fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025

Undarlegir atburðir í draugahúsinu við Ásvallagötuna

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 20. maí 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Við Ásvallagötu 8 í miðbæ Reykjavíkur stendur hvítt, tæplega þrjú hundruð fermetra einbýlishús. Húsið var reist árið 1926. Það lifir í hjörtum margra kvikmyndaáhugamanna og vakti mikinn óhug hjá stórum hluta landsmanna á níunda áratugnum, en segja má að það hafi verið skærasta stjarnan í kvikmyndinni Húsið – Trúnaðarmál sem leikstýrt var af Agli Eðvarðssyni.

Kvikmyndin var gefin út árið 1983 og er fyrst íslenskra hrollvekja í flokki svonefndra „geiramynda“. Hrollur myndarinnar byggist á dulmögnuðu andrúmslofti, flöktandi skuggum og undarlegum draumum. Sagan segir frá Pétri og Björgu, ungu pari sem flytur inn í gamalt hús í Reykjavík. Fljótlega fara undarlegir hlutir að gerast.

„Við vildum gera borgarmynd,“ segir Egill í samtali við DV. „Á þessum tíma var ekki búið að gera margar íslenskar kvikmyndir en allar áttu það sameiginlegt að vera teknar upp utandyra og sáust yfirleitt hestar í þeim öllum. Við vildum sýna að það þyrfti ekki að fara út á „location“ til þess að gera kvikmynd hér á landi. Við settum okkur þá reglu að það væri bannað að vera með landslög eða hesta á tökustað.“

Þau Lilja Þórisdóttir og Jóhann Sigurðsson fóru með aðalhlutverkin en þau voru bæði nýgræðingar í leiklist þegar tökur fóru fram. Jóhann og Lilja leika Pétur og Björgu. Hann er tónlistarmaður og hún kennari í skóla fyrir heyrnarlausa. Skömmu eftir að parið flytur inn verður Björg vör við drungalegar raddir í fyrstu og síðan stigmagnast óhugnaðurinn.

„Öll myndin var í rauninni áskorun fyrir alla aðstandendur myndarinnar. Við vildum kanna hvort við gætum gefið út frambærilega mynd þar sem myndavélin væri sögumaðurinn,“ segir Egill og bætir við að einn af sínum uppáhaldsþáttum við gerð myndarinnar hafi verið kvikmyndatakan og er hann stoltur af henni enn í dag.

Fyrst sinnar tegundar

Egill skrifaði handritið með Birni Björnssyni og Snorra Þórissyni, en hver þeirra gegndi fleiru en einu hlutverki í framleiðslunni. Björn var hönnuður leikmyndar og sá Snorri um stjórn kvikmyndatöku ásamt klippingu með Agli. Stór hluti myndarinnar var tekinn í Reykjavík. Auk þess fóru tökur fram í Keflavík, á Húsavík og í Vínarborg. Mikil vinna var lögð í undirbúning myndarinnar, þar sem meðal annars var byggð gríðarstór leikmynd en sá hluti var allur tekinn í stúdíói. Egill tekur fram að Húsið hafi verið fyrsta íslenska kvikmyndin sem tekin var upp í stúdíói.

Segja má að Húsið sé fyrsta mynd sinnar tegundar á ýmsum sviðum, eins og með því að vera fyrsta og eina kvikmyndin frá Íslandi þar sem persónur tala með íslensku táknmáli. Enn fremur er þetta fyrsta íslenska kvikmyndin sem notaðist við áhættuleikara í tökum og sú fyrsta til þess að vera hljóðunnin í Dolby-Stereo.

Háar væntingar og týndu eintökin

Hrollvekja Egils og félaga kostaði fjórar milljónir króna á sínum tíma og þurfti um 60 þúsund áhorfendur til að framleiðslan myndi standa undir kostnaði. Það þýddi að fjórði hver Íslendingur myndi kaupa sér miða á myndina.

Aðstandendur urðu rólegir við fyrstu sýningarhelgi Hússins en þá voru strax yfir tíu þúsund manns sem sáu hana og var reglulega fullt út að dyrum í þeim kvikmyndahúsum sem sýndu hana. Myndin sló í gegn og þegar talið var upp úr kössunum kom í ljós að 80 þúsund höfðu keypt sér miða.

