marga mánuði og var með blæðandi magasár. Líkaminn var allur í bólgum að innan og ég geymdi brúsa af landa á náttborðinu til að drekka óblandaðan til að koma í veg fyrir að ég færi í krampa á morgnana. Það er alþekkt að fólk getur dáið í þessum krömpum.“

Í ágúst árið 2011 tók Gilbert ákvörðun. Hann hafði ekki prófað sporin eða farið í gegnum þau ásamt trúnaðarmanni. Hann hélt til Grundarfjarðar þar sem hann var trappaður niður af lækni sem er í fjölskyldu hans. Í þrjá mánuði vann læknirinn í að gefa honum lyf gegn fráhvörfum.

„Þarna kom eitthvað yfir mig og ég uppgötvaði að ég vildi lifa lengur.“

Gilbert fékk sér trúnaðarmann sem búsettur var í Ólafsvík. „Það var kærleiksglampi í augum hans. Mig langaði í þennan glampa,“ segir Gilbert.

„Áður en ég vissi af vorum við farnir að taka sporin saman og ég játaði mig sigraðan. Ég hafði ekki lengur stjórn á mínu lífi. Það var fyrsta sporið. Ég var viss um að það væri til máttur mér æðri og ég tók hann inn í líf mitt. Þannig hélt ég áfram að taka sporin. Þarna byrjaði mitt bataferli. Ég var edrú í 18 mánuði.“

Fimm daga fall

„Það gengur bara mjög vel hjá mér, mér hefur ekki liðið betur í mörg ár. Ég var búinn að reyna að verða edrú í tvö ár. Mér bauðst síðan að fara til Grundarfjarðar til vinar míns sem hjálpaði mér í gegnum þetta. Það skiptir rosamiklu máli að komast út úr borginni, losna við áreitið og komast í kyrrðina úti á landi,“ sagði Jón stóri í samtali við DV.

Gilbert hjálpaði Jóni „Það gengur bara mjög vel hjá mér, mér hefur ekki liðið betur í mörg ár. Ég var búinn að reyna að verða edrú í tvö ár. Mér bauðst síðan að fara til Grundarfjarðar til vinar míns sem hjálpaði mér í gegnum þetta. Það skiptir rosamiklu máli að komast út úr borginni, losna við áreitið og komast í kyrrðina úti á landi,“ sagði Jón stóri í samtali við DV.

Mynd: Mynd 365

Í mars 2013 féll Gilbert aftur. Þá tók við fimm daga neysla á öllum þeim fíkniefnum sem hann komst yfir.

„Ég ákvað þegar ég tók fyrsta sopann sem leiddi til þessa fimm daga túrs að ég ætlaði keyra mig í klessu í eitt skipti og fara svo aftur til baka. Ég hringdi í Jón stóra, vin minn, sem ég hafði ekki heyrt í í mörg ár en við höfðum alltaf vitað af vináttu hvor annars.“

Næstu daga var drukkið og dópað stíft og slegið upp partíi.

„Ég byrjaði strax að pissa og æla blóði. Þrátt fyrir góðan edrútíma var líkaminn ekki búinn að jafna sig.“

Gilbert var ákveðinn í að hætta aftur og reyndi að sannfæra Jón stóra um að koma með sér til Grundarfjarðar. Jón var tregur til að byrja með.

„Við vorum að kveðja vin okkar og þurftum síðan báðir að fara á klósettið á sama tíma. Við stóðum yfir klósettinu eins og litlir guttar og pissuðum í kross og við pissuðum báðir blóði. Við horfðum á hvor annan. Ég sagði: „Jón, er ekki kominn tími til að hætta þessu? Komdu með mér á Grundarfjörð. Við erum að deyja hérna“.“

Margir syrgðu Jón stóra. Gilbert tók þátt í að bera kistu vinar síns.
Jarðarför Margir syrgðu Jón stóra. Gilbert tók þátt í að bera kistu vinar síns.

Ég lét hann vita að það biði eftir okkur læknir á Grundarfirði sem myndi trappa okkur niður. Að lokum fórum við til Grundarfjarðar og vorum þar í sjö vikur. Hann vann í sporunum og tók þau öll. Að sjá hann blómstra og ná bata flýtti fyrir mínum bata. Hann hafði verið á kafi í neyslu í 12 ár.“

Sjá einnig: Jón stóri: „Mér hefur ekki liðið betur í mörg ár“

Jón stóri náði að vera edrú í þrjá mánuði, þá féll hann en náði sér svo aftur á strik. Hann lést svo skömmu eftir annað fall.

