fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Leiddi byltinguna á Austurvelli og galt fyrir það í einkalífinu

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 18. október 2018 21:00

Erfiðir tímar „Árin eftir mótmælin fékk ég alvarlegar hótanir.“

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eftir að bankarnir hrundu haustið 2008 og hrikti í stoðum samfélagsins, steig einn maður fram og skipulagði mótmæli fyrir utan þinghúsið á Austurvelli. Sá maður var Hörður Torfason, söngvaskáld og þekktur baráttumaður fyrir réttindum samkynhneigðra. Í fimm mánuði stýrði hann fundum þar til stjórnin féll og boðað var til kosninga. Hörður hefur nú gefið út minningar sínar frá þessum tíma með það markmið að miðla af reynslu sinni til komandi kynslóða. Hörður ræddi við DV um þessa átakatíma.

 

Við setjumst niður í baksal veitingastaðarins Hornsins við Hafnarstræti. Það liggur vel á Herði enda er bók hans, Bylting: Sagan sem breytti Íslandi, nýkomin úr prenthúsinu. Hann færir mér eintak og segir:

„Nú eru tíu ár frá þessum viðburði á Austurvelli og ég hef unnið að því að skrifa þessa bók allar götur síðan. Það þarf að greina fólki frá þessu, því þetta er saga okkar allra og það má ekki halda henni leyndri. Hún er andsvar við öllum þeim hvítþvotti og tilraunum valdhafa til að endurskrifa söguna.“

Hörður hefur alla tíð haldið dagbækur í tengslum við störf sín í leikhúsinu og víðar. Þetta gerði hann einnig á meðan hann stýrði fundum og mótmælum sem leiddu að lokum til þess að ríkisstjórn Íslands sprakk og boðað var til kosninga vorið 2009.

Hverju ertu að segja frá?

„Hvernig staðið var að fundunum og hvað gerðist. Stjórnmálamenn hafa verið með skens, útúrsnúninga og heimatilbúnar skýringar á því hvað gerðist og af hverju. Það þarf að svara þeim og leiðrétta.“

Bókin er skrifuð í dagbókarstíl og með innslögum frá fjölda fólks sem upplifði hrunið og mótmælin frá mismunandi sjónarhornum. Listamenn, stjórnmálamenn, lögreglumenn, fræðimenn og fleiri. Einnig sjónarhornum erlends fólks á þessa tíma. Þá eru listaðir allir þeir viðburðir sem haldnir voru og þau bréf sem send voru til ráðamanna. Hörður segir bókina í raun vera kennslubók um hvernig eigi að standa að mótmælum með friðsamlegri en jafnframt árangursríkri aðferð.

 

Aldrei í felum
Hörður varð umtalaðasti maður landsins á einu augnabliki árið 1975.

Sýnileiki til að takast á við fordóma

Hörður er aðgerðarlistamaður og pólitískt starf hefur fylgt hans sköpun um áratuga skeið. Bæði í tónlist og leiklist. Rót þessa má finna í hans eigin lífi og baráttu fyrir viðurkenningu sem samkynhneigður maður.

„Átján ára gamall gerði ég mér grein fyrir þessu og fór ekki í felur með þetta. Ég þverneitaði að láta berja mig niður þrátt fyrir þær árásir sem ég varð fyrir. Þegar ég gekk í gegnum leiklistarnám, þá var það mjög algengt að veist væri að mér og ég varð niðurbrotinn ungur maður. En ég hafði ekki skap í mér til að fara í felur. Ef ég mátti ekki vera sá sem ég er, hver átti ég þá að vera? Þegar maður mætir slíku fólki, sem reynir að niðurlægja annað fólk með hnefann á lofti, sér maður hversu mikil heimska og illska þetta er. Það var lengi þjóðarsport að taka fólk niður sem féll ekki inn í normið. Þetta skelfilega ástand var knúið áfram af mikilli vanþekkingu og alkóhólisma.“

Nánustu vinir Harðar vissu að hann væri samkynhneigður þegar hann var að stíga sín fyrstu skref í tónlistinni. Hann var beðinn að ræða þetta ekki opinberlega til að skemma ekki fyrir plötusölunni en hann vildi ekki fara í felur með það. Árið 1975 opnaði hann sig um samkynhneigðina í viðtali og þá varð hann á einu augnabliki umtalaðasti og mest útskúfaði maður landsins.

