fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Menningarverðlaun DV 2017: Tilnefningar í kvikmyndum

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 2. október 2018 22:16

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2017 verða afhent við hátíðlega athöfn föstudaginn 5. október klukkan 16:30 í nýjum og glæsilegum höfuðstöðvum DV að Suðurlandsbraut 14. Í ár verða veitt verðlaun í sjö flokkum; kvikmyndum, leiklist, tónlist, myndlist, bókmenntum, fræðum og stafrænni miðlun auk þess sem veitt eru sérstök heiðursverðlaun.

Þá verða lesendaverðlaun DV.is veitt en þar munu lesendur DV.is fá tækifæri til þess að kjósa það verk, listamann eða höfund sem þeim líst best á. Miðvikudaginn 3. október hefst netkosning á DV.is sem stendur til hádegis 5. október. Sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hreppir lesendaverðlaun DV.is.

Hér má sjá tilnefningarnar og skipan dómnefndar í flokki kvikmynda. Á næstu dögum verða birt á vef DV.is tilnefningar í öllum þeim flokkum sem veitt verða verðlaun fyrir.

 

Undir trénu

Undir trénu er kolsvört, dramatísk kómedía um myrkari hliðar samskiptaleysis og nágrannaerja. Kvikmyndin er skrifuð af þeim Huldari Breiðfjörð og Hafsteini Gunnari Hafsteinssyni, leikstjóra myndarinnar, og hljóta báðir tilnefningu. Vakti myndin mikla athygli í fyrrahaust. Í sögunni tvinnast saman grín og harmleikur með áreynslulausum hætti. Hvergi er feilnóta slegin í þessu magnaða verki. Edda Björgvinsdóttir er þó óumdeild stjarna myndarinnar og hefur aldrei verið betri.

 

Svanurinn

Í umfjöllun sinni um Svaninn sagði Þórarinn Þórarinsson formaður dómnefndar í Fréttablaðinu:

„Kvikmyndatakan er undurfögur og fangar á einhvern seiðandi hátt sjónarhorn barnsins sem horfir á fólk og atburði án þess að skilja almennilega hvað er að gerast og hvað fólkinu gengur til. Íslensk náttúra og fagurt og háskalegt landslagið njóta sín einnig feikivel í þessu magnaða listaverki. Náttúran og landið voru sprelllifandi í myndrænum texta Guðbergs og sama gildir um kvikmyndina. Náttúruöflin eru fljótandi umgjörð sögunnar. Svanurinn er undurfögur kvikmynd, hugvekjandi og mannbætandi upplifun“

Leikstýran Ása Helga Hjörleifsdóttir er tilnefnd fyrir frumraun sína.

 

Fangar

Fangar sópuðu til sín verðlaunum á síðustu Edduhátíð og er það engin furða. Leikarahópurinn var sterkur, handritið beitt og Ragnar Bragason gætti þess að gefa öllum rými til að njóta sín. Nína Dögg Filippusdóttir og Unnur Ösp Stefánsdóttir áttu hugmyndina, en þær eru tilnefndar til Menningarverðlauna DV fyrir sitt framlag ásamt leikstjóranum Ragnari Bragasyni og handritshöfundinum Margréti Örnólfsdóttur. Í þáttunum sýndi Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir að hún er ein okkar fremsta leikkona.

Out of Thin Air

Heimildarmyndin Out of Thin Air fjallar um hvarf Guðmundar og Geirfinns Einarssona árið 1974. Myndin er framleidd af Sagafilm og breska fyrirtækinu Mosaic Films fyrir RÚV, BBC og Netflix. Dylan Howitt er leikstjóri myndarinnar sem byggir að hluta til á gömlu myndefni frá áttunda áratugnum og nýjum leiknum atriðum sem leikstýrt var af Dylan Howitt og Óskari Jónassyni. Markmið aðstandenda að viðhalda hlutleysi skín í gegn og nýtur heildarsvipurinn góðs af glæsilegri kvikmyndatöku Bergsteins Björgúlfssonar auk tónlistar frá BAFTA-verðlaunahafanum Ólafi Arnalds. Útkoman er faglega unnin og listræn heimildarmynd og líklega aldrei hefur þetta umdeilda mál verið komið til skila á jafn áhrifaríkan hátt.

 

Rökkur

Íslenskar hrollvekjur eru sjaldséð sjón á hvítatjaldinu og útkoman ansi misjöfn. Frumraun Erlings Óttars Thoroddsen, sem er ungur og efnilegur leikstjóri fær standandi lófaklapp. Erlingur sækir í þennan heim á frumlegan og áhrifaríkan hátt en hann skrifaði einnig handritið. Björn Stefánsson og Sigurður Þór Óskarsson bera myndina á herðum sér í hlutverki manna sem gera upp samband sitt í afskekktum sumarbústað á Snæfellsnesi. Myndin vakti athygli á ótal kvikmyndahátíðum og sópað til sín verðlaunum.

Í dómnefndinni voru Þórarinn Þórarinsson, Edda Karítas Baldursdóttir og Tómas Valgeirsson.

Uppfært: Í fyrstu útgáfu fréttar mátti skilja sem svo að Margrét Örnólfsdóttir aðalhandritshöfundur Fanga væri ekki tilnefnd ásamt Nínu Dögg, Unni Ösp og Ragnari Bragasyni. Margrét er að sjálfsögðu tilnefnd til Menningarverðlauna DV fyrir sitt framlag. Mistökin skrifast á ritstjórann þegar hann var að fara yfir textann. Margrét er beðin innilega afsökunar á þessum mistökum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Eiður og Vicente í KR
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“

Sharon Osbourne dauðsér eftir Ozempic – „Þetta sýnir bara hætturnar við þessi lyf sem lofa árangri strax“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“

Simmi Vill segir að þetta sé stærsta kjarabótin fyrir íslenskar fjölskyldur – „Nú verð ég kallaður karlrembupungur“