„Ég bar hann í gröfina. Þessi tími er mér rosalega dýrmætur. Þarna sá ég hvað er gott að gefa af sér. Mig langaði að hjálpa honum og hann tók við hjálpinni og ég gaf honum það sem mér hafði verið gefið. Ég tel að hann hafi farið í gröfina sáttur við Guð og menn. Þá var dýrmætt fyrir fjölskyldu hans að sjá hann edrú eftir öll þessi ár og ná tengslum við fjölskylduna aftur.“

Sjá einnig: Mamma Jóns stóra segist hugga sig við að hann var edrú

Forsaga málsins – Átök verða opinber

Frétt DV þann 23. ágúst árið 2014 vakti mikla athygli. Þar var greint frá því að til átaka hefði komið fyrir utan World Class í Laugum. Þar voru á ferðinni Hilmar Leifsson og þrír félagar hans og veittust þeir að Gilbert. Myndband var birt af árásinni og birtir dv.is í dag nýtt myndband sem aldrei hefur komið fyrir sjónir almennings. Í frétt DV sagði að einn mannanna hefði verið vopnaður rafbyssu og að henni hefði verið beitt í þrígang. Sagði lögregla alvarlegt að slíku vopni væri beitt enda getur það reynst banvænt.

„Ég kærði þessa stórhættulegu árás. Þeir skiptust á að þreyta mig með spörkum og höggum á meðan Hilmar hvíldi sig, svo þegar Hilmar náði andanum þá hjólaði hann í mig, en sorglegast við þetta allt saman var að þegar ég var búinn að fá þriðju stunguna frá rafbyssunni, telur Hilmar mig það vankaðan að hann ætti greiðan aðgang að andliti mínu með höggi, en ég færði mig snögglega frá og hann endaði á andlitinu á stéttinni. Kæran var ekki einu sinni tekin fyrir. Þess vegna finnst mér nú rétti tímapunkturinn til að tjá mig um þetta mál,“ segir Gilbert.

„Á þessum tíma var ég í mínu besta formi og rafbyssan er hönnuð til að lama fólk. Hefði kæran verið felld niður ef ég hefði endað með hjartaáfall á stéttinni? Eru málin flokkuð þannig að ef þú ert hraustur nýtur þú ekki sama réttar og sá sem er veikur fyrir hjarta, eiga lögin að mismuna fólki?“

Í DV og fleiri miðlum hafa birst ótal fréttir af málum tengdum Hilmari og Gilbert. DV greindi fyrst frá því að fjölmargir fyrrverandi bandamenn Hilmars hefðu snúist gegn honum. Þá hefur DV fjallað um óhefðbundnar innheimtuaðgerðir Hilmars í garð bílasala og iðnaðarmanns.

„Okkur Hilmari lenti fyrst saman þegar ég ákvað að hjálpa tveimur vinum mínum. Hilmar lagði sex milljóna króna skuld á starfsmann fyrirtækis með hótunum og hann kærði. Hilmar ákvað að eigandi fyrirtækisins hefði skorað á starfsmanninn að kæra sem er algjör firra. Honum fannst því réttlætanlegt að leggja 10 milljóna króna skuld á hann. Bæði þessi mál voru kærð og felld niður hjá lögreglu af óskiljanlegum ástæðum þrátt fyrir borðleggjandi sannanir,“ heldur Gilbert fram.

„Þessar deilur snúast ekki bara um mig, þær snúast um fullt af öðru fólki og fjölskyldum sem hafa sætt kúgunum, ofsóknum og ofbeldi af hans hálfu. Ég hef tekið mörg hans fórnarlömb undir minn verndarvæng sem ekki hafa þorað að kæra hann af ótta við hvað gæti gerst.“

Þú hefur einnig orð á þér að hafa ekki verið barnanna bestur á sínum tíma?