„Af hverju á maður að lifa í fangelsi heimskunnar? Er ég ekki frjáls manneskja? Eftir að ég sagði frá þessu opinberlega varð allt vitlaust og það sagði sitt um ástandið í mannréttindamálum hér á landi. En réttur eins er réttur allra.“

Þú hefur þurft að vera hugrakkur til að gera þetta?

„Hugrekki byggir á hræðslu, hræðslu sem heldur manni vakandi. Ég menntaði mig í leikhúsi, varð listamaður. Ég var aðeins að sinna starfi mínu sem slíkur, takast á við tilveruna. Notaði sjálfan mig í stað þess að benda annað. Já, á nokkrum árum varð ég mjög var eftirsóttur og með fullt af verkefnum á þessum tíma. Var í kvikmyndum, að halda tónleika, gefa út plötur, í leikhúsi og sat fyrir sem módel. En ég varð að flýja land. Gróflega ofsóttur. Ég fékk ekki atvinnutilboð á Íslandi eftir þetta viðtal fyrr en 1998 og þá vegna þess að ég vakti athygli á þeirri staðreynd. Fordómar erfast og verða alltaf til í samfélaginu. Hluti af því að takast á við þetta opinberlega var að standa fyrir stofnun Samtakanna ’78. Mín aðferð til að takast á við fordóma var að vera sýnilegur, ferðast um landið með sögur mína og söngva.“

Hörður segir að bókin sem hann skrifaði sé í raun kennslubók um hvernig eigi að fást við svona mál.

„Ef maður stendur upp og lætur engan bilbug á sér finna þá hefur maður sigur á endanum. Það tekur marga smá ósigra til að vinna þá stærstu. Þetta er oft mjög lýjandi en þá er að taka sér frí og hvíla sig til að geta komið til starfa á nýjan leik. Þetta er „Mín“ aðferð sem virkar en hún er mjög krefjandi,“ segir Hörður. „Sem ungur maður gerði ég mistök á mistök ofan því að ég var í myrkri að þreifa mig áfram. En smám saman tókst mér að vinna upp ákveðinn kjarna og ákveðna reynslu í hvernig hægt er að takast á við slæma valdhafa. Við eigum öll þetta kerfi, það er ekki einkaeign lítils og gráðugs hagsmunahóps valdhafanna, og við eigum ekki að láta valta yfir okkur endalaust. Þetta sýndum við hópurinn á Austurvelli og víðar um landið. Við sögðum „Hingað og ekki lengra. Hér erum við, við höfum kröfur“ og það heppnaðist.“

 

Leikstjóri og sálusorgari

Hörður segir að þrotlaus barátta hans á árum áður hafi skilað sér í þessari baráttu því að fólk hafi vitað hver hann var og fyrir hvað hann stóð. Fyrsti fundurinn sem Hörður stóð fyrir var laugardaginn 11. október og voru þeir síðan haldnir daglega fyrstu vikuna en síðan á hverjum laugardegi eftir það.

Hvernig var mætingin í byrjun?

„Hún var róleg. Fólk var í áfalli og að reyna að átta sig á hlutunum. Eins og í öðrum áföllum voru viðbrögð fólks að reyna að vera sterkt og bjarga sér í gegnum þetta. Þegar fólk lendir til dæmis í bílslysi þá eru fyrstu viðbrögðin að reyna að koma sér út úr flakinu og standa í lappirnar. Það er ekki fyrr en seinna sem fólk áttar sig á hvað gerðist og þá vakna alls konar tilfinningar.“

Hörður kom ekki blautur á bak við eyrun til að skipuleggja fundina. Hann hafði tekið þátt í mörgum mótmælum, til dæmis vegna Kárahnjúkavirkjunar, og fylgst vel með hvernig þau fóru fram.

„Ég velti þessu talsvert fyrir mér. Af hverju lukkast sum mótmæli ekki? Verða aðeins hávaði, eru lamin niður og gleymast. Einnig notaði ég reynslu mína sem leikstjóri.“

Leistu á mótmælin sem leikstjórnarverkefni?

