fbpx
Sunnudagur 19.janúar 2025
Fókus

Sparaði 200.000 krónur fyrir hádegi

Hefur þú hugmynd um í hvað peningarnir þínir fara?

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 18. mars 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Meðan Norðmenn taka strætó í vinnuna og fá sér heimabakað brauð í hádeginu eru yfirdráttarlán hversdagsleg fyrirbæri hjá Íslendingum og flest notum við kreditkortin óspart fyrir daglega neyslu.

Ólíkt nágrönnum okkar á hinum Norðurlöndunum, þar sem sparnaður þykir hin mesta dyggð, höldum við fæst heimilisbókhald og sumir forðast jafnvel að skoða stöðuna í heimabankanum og uppskera fyrir vikið þunglyndi og kvíða.

Blaðamaður heyrði í Finni Pálma Magnússyni, vöruhönnuði hjá Meniga, en undanfarin ár hefur hann rannsakað fjármálahegðun landans og notast við ýmis tól og tæki til þeirrar greiningar. Meðal annars hefur hann stuðst við bandaríska rannsókn sem greinir fjármálahegðun einstaklinga út frá persónuleikum þess samkvæmt „Big 5 personality traits“ sálfræðigreiningunni sem margir kannast við. Sú gengur út á að flokka fólk út frá fimm grunneiginleikum og einn þeirra er þá ríkjandi í persónuleika hvers og eins.

Persónugerðirnar eru:

  1. Neikvæð/taugaveikluð (negative emotionality/neuroticism)
  2. Úthverf (extraversion)
  3. Opinn (openness to experience)
  4. Samvinnuþýð (agreeableness)
  5. Samviskusöm (conscientiousness)

Finnur Pálmi segir að niðurstöðurnar hafi meðal annars leitt í ljós að þau samviskusömu virðast huga betur að eigin fjármálum en til dæmis opna og úthverfa fólkið.

„Þetta eru týpurnar sem njóta þess að setja hlutina upp í Excel og skoða línurit. Þetta eru bara ákveðnar manngerðir sem eru oft metnaðarfullar og langar til að skora hátt í lífinu. Það þarf þannig ekki að koma á óvart að þau séu með peningamálin sín í lagi öfugt við „taugaveiklaða“ fólkið sem ýmist skoðar stöðuna óreglulega, eða hreinlega ekki neitt,“ útskýrir Finnur sem auglýsti einmitt sérstaklega eftir einstaklingum sem höfðu aldrei stuðst við heimilisbókhald þegar unnið var að gerð nýjustu útgáfunnar af Meniga-smáforritinu.

Óvissa í peningamálum leiðir af sér kvíða og þunglyndi

„Við kölluðum eftir fólki sem hefur aldrei átt sparnaðarreikning og á erfitt með að ná endum saman. Í stuttu máli leituðum við að fólki sem hatar bókhalds- og peningamál og myndi þannig vera síðasti hópurinn sem notar smáforritið. Viðbrögðin voru góð og niðurstöðurnar leiddu merkilega hluti í ljós. Við ræddum til dæmis við konu sem fékk krakkana sína ekki lengur til að fara með sér út í Bónus því þau skömmuðust sín svo þegar hún fékk synjun á kassanum. Vandinn var ekki sá að hún ætti ekki fyrir vörunum heldur hafði hún enga yfirsýn yfir fjármálin. Hún fylltist kvíða við tilhugsunina um að líta inn á heimabankann sinn og gerði það ekki fyrr en við kassann í Bónus þegar allt var komið í strand. Þá tók hún upp símann og millifærði til að geta greitt fyrir vörurnar,“ segir Finnur og nefnir í leiðinni að óstjórn í eigin fjármálum geti aukið verulega á kvíða og þunglyndi en ófáir Íslendinga notast við lyf gegn hvorutveggja.

