fbpx
Miðvikudagur 08.janúar 2025

Íslendingar sem voru frægir í fimmtán mínútur: Gripu augnablikið og hurfu

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Listamaðurinn Andy Warhol spáði því á sjöunda áratugnum að allir í framtíðinni yrðu frægir í fimmtán mínútur. Þaðan á orðatiltækið Fimmtán mínútna frægð uppruna sinn, en eins og dæmin hér sýna er mismikil frægð sem fylgt getur hverjum og einum – ekki síst á tímum samfélagsmiðla og „meme-blætis“. Sum afrek má líta á með stoltum augun, á meðan annað kennir okkur betur á listina að hlæja með frekar en að viðkomandi. Hér er brot af því besta.

 

„Mérbalalíðurágætlegavelbala“

Stundum er þunn lína á milli mismælis og stressviðbragða, en á rétta augnablikinu og sérstaklega á meðan upptökuvélar rúlla getur gull orðið til. Vilhjálmur Örn Hallgrímsson, þekktur sem Villi Hall, er án efa eftirminnilegasti þátttakandinn úr Bandinu hans Bubba. Ástæðuna má rekja til óborganlegs svars í beinu framhaldi af því að eigna sér sviðið í þættinum, þegar kom að því að svara hinni einföldu spurningu: „Jæja Villi, hvernig líður þér?“

Honum leið þá bara ágætlega vel bara, en svarið hans Villa hefur tileinkað sér sterkan sess í íslenskum „meme-kúltúr“. Enn þann dag í dag bíðum við spennt eftir sambærilegu atviki, frá honum eða öðrum.

 

Sigraði heiminn og fór aftur í leikskólann

Hólmfríður kom, sá og sigraði í keppninni Ungfrú heimur árið 1985 en 78 stúlkur tóku þátt í keppninni. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenskur keppandi hlaut þennan titil (sem sannaði endanlega fyrir heiminum að íslenskt kvenfólk er með því fallegasta í heiminum og víðar) en alls ekki hið síðasta. Arftakar hennar að titlinum urðu seinna meir Linda Pétursdóttir, þremur árum síðar, og síðan Unnur Birna Vilhjálmsdóttir árið 2005. Annað en með titilssystur hennar ákvað Hófí þó ekki að viðhalda fyrirsætuferlinum, þrátt fyrir að tilboðum rigndi inn í kjölfar sigursins. Hófí kunni vel við sig sem leikskólakennari og lætur gott af sér leiða í því fagi.

 

App búið
Fyrirtækið Plain Vanilla tjaldaði miklu til með gífurlegri þátttöku sem fylgdi spurningarappinu QuizUp, þar sem landinn og fleiri kepptust um að skora hver á annan árið 2013. Í kjölfar velgengninnar voru komin stór plön á teikniborðið, fullstór í raun, og þar á meðal áætlanir um bandarískan sjónvarpsþátt byggðum á appinu. Plönin fóru suður og var fljótlega sagan öll hjá fyrirtækinu, en eflaust eru enn einhverjir Íslendingar í dag sem hreyknir eru af tölunum sem þeir náðu á sérsviðum sínum í spurningarappinu. Góðar minningar.

 

Ryan Gosling eða Júlíus?

Þegar Ryan Gosling mætti til Íslands árið 2013 voru aðdáendur hans trylltir yfir tilhugsuninni. Ýmsir hófu ítarlega leit, með von um að koma auga á hann eða eiginkonu hans, Evu Mendes, og lá við að Íslendingar væru farnir að keppast um athygli stórleikarans. Einn Íslendingur taldi sér trú um að hafa óvart keyrt á bifreið þar sem leikarinn sat við stýrið á mörkum Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar. Viðkomandi sem átti að hafa klesst á bíl Gosling birti stöðufærslu á Facebook og var sagður orðlaus við það eitt að sjá leikarann í eigin persónu. Frásögnin var ekki lengi að rata í íslenska fjölmiðla, en síðar kom í ljós að maður að nafni Júlíus Pétur hafði verið tekinn í misgripum fyrir leikarann þegar hann lenti sjálfur í aftanákeyrslu. Meira kom ekki úr sögunni, en Júlíus var heitasta umræðan þann dag fyrir að líkjast einum heitasta leikara sem fyrirfinnst.

 

Tell Me Telma

Íslenski dúettinn Einar Ágúst & Telma hóf göngu sína árið 2000 og keppti fyrir hönd Íslands með laginu Tell Me! Tvíeykið lenti í 12. sæti af 24 með 45 stig að talsins. Einar Ágúst er alkunnugur ýmsum og hafði á þeim tíma verið áberandi með hljómsveitinni Skítamóral. Telma Ágústsdóttir hefur hins vegar sagt skilið við sviðsljósið í kjölfar lagsins og keppninnar og hvarf söngkonan sama og sporlaust eftir aldamótin. Seinna meir vann hún með Rokkkór Íslands en vekur þetta þá að sjálfsögðu upp spurninguna um hvenær stendur til að eiga „kombakkið“. Þangað til að sá dagur rennur mun hún alltaf eiga sínar fimmtán mínútur með lagi sem heyrðist títt á sínum tíma en lítið sem ekkert síðan þá. Sjálfsagt eru einhverjir Eurovision-sérfræðingar ánægðir með það.