„Já, eðlilega, slíkt viðfangsefni er í sjálfu sér ekkert annað í framkvæmd. Það þarf að stjórna þeim og stjórna þeim vel, það er ekkert annað. Í leikhúsinu stýrir maður fjölda fólks með alls konar hlutverk. Ég hafði reynsluna til að leysa þetta verkefni.“

Hörður segir að hann hafi verið vakinn og sofinn yfir skipulagningu mótmælanna sem var samfelldur stígandi í. Hörður ávarpaði mótmælendur á flestum fundunum en auk þess tóku einstaklingar, þekktir og óþekktir, til máls. Má þar nefna Einar Má Guðmundsson rithöfund, Pétur Tyrfingsson sálfræðing, Gerði Kristnýju rithöfund og Dagnýju Dimmblá, átta ára skólastúlku sem hélt ávarp á fyrsta fundi ársins 2009.

Kom fólk til þín og sagði þér sögu sína?

„Já,“ segir Hörður alvörugefinn. „Stanslaust, stanslaust. Þetta var fólk sem hafði misst vinnuna, skuldaði mikið og hafði alls konar hörmungarsögur að segja. Ég hafði ekki undan að hlusta á og tala við fólk. Það sendi líka fjölda bréfa til mín.“

Varstu eins konar sálusorgari?

„Að sjálfsögðu. Þú leggur ekki á örvæntingarfulla manneskju sem hringir í þig og vill tala, eða ég geri það að minnsta kosti ekki. Ég hlustaði, því ég hef verið í þessari stöðu. Ég talaði við fólk sem var á barmi þess að drepa sig.“

 

Byltingarleiðtoginn
Greip inn í mótmælin þegar þau voru við það að fara úr böndunum.

Greip inn í þegar upp úr sauð

Eftir að mótmælin á Austurvelli höfðu skilað því að ríkisstjórn Geirs H. Haarde féll og boðað var til kosninga tók við annar kafli í lífi Harðar. Hann ferðaðist um heiminn og talaði um aðgerðirnar á samkomum þar sem hans var óskað. Yfirleitt voru það borgarasamtök sem buðu honum. Í fimm ár starfaði hann við þetta en ákvað svo að draga úr ræðuhöldunum. Hann segist þó ekki vera alveg hættur.

„Það er einstakt að svona verkefni heppnist með þessum árangri og það er mikill áhugi erlendis fyrir að rannsaka mótmælin.“

Hvað vildir þú að kæmi út úr mótmælunum?

„Það sem gerðist. Að ríkisstjórnin, stjórnir Seðlabankans og fjármálaeftirlitsins segðu af sér og boðað yrði til nýrra kosninga. Undir niðri var krafan um nýja stjórnarskrá en eðli málsins samkvæmt var ekki hægt að setja það sem lokapunkt. Hún hefur verið verkefni Íslendinga síðan 1904 og ekki enn orðið raunin. Þegar síðasta opinbera krafan, að Davíð viki úr Seðlabankanum, var að verða að veruleika átti ég fund með Jóhönnu Sigurðardóttur um að tryggja að það yrði unnið að nýrri stjórnarskrá. Jóhanna gerði það eins og ég segi frá í bókinni. Þjóðin tók sig svo saman og samdi nýja stjórnarskrá en þá var það stoppað með valdaráni. Þá ætluðu stjórnmálamennirnir að fara að vilja skrifa hana. Sorrí, þetta virkar ekki þannig. Fólkið í landinu á að skrifa hana og þeir að fara eftir henni.“

Hverjir fannst þér bera mesta ábyrgð á hruninu?

„Ég vinn ekki þannig heldur kalla ég kerfið sjálft til ábyrgðar. Stjórnmála- og fjármálamenn. Ég var ekki að beina spjótum mínum að ákveðnum einstaklingum og er ekki fylgjandi þeirri stefnu að taka fólk af lífi fyrir það að hafa gert mistök. Við erum samfélag og hverjum og einum á að vera kleift að hafa sitt að segja um hvernig því er stýrt. Upp úr 1990 hófst hér á landi atburðarás sem endaði í þessum tryllingslega dansi og við fórum fram af brúninni.“

Þú ert að meina þegar Davíð Oddsson varð forsætisráðherra?