Egill bendir á að sjaldgæft sé í dag að hryllingsmyndir nái slíkum vinsældum. „Það var yfirleitt fullt hús um helgar og oft þúsund miðar seldir fram í tímann,“ segir hann og minnist þeirra tíma þegar hann kíkti í kvikmyndahús borgarinnar um helgar til þess að sjá hvernig salurinn upplifði myndina. „Í flestum tilfellum hló fólk á réttum stöðum, því var brugðið, öskraði og svo kom kannski dauðaþögn.“

Hafa sögur gengið að börn á níunda áratugnum hafi sérstaklega fundið fyrir öflugum áhrifum af húsinu draugalega og átt erfitt með svefn. Þess má geta að í dag er Húsið – Trúnaðarmál hvergi fáanleg í stafrænum eintökum, sem sumir kvikmyndaspekúlantar segja að sé draugagangi líkast að myndin hafi nánast gufað upp. Leikstjórinn tekur undir það.

Tæknibilanir og draugagangur

„Við létum reyndar gera þessa mynd upp og hún var endurunnin í stafrænu formi,“ tekur Egill fram spurður um hvort hafi einhvern tímann komið upp að gefa myndina út á ný, en því getur Egill ekki svarað. „Það er reyndar gaman að segja frá því að við fengum sýningu fyrir starfsfólk og leikara myndarinnar í Álfabakka. Þá var allt önnur mynd sem við sáum heldur en sú sem við gerðum, okkur til mikillar gleði,“ bætir hann við. „Hún er mikið barn síns tíma, þessi mynd, og það eru nokkrir hlutir tengdir henni sem mér þykir mjög vænt um.“

Egill hefur staðfest að efni myndarinnar byggist ekki aðeins á dularfullum atvikum, heldur kom ýmislegt dularfullt upp þegar myndin var í vinnslu. Við samsetningu myndar var einn kafli sem kom ekki fram á sýningu. Sú sena var vitnun í miðilsfund en við rennsli filmunnar stöðvuðust tækin og mynd datt út en hljóðið hélt áfram. Það sama varð upp á teningnum í myndinni þegar einnig var fjallað um trúarleg atriði.

Flúðu eftir nokkra mánuði

„Þarna var mjög laglegt hús sem við gerðum ljótt,“ segir Egill um húsið á Ásvallagötunni. „Eigendurnir leyfðu okkur að mála tvær hliðar upp á nýtt. Það stóð þarna hvítt og fínt en við vildum hafa það grátt og ljótt.“

Jóhann Páll Valdimarsson, sem stýrði Forlaginu og JPV í fjölda ára, er fyrrverandi eigandi hússins. Hann lánaði Agli það í tökur. Jóhann Páll bjó þar ásamt eiginkonu sinni, Guðrúnu Sigfúsdóttur. Í samtali við DV segir Jóhann Páll: „Konan mín hefur alltaf talað um að það væru vondir andar í húsinu en ég reyni að leiða drauga hjá mér,“ segir hann. Jóhann og Guðrún lánuðu hópnum heimilið á meðan þau fóru í frí til Bandaríkjanna.

Þau hjón bjuggu á Ásvallagötunni í tæp fimm ár og segir Jóhann Páll að Egill og félagar hafi hrifist svo mikið af húsinu á sínum tíma að annað kæmi ekki til greina en að nota það fyrir kvikmyndina, en sögusagnir um draugagang hefðu ekki sakað upp á andrúmsloftið að gera.

Nú er Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, búsettur í hinu meinta draugahúsi með fjölskyldu sinni og hefur gert í 14 ár. Bendir það til þess að friður hafi ríkt í húsinu og að draugagangurinn hafi mögulega yfirgefið húsið með stafrænu öldinni.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 8 klukkutímum

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni

Sofia var aðeins 24 klukkustunda gömul þegar henni var rænt af fæðingardeildinni
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Zaha búinn að skrifa undir

Zaha búinn að skrifa undir
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?

Hvað þýða nýjustu tíðindin fyrir Garnacho?
Fréttir
Fyrir 10 klukkutímum

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna

Costco í hart við Olíudreifingu – Krefjast tugmilljóna króna
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Lánaður til nýliðanna

Lánaður til nýliðanna
433Sport
Fyrir 12 klukkutímum

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“

Diljá Mist leggur til að þetta verði bannað hér á landi – „Hvetja börnin sín áfram milli þess sem liðið gúffar í sig sérlega óhollum veitingum“
Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi

Morðið í Breiðholti – Stakk móður sína að minnsta kosti 22 sinnum með hnífi
433Sport
Fyrir 14 klukkutímum

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör

Solskjær spurður út í tvo leikmenn United – Gaf skýr svör