„Þegar ég heyrði sögu þessarar konu þá langaði mig til að leggja sértaka áherslu á að gera eitthvað til að hjálpa þessu fólki. Í raun væri það betra markmið en að hjálpa þeim sem eru með allt á tæru hvort sem er.“

Peningarnir fara bara eitthvert

Nýja útgáfan af Meniga-smáforritinu þykir mjög aðgengileg og notendavæn en hönnunin hlaut Lúðurinn á dögunum. Þau verðlaun eru afhent af íslensku auglýsingafólki fyrir frumlegar, skapandi og snjallar hugmyndir sem eru útfærðar á framúrskarandi hátt.

Í smáforritinu er hægt að fylgjast með eigin tekjum og útgjöldum á mjög myndrænan og skiljanlegan máta og tilgangurinn er einmitt að höfða til þeirra sem haldin eru einhvers konar fjármála-, talna-, Excel-ótta og hjálpa þeim að ná tökum á stöðunni.

Finnur telur að sjálfvirkni í rafrænum bankaviðskiptum hafi gert að verkum að margir fylgjast mikið minna með stöðunni.

„Við fáum bara launin okkar, svo fara peningarnir bara eitthvert án þess að við hugsum út í það. Allt í einu eru peningarnir bara búnir í lok hvers mánaðar og maður er alveg hissa. Samt er hægt að bæta stöðuna til muna, aðeins með því að kanna hvert peningarnir fara og gera viðeigandi breytingar,“ segir hann og vitnar í rannsókn sem gerð var við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn. Þar var gerður samanburður á sparnaði þeirra sem skráðu sig inn á smáforritið og héldu síðan áfram að nota það, – og svo þeim sem skráðu sig en notuðu ekki áfram.

„Þeim reiknaðist til að þau sem notuðu smáforritið reglulega, spöruðu að minnsta kosti 300 krónur við hverja innskráningu. Sparnaðurinn fékkst aðallega með því að sleppa við að borga yfirdráttargjöld, vexti og þessháttar.“

Sparaði 200.000 í áskriftir

Finnur bendir á að mjög margir séu nánast að kasta peningum út um gluggann með því að fylgjast ekki með kortayfirliti hjá sér. Fólk sé til dæmis að greiða alls konar áskriftir af afþreyingarefni á netinu án þess að njóta þess en með því að segja einhverju af þessu upp sé hægt að spara nokkuð háar upphæðir á ári.

„Ég talaði til dæmis við einn sem sparaði sér 200.000 krónur á ári með því að segja upp alls konar svona áskriftum. Þetta gerði hann bara fyrir hádegi. Settist niður fyrir framan tölvuna. Skoðaði í hvað peningarnir voru að fara og sagði svo upp því sem enginn var að nota,“ segir Finnur en sjálfur er hann bara með áskrift að Netflix og Spotify og hjólar yfirleitt í vinnuna.

Notar 30.000 krónur í leigubíla á mánuði

„Þegar ég fór að skoða bensínkostnaðinn hjá mér komst ég að því að ég var að eyða að minnsta kosti 30 þúsund krónum í bensín á mánuði. Ég ákvað því að prófa að nota frekar 30.000 eða minna í leigubíla og spara það sem fer í rekstur og tryggingar á bílnum. Nú nota ég aðallega reiðhjól til að komast á milli staða, strætó og leigubíla. Auðvitað er frekar krefjandi að gera svona lífsstílsbreytingar og fólk þarf að peppa sig svolítið upp í það, en það margborgar sig þegar fram líða stundir,“ segir Finnur og bætir við að samkvæmt rannsóknum Meniga séu flestir Íslendingar til í að breyta venjum sínum þegar safnað er upp í útborgun á nýju húsnæði.