„Ég á sannarlega fortíð og hún er misfögur á köflum, sérstaklega það sem gerðist áður en ég varð edrú, sú fortíð er ekki endilega falleg og ég ætla ekki að gera tilraun til að fegra hana. Ég er búinn að gera hana upp. Ég hef frá því að ég var krakki alltaf haft sterka réttlætiskennd en eftir að ég hætti neyslu kom réttlætiskennd mín meira upp á yfirborðið. Ég lærði það í 12 sporum AA samtakanna að hjálpa náunganum og það er rosalega gott fyrir eigin bata. Mér hefur einnig alltaf fundist gott að hjálpa og ég læt ekki kúga mig. Ég finn fyrir velgju og fyllist viðbjóði þegar ég sé saklaust fólk verða fyrir kúgun eða ofbeldi. Það hefur aldrei hvarflað að mér að gefast upp fyrir óréttlæti. Ég hef hjálpað fólki sem er búið að missa æruna eða verið við það að missa hana,“ segir Gilbert.

„Upphaf ósættisins má rekja til þess þegar ég sný hornum mínum á móti honum ásamt tugum annarra sem hann hafði farið illa með. Þetta fólk vildi réttlæti.“

Fullorðnir menn gráta

Hilmar sjálfur hefur í viðtölum þvertekið fyrir að hafa handrukkað vini Gilberts. Sagðist hann hafa verið að bjarga manninum frá slíku. Í frétt DV sagði að maður hefði sætt innheimtuaðgerðum mánuðum saman af hendi Hilmars og félaga hans, Davíðs Smára Helenusonar. Í frétt DV sagði að til væru upptökur af samtali Hilmars við manninn. Þar sagði meðal annars: „Við náum ekki að bakka út úr þessu, þá færðu bara menn, þú skuldar þetta og þá ertu bara laminn. Nenni ekkert að hlusta á kjaftæði eins og þetta. […] Ef þú skuldar sex milljónir þá borgar þú þú borgir þær með löppunum á þér, ef menn rukka þig þannig.“

Sjá einnig: Ég er skrifaður inn í eitthvað leikrit

Hilmar hefur tjáð sig um þau mál í fjölmiðlum. Í samtali við DV 2014 sagði hann að um misskilning væri að ræða. Hann hefði farið að ræða við mennina fyrir fjölskylduvin sem hann hafi þekkt frá barnæsku.

„Þetta er góður og vammlaus maður. Hann bað mig ekkert að nefna þetta neitt. Bílasalinn startar þessu í rauninni og maðurinn sem vinnur hjá honum er lygaskunkur. Hann hefur svikið alla. Það er slóð eftir hann. Ég fór þarna því ég taldi bílasalann vera vin minn. Ég bað þá um að gera eitthvað fyrir þennan fjölskylduvin.“

Í sama viðtali var Hilmar spurður hvort skuldin yrði greidd „með löppunum“ á manninum. „Hann gerir ekkert sitjandi á rassgatinu. Þú drullast á lappir og gerir eitthvað. Menn þurfa að borga skuldirnar sínar – það þurfa allir að gera það,“ svaraði Hilmar.

„Þessi skuld átti sér enga stoð í raunveruleikanum,“ segir Gilbert og gefur lítið fyrir þessar útskýringar. „Hilmar ákvað skuldina og hann margfaldar eins og hann vill, ég kalla það Hilmarsvísitöluna. Líf tveggja vina minna var í rúst og þeir voru að hugsa um að skjóta sig í hausinn eða flýja land. Ég gat ekki horft á það aðgerðarlaus þegar ég sá fullorðna menn gráta og treysta sér ekki í vinnuna, takandi kvíðalyf og sofa með vopn undir koddanum og vera með haglabyssu við útidyrnar vegna hræðslu.“

Hann hefur gert ítrekaðar tilraunir til að buga mig, reyna að fá mig til að falla frá kærum og hvetja aðra til að kæra ekki. Mér hefir verið hótað ótal sinnum og borist morðhótun skriflega. Þá hótun kærði ég og vann það mál. Sævar sonur Hilmars fékk þó ekki dóm en mér var dæmt í hag.“

Dóttir fær taugaáfall

„Sævar, er þér ekkert heilagt, ég er með dóttur mína.“

Gilbert bætir við að fyrir sléttu ári hafi hann verið rétt ókominn heim með dóttur sína. Þá hafi síminn hringt og viðmælandinn öskrað: „Drullastu niður á plan. Við erum búnir að bíða eftir þér í sólarhring.“ Þeir sögðust ætla að berja mig. Ég svaraði: „Sævar, er þér ekkert heilagt, ég er með dóttur mína,“ í sömu andrá grípur hann fram í og segist vera drullusama og ég eigi að drulla mér niður og það eigi að ganga frá mér.“

Gilbert segir dóttur sína hafa fengið taugaáfall og kastað upp. „Það var annar maður, Sigurður Kristján, og hann öskraði alls konar fúkyrðum yfir mig sem dóttir mín heyrði.“ Gilbert segir dóttur sína hafa hlaupið út úr bílnum og hann hafi reynt að róa hana niður.