„Já, já. Á þeim tímapunkti kom ný stefna inn í stjórnmálin, það er alveg á hreinu. Ruðningsáhrif hans höfðu áhrif á íslenskan samtíma. Við þurfum að takast á við þetta sem þjóð því annars verður aldrei sátt.“

Fannst þér þingheimur hlusta á ykkur í mótmælunum?

„Nei,“ segir Hörður ákveðinn. „Geir Haarde kallaði okkur skríl. Ég man sérstaklega eftir því þegar upp úr sauð í lok janúar.“ Það var vikan þar sem lögreglan beitti táragasi og kylfum gegn mótmælendum. „Sjónvarpið var yfirfullt af fréttum um grátandi eiginkonur lögreglumanna. Það var reynt að mála ákaflega ljóta mynd af mótmælendum en það var ekki komið til okkar og spurt af hverju við værum þarna. Ég talaði við Geir og varaði hann við þessu en hann áttaði sig of seint. Valdhafarnir á Alþingi voru inni í einhvers konar sápukúlu og vildu ekki hlusta.“

Fór ástandið úr böndunum?

„Það jaðraði við það í janúar en fór aldrei alveg úr böndunum því að við mótmælendur gripum inn í. Stjórnmálamennirnir bentu á okkur og sögðu okkur ábyrg en þeir geta ekki neitað fyrir sína ábyrgð. Ástandið hafði skapast vegna gjörða þeirra. Þeir voru bara ekki vanir að fá svona kröftug viðbrögð. Þeir vissu að þetta gæti farið svona og þeir leyfðu þessu að gerast af því að þeir hlustuðu ekki á okkur,“ segir Hörður með áherslu.

Innan um mótmælendur var fólk sem ekki tilheyrði hópnum, fólk sem átti jafn vel eitthvað sökótt við lögregluna. Framganga þeirra var nokkuð til tals meðan á hamaganginum stóð.

„Það eru líka manneskjur,“ segir Hörður. „Allir tilheyrðu hópnum en voru með mismunandi áherslur og aðferðir. Ég talaði sérstaklega við ungt fólk sem setti upp grímur. Ég sagði að innan þeirra raða myndi koma upp hópur sem gerði ekkert annað en að eyðileggja fyrir þeim. Með því að fela andlitin væru þau að veikja málstaðinn. Erlendis, til dæmis í Grikklandi á þessum tíma, var það vel þekkt að lögreglumenn og hagsmunaaðilar settu upp sams konar grímur og fremdu skemmdarverk til að sverta mótmælin.“

Hvernig fannst þér lögreglan taka á mótmælunum?

„Lögreglan gat eiginlega ekki tekið öðruvísi á þessu en hún gerði því hún var svo fáliðuð. Ég átti fund með Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra og sá að þeir tóku stefnu um að vera ekki að berja mótmælin niður með ofbeldi. Sem var hárrétt því að mótmælin voru yfirlýst friðsamleg.“

Þeir þurftu nú stundum að bregða sér í óeirðagallana?

„Já, já,“ segir Hörður og brosir. „Það verða alltaf einhverjir sprelligosar inni á milli og hópurinn var stór og ólíkur. Það voru alltaf einhverjir sem áttu kannski auka egg til að kasta eða fernu af mjólk. Mannlífið er fjölbreytt og það vissum við, bæði ég og lögreglan. Það alvarlegasta sem gerðist, held ég, var að einn maður handleggsbrotnaði. Það var auðvitað slæmt en heilt yfir þá gekk þetta ótrúlega vel. Bæði ég og lögreglan náðum að halda góðri stjórn á þessu.“

 

Tónlistarmaður
Miðasalan hrundi eftir mótmælin.

Veist að heimili og persónu

Að vera foringi í svona stórum og heitum aðgerðum hafði vissulega áhrif á persónulegt líf og feril Harðar. Eftir að hafa misst alla útvarpsspilun, plötusölu og fleira eftir viðtalið fræga árið 1975 náði hann að vinna sig upp sem söngvaskáld og árið 2008 var hann vinsæll listamaður. Hann hélt vel sótta tónleika á hverju hausti og hafði gert um árabil. Árið 2008 seldust 1.100 miðar á hausttónleikana en ári seinna seldust innan við 200 miðar.