„Flestir sem eru að safna sér peningum á Íslandi eru að því til að eiga fyrir nýrri íbúð. Þá er fólk að leggja kannski helming launanna fyrir, lifir spart og þykir það ekkert til að skammast sín fyrir. Hér á Íslandi hefur hins vegar alltaf verið mikil lífsstílspressa í gangi og fólk ber sig kannski óþarflega mikið saman við lífsstíl náungans en áttar sig kannski ekki á því að mögulega er lítil innistæða fyrir eignum hans.“

Fá sjokk yfir því hversu mikið fer í matarinnkaup

Spurður að því hvað hann ráðleggi venjulegu fólki að gera til að ná tökum á peningamálum sínum og koma sér úr mínus í plús segir hann það í raun frekar einfalt.

„Útgangspunkturinn er auðvitað alltaf að eyða minna en maður aflar. Svo er það algjört grundvallaratriði að vita hver útgjöldin eru í hverjum mánuði, hversu mikið af peningum er væntanlegt um mánaðamót, – og svo er bara að passa að eyða ekki meira en maður aflar. Næstu skref eru síðan að brjóta neysluna niður. Skoða í hvað peningarnir eru fara. Föt, tryggingar, veitingastaðir? Hvað ertu að gera við peningana þína? Veistu það? Fólk fær stundum algjört sjokk þegar það áttar sig á hverju það er að eyða í mat og veitingastaði og mörgum finnst erfitt að horfast í augun við það.“

Peningar meira tabú en kynlíf

Að lokum ræðum við aðeins leyndina sem vanalega er í hávegum höfð þegar kemur að peningamálum landans en að sögn Breka Karlssonar, hjá Stofnun um fjármálalæsi, er líklegra að íslenskir foreldrar séu til í að ræða kynlífsmál við börnin sín frekar en fjármálin. Flestir vinnuveitendur biðja starfsmenn að ræða ekki launatölur sín á milli og persónuleg fjármál eru ekki kennd í grunnskólum.

„Þetta er undarlega mikið feimnismál og sjálfur hef ég stundum stuðað vinahópinn með því að bera saman útgjöld okkar. Vinafólk mitt varð til að mynda ekkert sérstaklega sátt að heyra að ég eyddi þrjátíu prósentum minna í mat á mánuði bara með því að plana matarinnkaupin fyrirfram. Svo heyrði ég af einhverju kaffistofuspjalli þar sem tveir Meniga-notendur voru að bera saman tölur. Einn ók um á Yaris meðan hinn átti tvo ameríska bensíntrukka. Sá fékk áfall þegar hann heyrði hvað eigandi Yaris var að nota í bensín á mánuði, rauk til og seldi annan bílinn og skellti sér svo í góða utanlandsferð.“

 

5 skref í átt að betri fjármálastöðu

 

  1. Tékkaðu á stöðunni tvisar í viku

Hvað ertu með í tekjur og hver eru útgjöldin þín. Skoðaðu þetta tvisvar sinnum í viku. Ef þú gerir það þá er hægt að forðast að safna upp sektum og lenda í vandræðum.

  1. Eyddu minna en þú aflar

Þegar þú veist hvað þú ert með í tekjur og hver útgjöldin eru þá er næsta skref að eyða minna en maður aflar.

  1. Settu restina í sparnað

Ef þér tekst að eyða minna en þú aflar, þá skaltu taka afganginn og leggja inn á sparnaðarreikning.

  1. Búðu til varasjóð

Safnaðu upp í ein eða tvö mánaðarlaun til að bregðast við óvæntum útgjöldum. Ef þú gerir það þá þarftu ekki að taka yfirdrátt þegar ísskápurinn eða bíllinn bilar.

  1. Breyttu um venjur

Skipuleggðu matarinnkaupin betur. Prófaðu að vera án tveggja bíla í einn mánuð og sjáðu hvernig gengur. Finndu leiðir til að skora á sjálfa/n þig og breyta út af vananum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?

Getur verið að úrslitum í handbolta sé viljandi hagrætt?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“

Nökkvi Fjalar er kominn til baka – „Gerum það ómögulega mögulegt saman“