„Hún var viss um að þeir myndu reyna að keyra á okkur. Lögreglan sótti okkur og ég vil að það komi fram að lögreglumennirnir voru almennilegir og eiga hrós skilið fyrir aðkomu sína að þessu máli. Dóttir mín fékk svo áfallahjálp hjá góðum sálfræðingi frá Barnaverndarnefnd sem á hrós skilið. Þetta er það erfiðasta sem ég hef þurft að takast á við í lífinu,“ segir Gilbert og bætir við að Sævar hafi verið dæmdur í sex mánaða nálgunarbann í kjölfarið.

„Samstarfskona mín, myndlistarkonan Ýrr, sem býr í sama húsi á sömu hæð hefur einnig orðið fyrir hótunum og þá hefur Hilmar verið tíður gestur á planinu hjá mér. Það er sorglegt að sextugur maður skuli keyra um planið hjá mér með stanslausar hótanir, kallandi mig sterahræ og kryppling. Ég næ bara ekki utan um þennan orðaforða. Fleiri á hans vegum hafa komið í halarófu á eftir honum. Þá hefur verið skotið á rúðuna í stofuglugganum hjá mér, það hefur verið rannsakað. Hilmar lætur mig ekki í friði og er í fullri vinnu við að búa til sögur um mig sem eru svo fáránlegar að ég spyr mig, af hverju bjuggu þeir ekki til sögu sem er að minnsta kosti smá trúverðug.“

Gilbert segir að eftir að átökin hófust hafi fjölmargir bílar í hans eigu verið gjöreyðilagðir með kylfum og hömrum.

Hilmar og Gilbert hafa deilt árum saman.

Hilmar Hilmar og Gilbert hafa deilt árum saman.

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

„Það var kært til lögreglu. Mér finnst að menn sem haga sér eins og þeir hafa gert gagnvart mér og öðrum eigi hvergi annars staðar heima en í fangelsi og það hefur verið mitt markmið að koma Hilmari þangað. Það er langt síðan ég fékk nóg af hrottaskapnum. Mér finnst gott að hjálpa fólki sem taldi sig dauðvona, búið að missa æruna eða á leiðinni að missa hana og finna fyrir lífsviljanum aftur. Þá telur maður sig vera að gera eitthvað rétt.“

Hilmar sagði í viðtali við DV árið 2014 að hann væri skrifaður inn í leikrit. Um deilurnar hafði hann þetta að segja:

„Sannleikurinn og sagan um Hilmar Leifsson er tvennt ólíkt. Sagan um Hilmar Leifsson, ég er hræddur við hana sjálfur. Ég hef alið upp börnin mín og þurft að útskýra sögurnar um mig sem þau heyra um pabba sinn. Ég er bara að sinna mínu. Þetta er ekkert klíkustríð, þetta er bara einn þöngulhaus ásamt vitleysingum.“

Þegar Gilbert er spurður hvort hann sé í stríði við Hilmar Leifsson svarar hann neitandi.

„Ef Hilmar eða einn af hans mönnum myndi ráðast á mig, þá ekki aftan frá og vopnlaus, þá myndi ég ekki kæra það hvernig sem færi. En þeir hafa alltaf ráðist á mig margir saman og þá vopnaðir og það er sorglegt. Menn sem gera það eiga ekkert annað skilið en að lenda í fangelsi,“ segir Gilbert.

Hvítur fáni

Í desember 2014 flaggaði Gilbert hvítum fána á Facebook-síðu sinni.

„Hér með hendi ég inn hvítum fána og af minni hálfu lýsi ég þessu stríði lokið!“ skrifaði hann.

Sjá einnig: Lýsir stríðinu lokið

Jafnframt sagði Gilbert að Hilmar myndi ekki verða fyrir ónæði frá honum eða hans fólki. Stríðið væri komið út fyrir öll velsæmismörk.