„Það kom bakslag og tónlistarferillinn tók slíka dýfu að ég hætti alfarið að koma fram. Árin eftir mótmælin fékk ég alvarlegar hótanir. Þetta fylgir því að ganga í broddi fylkingar fyrir öðruvísi hugsun. En ég undirstrika að ég starfa sem venjulegur borgari með stjórnarskrárvarinn rétt til þátttöku. Stundum hef ég þurft að flytja mig um set út af þessu.“

Var veist að heimili þínu?

„Já, húsið mitt og bíllinn minn hafa oft orðið fyrir árásum, aumingja bíllinn minn,“ segir Hörður og hlær. „Það var mjög oft hleypt úr dekkjunum, brotist inn í hann og hann laminn með hamri. Einnig veist gróflega að mér. Í eitt skiptið árið 2013 eða 2014 var ég að fljúga til Íslands frá Suður-Ameríku, langt og strangt ferðalag. Ég setti sem skilyrði að ég flygi á fyrsta farrými en þegar ég millilenti í London kom að mér þekktur hægriöfgamaður, öskrandi og froðufellandi. Hann steytti hnefann að mér og sagði mér að snáfa aftur í vélina þar sem ég ætti heima. En ég stóð, brosti og æsti mig ekki upp. Rólegheit og yfirveguð viðbrögð eru það versta sem slíkir menn vita. Síðan settist ég niður og allir horfðu á og allt fraus. Hann fór í burtu en kom svo aftur ansi fýldur og settist í sætið hinum megin við ganginn. Þá lagði hann yfir sig teppið og sneri baki í mig alla leiðina til Íslands og ég hugsaði að hann ætti eftir að finna til í bakinu eftir þriggja tíma ferð,“ segir Hörður kíminn.

Hörður man eftir öðru atviki þar sem fyrrverandi forseti Alþingis veittist að honum á myndlistarsýningu, í viðurvist fjölda fólks.

„Hann hrópaði að mér að ég hefði verið á Austurvelli í þeim eina tilgangi að græða peninga. Að ég hefði selt plötur út á þetta og notað mótmælin til að auglýsa tónleikana mína. Mér var sagt að hann hefði verið drukkinn en það afsakar ekki neitt.“

 

Ekki nóg að taka á gerendunum

Ísland hefur tekið miklum breytingum frá þessum ólgutímum fyrir sléttum áratug. Ríkisstjórnir hafa komið og farið, hrunmál hafa verið gerð upp fyrir dómstólum en stærsta breytingin er hinn ótrúlegi uppgangur í ferðamannaiðnaðinum. Talað er um góðæri en þó heyrast þær raddir sem segja að nýtt hrun gæti verið handan við hornið.

Hafa Íslendingar lært af hruninu?

„Ég fæ þessa spurningu oft þegar ég ferðast um heiminn. Það held ég að hljóti að vera og við eigum eftir að draga enn þá meiri lærdóm af því. Þetta tekur allt sinn tíma að byggjast upp. Árið 1975 kom ég út úr skápnum þrítugur en ég hafði verið tíu ár að byggja mig upp í það. Ég stóð einn í þessum slag í byrjun og var útskúfaður í áratugi en mér tókst að virkja fleiri í baráttuna og síðan lærði samfélagið. Árið 2006 voru undirrituð lög um bann við mismunun á grundvelli kynhneigðar, kynþáttar og fleiri hluta. Það var árangur fjölda fólks. Það tók 32 ár að ná þessum réttindum fram. Nú eru komin tíu ár frá hruni og það sama mun gerast. Öll uppgjör taka tíma og eru erfið, og þau eiga að vera það. Ef þetta er létt og löðurmannlegt verk þá gleymum við því strax. Við erum á góðri leið, segi ég, því fólk er aðhaldssamara, meðvitaðra og hætt að monta sig af veraldlegum gæðum. En stjórnmálastéttin þráast við og því heldur baráttan áfram. Venjulegt fólk vill ekki samfélag leyndarhyggju, fláræðis, þjófnaðar og þöggunar.“

Nú hafa 39 bankamenn hlotið dóma og Geir Haarde dóm í landsdómi. Hvernig finnst þér hafa verið tekið á gerendum?