 

Réttur maður á röngum Laugavegi

Bandaríkjamaðurinn Noel Santillan átti örlagaríka ferð til Íslands árið 2016 sem kom honum í heimspressuna. Hann ákvað að skella sér á klakann og hafði bókað herbergi á Hótel Fróni á Laugavegi 22A. Eitthvað þótti honum það sérstakt þá þegar hann keyrði í fimm klukkustundir, langt út fyrir bæjarmörkin. Að lokum bankaði hann upp á hjá Sigurlínu nokkurri Karlsdóttur, en hún býr á Laugarvegi (með R-i) á Siglufirði og spurði hvar Hótel Frón væri. Hún taldi þetta fyrst vera eitthvert grín en Noel lét engu að síður vel um sig fara á Hótel Siglufirði. Í viðtali við BBC sagðist hann hafa slegið inn rangt heimilisfang í GPS-tækið, en tók hann bara vel í aukarúntinn um landsbyggðina. Noel átti hins vegar eftir að lenda í fleiri ævintýrum og villtist aftur áður en ferðalaginu lauk. Þá var hann á leiðinni í Bláa lónið og studdist við sama GPS-tæki og leitt hafði hann á rangan stað. Þetta reyndist vera ákveðin fýluferð en þegar hann kom á staðinn var Bláa lónið hvergi sýnilegt, aðeins skrifstofuhúsnæði og fundarsalur. Kemur fyrir besta fólk.

 

Allsnakinn og allslaus í beinni

Hvernig er tilfinningin að búa í glerkassa, án alls nema þess sem utanaðkomandi gefa þér? Myndlistarneminn Almar Atlason svaraði þeirri spurningu í desembermánuði árið 2015, í lokaverkefni sínu í námskeiðinu Leiðir og úrvinnsla fyrir Listaháskóla Íslands, þar sem hann dvaldi allsnakinn í kassa í heila viku – í beinni útsendingu. Viðbrögð almennings við gjörningnum voru vægast sagt blendin. Var listrænt gildi í þessu eða fann maðurinn sér einfaldlega ekkert betra að gera í heila viku? Hins vegar verður að dást að hugrekki mannsins fyrir að leika sér á Adamsklæðum á opnum vettvangi í þágu síns áhugasviðs. Það sem leið eins og heil vika fyrir hann voru í rauninni fimmtán mínútur hjá almenningi, eða svo gott sem.

Ekki má heldur gleyma því þegar hann lá endilangur, horn í horn í kassanum, og byrjaði að stunda sjálfsfróun fyrir framan hundruð áhorfenda sem fylgdust með streyminu á YouTube. Hvort myndlistarneminn hafi á endanum stigið út úr kassanum gjörbreyttur maður eða ekki er eitthvað sem aðeins hann getur svarað fyrir um. Jafnvel hvort það búi meira í honum sem getur sett samfélagið á aðra hliðina, en almenningur hefur lengi beðið spenntur eftir framhaldi á þessum bersýnilega gjörningi.

 

Skiptir stærðin máli?

Offita hefur lengi verið feimnismál en í þeim málum lagði Guðjón Sigmundsson, þekktur sem Gaui litli, heilu þjóðina að fótum sér. Þetta var fyrir rúmum tuttugu árum, þegar hann kom vikulega fram í magasínþættinum Dagsljós og var viktaður hverju sinni. Ýmsir muna kannski eftir því þegar hann birtist þjóðinni á hvítum nærbuxum, stálhress að sjá og 170 að þyngd. Breyting Gauja var gríðarleg í gegnum tímann og heillaðist landinn að jákvæðni hans, opnu framgöngu og drífanda í átt að heilbrigðari lífsstíl. Sviðsljós Gaua varði í lengri tíma en hinar hefðbundnu, ímynduðu fimmtán mínútur gefa trúlega til kynna, en maðurinn mætti stór, smækkaði og að lokum fór, en með pomp og prakt mætti segja.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Óvæntar fréttir berast af 23 ára gömlum strák – Neyðist til að taka sorglega ákvörðun

Óvæntar fréttir berast af 23 ára gömlum strák – Neyðist til að taka sorglega ákvörðun
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Trump úti­lokar ekki að beita hervaldi og efnahagsþvingunum til að ná Grænlandi undir yfirráð Bandaríkjanna

Trump úti­lokar ekki að beita hervaldi og efnahagsþvingunum til að ná Grænlandi undir yfirráð Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

„Af hverju fá andlitslausir embættismenn að fara sínu fram með þessum hætti?“

„Af hverju fá andlitslausir embættismenn að fara sínu fram með þessum hætti?“
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Greiða hátt í tvo milljarða fyrir 19 ára leikmann

Greiða hátt í tvo milljarða fyrir 19 ára leikmann