„Eftir að ég henti inn hvítum fána hefur ekki komið eitt púst frá mér. Hann virti það ekki viðlits og daginn eftir réðust fimm menn á vin minn fyrir utan Sporthúsið, aftan frá. Hann hefur ekki stoppað síðan í hótunum við fólk nálægt mér eða látið hótanir berast til mín í gegnum þriðja aðila.“

Árás við Smáralind

DV greindi frá því september í fyrra að fimm menn hefðu ráðist á Gilbert fyrir utan Smáralind. Í fréttinni sagði að gengið hefði verið í skrokk á Gilbert og hafnaboltakylfu, kúbeini og stálröri meðal annars verið beitt í árásinni. Sagði Gilbert að Sævar sonur Hilmars og Brynjar Kristensson hefðu farið fremstir í flokki. Gilbert brotnaði í baki og á rist eftir þau átök. Hilmar Leifsson tjáði sig einnig um árásina og sagði fráleitt að sonur hans hefði staðið fyrir árásinni.

„Þetta er strákur sem er að standa sig gríðarlega vel,“ sagði Hilmar. „Hann er á skilorði og var ekki að fara lemja einn né neinn.“ Hilmar bætti við að Sævar sonur hans hefði verið á vettvangi en ekki tekið þátt í slagsmálunum. Við það tækifæri sagði Hilmar að hann hefði sjálfur orðið fyrir árásum frá Gilbert og mönnum tengdum honum. Gilbert hefur hins vegar aðra sögu að segja og fullyrðir að Sævar hafi stýrt árásinni líkt og Hilmar hafi gert í Laugum.

„Þeir voru allir vopnaðir og seinustu orð Sævars þegar árásin var að taka enda voru: „Þetta er ekki búið, ég drep þig, þetta er rétt að byrja.“ Ég varðist eins og ég gat en hlaut mikla áverka, tvö beinbrot og blóðið flæddi úr mér. Mér tókst að drösla mér inn í Smáralind og kaupa mér eitthvað að drekka. Ég var með brot í fæti og settist niður og hugsaði hvað hefði gerst. Ég var svo gáttaður á þessum aumingjaskap. Svo tek ég eftir að ég stend í polli af blóði og það var blóð út um allt.“

Gilbert segir lögreglu hafa komið á staðinn.

„Að sjálfsögðu voru öryggismyndavélar bilaðar fyrir utan Smáralindina rétt eins og fyrir utan World Class hér um árið. Það virðist allt bila þegar Hilmar og hans hálfdrættingar eiga í hlut, eða gögn hverfa eða er fyrir ótrúlega tilviljun hent í ruslið eða týnast. Hvað á þetta að ganga lengi? Það er nefnilega í gegnum tíðina búið að sitja fyrir mér úti um allt. Það er búið að sitja fyrir mér niður í Laugum. Það er búið að ráðast á mig í Smáralind. Þeir eru búnir að vera í kringum húsið mitt. Ég bjó í Kópavogi, þar var endalaust verið að skemma fyrir mér bíla og kasta grjóti í rúðurnar og taka í hurðarhúna á nóttunni.“

Hilmar hefur á móti í viðtölum sakað Gilbert um árásir og skemmdarverk og segist vera orðinn langþreyttur á ásökunum um að hann standi á bak við árásir og skemmdarverk. Þá sagði hann það vitleysu að hann stæði í stríði. Hilmar sagði í samtali við DV að dóttir hans tæki árásir sem hann yrði fyrir nærri sér.

„Dóttir mín sagði einu sinni við mig: Pabbi, fer þetta ekki að hætta? Og hvað getur maður sagt?“ og bætti Hilmar við að hann ætti ekki í stríði við neinn.

Hrossaskítur fyrir utan heimili Hilmars

Hilmar sakaði hópinn um að hóta börnum sínum. Gilbert þvertekur fyrir það og segir að hann hafi talað við Hilmar á því eina máli sem hann skilur.

Söfnuðust saman fyrir utan hjá Hilmari Hilmar sakaði hópinn um að hóta börnum sínum. Gilbert þvertekur fyrir það og segir að hann hafi talað við Hilmar á því eina máli sem hann skilur.

Mynd: Skjáskot – https://www.youtube.com/watch?v=vuLlkWaVs6g

Í ágúst 2014 greindi DV frá því að hrossaskít hefði verið dreift fyrir utan heimili Hilmars. Þar sagði að 30 manna hópur á tíu bílum hefði dreift hrossaskít fyrir utan heimilið og um væri að ræða framhald á átökum er sneru m.a. að innheimtuaðgerðum Hilmars. Hilmar sagði þá í samtali við DV að börnum hans og hundi hefði verið hótað.