„Það er ekki nóg að taka á gerendunum heldur verður að taka á hugsunarhættinum. Við sjáum þetta núna með stjórnmálamenn og forstjóra. Hvernig þeir leyfa sér að hækka launin sín og gjáin milli þeirra og þjóðarinnar vex. Þetta er sjúklegt. Svo skilja þeir ekki að það sé ólga á vinnumarkaði. Þetta er einmitt hluti af uppgjörinu.“

Aðspurður um hrunið segir Hörður að það sé nú þegar búið, en hann eigi á þó ekki von á öðrum hamförum, líkt og áttu sér stað haustið 2008, í bráð. Varhugavert sé þó að setja öll eggin í eina körfu líkt og gert sé með ferðamannaiðnaðinn í dag.

Ef það verður annað hrun, verður þú aftur fyrsti maðurinn til að stíga fram á Austurvelli?

„Ég er ekki spámaður og pæli lítið í því. Með þessari bók er ég að gefa keflið áfram til yngri kynslóða og vonast til þess að það fólk læri af þessari reynslu minni. Þessi reynsla er dýrmæt, hún er ævistarf eins manns sem þurfti að ganga í gegnum gríðarlegan mótbyr en hafði sigur. Þetta fjallar um að vera manneskja í samfélagi. Þetta fjallar um okkur öll. Þetta er sagan okkar allra.“

 

Stofnandinn
Segir að Samtökunum 78 hafi verið rænt.

Samtökunum ’78 var rænt

Víkur nú samtalinu frá hruninu og mótmælunum og að stöðu samkynhneigðra á Íslandi í dag. Hörður var aðalstofnandi og driffjöður Samtakanna ’78 og virkur í starfi þeirra til ársins 1993. Á þeim tíma voru samkynhneigðir að byrja að koma út úr skápnum en mættu þó enn miklum fordómum. Síðan þá hefur ástandið breyst mjög mikið og samkynhneigð almennt viðurkenndari nema hjá þröngum hópi. Hörður hefur hins vegar áhyggjur af stöðu samtakanna sem hann stofnaði.

„Það hafa orðið miklar sviptingar og þetta eru ekki þau samtök sem ég stofnaði árið 1978. Við vorum félagsskapur og fjölskylda en seinna varð þarna yfirtaka og upprunalegu gildunum ýtt út. Í dag eru samtökin mér mjög framandi og það þarf að skoða alvarlega hvað er að gerast þarna því að þetta er rekið með opinberu fé.“

Fyrir tveimur árum spruttu upp miklar deilur í samtökunum í tengslum við aðild BDSM félags Íslands. Ekki væri hægt að líkja baráttu BDSM-fólks við baráttu samkynhneigðra. Vildu margir meina að um fjandsamlega yfirtöku væri að ræða og rifu meðlimaskírteini sín.

„Við vorum búin að byggja samtökin upp en síðan var þeim rænt af okkur. En hvert félag er í raun ekki annað en fólkið sem þar situr og það fólk hefur oft valið sér misgóða stjórnendur sem hafa gert mistök. Ég set stórt spurningarmerki við Samtökin ’78 í dag og spyr hvað er þetta félag í dag?“

Varðandi stöðu samkynhneigðra almennt segir Hörður Ísland á góðum stað og að kúvending hafi átt sér stað frá árinu 1975.

Verður hinn venjulegi samkynhneigði maður fyrir fordómum í dag?

„Nei, varla meira en hver annar. Allar manneskjur lenda í því að verða ekki rétt skildar á einhverjum tímapunkti en ég sé ekki að fólk verði fyrir sérstökum fordómum í dag vegna samkynhneigðar. Frekar transfólk og slíkir hópar. Þar er enn verið að víkka út hugtökin og velta steinum í samfélaginu.“

Telur þú að ykkar barátta á síðustu öld hafi rutt veginn fyrir þessa hópa?

„Það gefur auga leið. Við vorum kallaðir alls konar ljótum orðum; kynvillingar, aftaníhossar, bakarar og fleira. Ég byrjaði að kalla mig homma sem var þá talið ljótt orð, síðan varð orðið samkynhneigður til. Tungumálið bergmálar allt ástandið. Í staðinn fyrir örfá ljót orð eru komin ótal vel meinandi og rétt lýsandi orð og margir flokkar yfir afbrigði tilfinningalífsins. Þetta sýnir glöggt þá miklu breytingu sem hefur átt sér stað.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“