„Hans hlið á þessu máli er svo fjarstæðukennd. Þarna áttu engar hótanir sér stað og fór þetta friðsamlega fram. Eingöngu var um skilaboð að ræða í þessum gjörningi. Mér hefur þótt erfitt að sitja og þegja þegar ég sá viðtal vegna þessa máls, þegar ég bar hrossaskít upp að dyrum hjá honum. Ég var búinn að vera að reyna að tala við manninn árangurslaust. Þetta var eins og að tala við vegg. Skilaboð mín til hans; að bera hrossaskít upp að dyrum hjá honum, eru að ég þurfti bara að tala við hann á hans eigin tungumáli, sem hann einn skilur. Mér er alveg sama þó að fólki hafi fundist það fáránlegt. Þetta skildi hann. Í hans bíómyndaheimi, sem hann virðist lifa í, þá talaði ég við hann á hans eigin tungumáli eins og í mafíubíómyndum. Ef það er borinn skítur upp að dyrum hjá þér þá ertu skítugur. Það voru engin lög brotin.“

Ráðlagt að flýja land

Gilbert heldur því fram að eftir því sem átökin fóru að vinda upp á sig hafi hann verið boðaður á fund hjá lögreglu.

„Ég var að skila inn gögnum vegna hótana Hilmarsmanna til rökstuðnings kæru sem ég hafði lagt fram. Þá var ég kallaður á efstu hæð en þar sátu sex eða sjö lögreglumenn og tvær konur. Þar var ég spurður hvort þeir mættu ræða við mig og taka það upp. Þar var sagt: „Við teljum að það sé verið að reyna að drepa þig og líf þitt sé í hættu.“ Þeir sögðu að það samræmdist þeim gögnum sem ég var að skila inn og sýndu hótanir í minn garð um að taka ætti mig af lífi. Lögregla getur staðfest það en hún hefur hvatt mig til að kæra og halda öllum gögnum til haga því þeir vilja ná honum inn.“

Hilmar hefur aftur á móti í viðtali sagt að Gilbert komist upp með hluti sem hann sjálfur myndi aldrei komast upp með. Á síðustu árum hafa reglulega birst fréttir í fjölmiðlum um átök þeirra á milli.

„Margir misskildu hvað vakti fyrir mér. Ég sóttist ekki eftir neinum undirheimavöldum. Ég hjálpaði fólki sem öskraði á réttlæti. Það var eingöngu minn málstaður að ná fram réttlæti, ekki neinum sess í undirheimum. Undirheimar eru ljótir og þar er kalt að vera. Ég er búinn að fá minn skammt af undirheimum fyrir löngu og vil ekki vera kenndur við þennan heim,“ segir Gilbert.

„Ég hef alltaf haldið öllum gögnum til haga um Hilmar. Ég furða mig á að Laugamálið hafi verið fellt niður en hægt er að sjá alvarleika árásarinnar í myndskeiðunum,“ segir Gilbert og bætir við:

„Ég stíg ekki fram og segi sögu mína nema getað bakkað hana upp með skjölum og sönnunum. Gögn sem ég hef undir höndum sanna mál mitt og ég er til í að sýna þau opinberlega hvenær sem er. Það er margt enn ósagt. Fjölmiðill er ekki stór lúður til að öskra einhvern niður og nota sem gremjuverkfæri.“

Vopnahlé

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Ef Hilmar myndi stinga upp á vopnahléi, segði: „Förum í sitthvora áttina. Þú verður aldrei var við mig aftur“, myndir þú samþykkja það eða lýkur þessu stríði ekki fyrr en annar hvor ykkar hrekkur upp af?

„Æran mín er ekki til sölu og ég er ekki að fara gefa Hilmari æruna mína. Hana tek ég með mér í gröfina. Hilmar álítur kannski að hann sé mér æðri en enginn er mér æðri nema minn Guð. Það er mikill skaði skeður. Barnið mitt er búið að fá taugaáfall. Börnin mín eru búin að hljóta verulega mikinn skaða af þessu. Hann yrði þá að láta alla sem hafa leitað til mín í friði líka. Ég myndi aldrei fyrirgefa Hilmari. Ég er maður fyrirgefningar en ég held að hún virki ekki í þessu tilfelli. Tilhugsunin um fyrirgefningu veldur velgju og ógleði, en mér finnst að hann ætti að vera kominn í fangelsi fyrir löngu. Maður spyr sig hvað sé eiginlega að gerast niðri á lögreglustöð. Það er eins og hann sé verndaður,“ segir Gilbert.

„Tilfinningin er að þetta sé bók sem búið er að skrifa og við séum staddir í lokakaflanum.“

„Auðvitað er draumurinn að geta lifað eðlilegu lífi og sinnt börnunum á eðlilegan hátt. Á þessum tíma, sem deilurnar hafa átt sér stað, hef ég ekki getað það og farið að ráðleggingum Barnaverndarnefndar. Að fyrirgefa er stórt og mikilfenglegt. Hann fær þó ekki mína fyrirgefningu því ég tel að ekki sé hægt að fyrirgefa manni eins og hann birtist mér, manni sem nærist á því að sjá aðra bugast. Hitt er annað mál að ég er tilbúinn til að ganga í hina áttina en myndi fyrst ráðfæra mig við þau fórnarlömb sem til mín hafa leitað. Það er svo sannarlega ekki vitlaus hugmynd að við getum gengið áhyggjulausir um götur bæjarins.“

Þú átt tvö börn og þú segir að þú getir verið takmarkað með þeim.

„Ég er góður pabbi. Ég eyði miklum tíma með börnunum mínum. Draumaniðurstaðan er að geta lifað eðlilegu lífi og sinnt foreldrahlutverkinu. Það er draumahlutverkið. Staðan er ekki þannig í dag.“

Hefðir þú viljað gera hlutina öðruvísi?

„Ef ég er alltaf að sjá eftir öllu þá hefur það áhrif á framtíð mína. Ég ætlaði ekki að enda í því hlutverki að standa í deilum við mann sem birtist mér og því fólki sem hefur leitað til mín sem stærsti glæpamaður á Íslandi.

Það var ekki í handritinu. Þetta er vegur sem ég ætlaði ekki að enda á en ég trúi því að ég hafi þurft að feta þennan veg. Ég er viss um að á endanum þá blessast þetta. Tilfinningin er að þetta sé bók sem búið er að skrifa og við séum staddir í lokakaflanum.“

Hvernig endar það?

„Guð einn veit það,“ svarar Gilbert. „Guð einn veit það.“

DV óskaði eftir viðbrögðum frá Hilmari Leifssyni vegna ásakana Gilberts. Svar Hilmars var stutt:

„Þetta er kannski hans sýn á hlutina og er í raun ekki svaravert. Þetta er veikur einstaklingur sem er með mig á heilanum. Í stuttu máli þá eru málin hans Gilbert gegn mér inni á borði lögreglu.“

[youtube https://www.youtube.com/watch?v=1hGK1tr2ahU&w=640&h=360]

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 15 klukkutímum

Rómantískur eiginmaður fór heim með allt aðra vöru – „Klaufalegt klúður af okkar hálfu“

Rómantískur eiginmaður fór heim með allt aðra vöru – „Klaufalegt klúður af okkar hálfu“
Fókus
Í gær

Þær eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna 2024

Þær eru tilnefndar til Fjöruverðlaunanna 2024
Fókus
Í gær

Gummi og Lína ástfangin í fimm ár – „Þú og ég á móti heiminum“

Gummi og Lína ástfangin í fimm ár – „Þú og ég á móti heiminum“
Fókus
Í gær

Þess vegna ætlar hún aldrei aftur að vera dómari í The Voice

Þess vegna ætlar hún aldrei aftur að vera dómari í The Voice
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ófær um að brosa eftir of mikið bótox

Ófær um að brosa eftir of mikið bótox
Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“

„Ég er skrýtinn gaur með sérstök áhugamál og ástríðu fyrir óvenjulegum hlutum“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Læknir varar við heimsmetatilraun klámstjörnunnar – Svona ætlar hún að ná að sofa hjá 1000 karlmönnum á einum degi

Læknir varar við heimsmetatilraun klámstjörnunnar – Svona ætlar hún að ná að sofa hjá 1000 karlmönnum á einum degi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Bubbi kominn með nýtt tattú – „Bubbi litli haldandi í hendi mömmu“

Bubbi kominn með nýtt tattú – „Bubbi litli haldandi í hendi mömmu“