Bústnir bangsar, úlfamenn og otrar gleðjast saman þrettánda árið í röð
Innan menningarheims samkynhneigðra karlmanna leynast margar forvitnilegar undirsenur. Ein þeirra, bangsasenan, dregur nafn sitt af bangsalegu útliti þeirra sem hrundu henni af stað á áttunda áratug síðustu aldar en bangsasenan rúmar í dag fjölbreyttan hóp karlmanna sem leggur áherslu skemmtilega samveru þar sem öllum sé sýnd virðing óháð útliti og að allir fái að vera þeir sjálfir, án aðfinnslu.
Á sjötta áratug síðustu aldar í San Fransisco var þetta gælunafn hins vegar notað yfir alla karlmenn sem voru þaktir líkamshárum umfram það sem gengur og gerist svona almennt.
Hugtakið „bangsi“ varð fyrst algengt meðal bandarískra homma árið 1987 þegar tímaritið Bear Magazine hóf göngu sína en nokkrum árum áður hafði birst grein í hommablaðinu The Advocate sem bar yfirskriftina „Who’s Who in the Zoo“. Í henni tengdi greinarhöfundur ákveðnar týpur af karlmönnum við sjö tegundir dýra, meðal annars birni.
OTUR: Grannvaxinn, mjög loðinn maður.
ÚLFUR: Mjög loðinn meðalmaður.
BANGSI: Feitlaginn eða stór, loðinn maður.
Bangsasenan hefur stækkað mikið á undanförnum áratugum og bangsarnir njóta þess að hittast út af fyrir sig á hvers konar bangsamótum og hátíðum víðsvegar um heiminn. Íslendingar kannast til dæmis margir við Sitges Bear Week á Spáni þar sem um þrjú til fjögur þúsund bangsar og vinir þeirra koma saman ár hvert.
Frá árinu 2005 hefur Frosti nokkur Jónsson haldið bangsahátíð hér á landi með mjög góðum árangri. Hátíðina kallar hann „Bears on Ice“ eða Birnir á klaka.
Í gær var flautað til leiks í þrettándu Bears on Ice hátíðina. Hún hófst á Petersen svítunni og lýkur með dögurði á sunnudag en þess á milli verður djammað föstudag og laugardag og landið skoðað. Til dæmis ætla strákarnir að skella sér í Bláa lónið og skoða Gullfoss og Geysi en hápunkturinn er dansleikurinn sem fer fram í Ægisgarði á Laugardagskvöld þar sem fram koma Páll Óskar, dragdrottningin Gogo Starr og DJ Perfecto.
Frosti segir hátíðina frekar litla á heimsmælikvarða en á sama tíma sé þetta einn af stærri LGBT-viðburðum landsins og eini „men only“ viðburðurinn innan LGBT-senunnar. „Þetta er bara viðburður fyrir karla sem fíla aðra karla og eru allir gay, bi og trans karlmenn velkomnir,“ segir Frosti.
Hann segir hátíðina fyrst og fremst hugsaða sem vettvang fyrir karlmenn hvaðanæva úr heiminum að skemmta sér saman, kynnast hver öðrum og fyrir erlendu gestina að sjá örlítið af Íslandi í leiðinni.
„Sambærilegar hátíðir fara árlega fram bæði í Evrópu og Bandaríkjunum en þessi er frábrugðin að því leyti að dagskráin er í bland skoðunar- og upplifunarferðir á daginn og skemmtileg partí á kvöldin.
Það er hægt að kaupa sig inn á partíin öll kvöld en passi sem gildir fyrir alla viðburði helgarinnar, þ.m.t. skoðunarferðirnar og kostar 40.000 krónur,“ segir Frosti og bætir við að það sé fyrir löngu orðið uppselt. Hann ætlar sér þó ekki að stækka hátíðina upp úr öllu valdi. „Þótt passarnir seljist vel þá er það samt ekki markmið okkar að hátíðin stækki eitthvað sérstaklega mikið með hverju árinu. Við getum ekki tekið við óendanlega mörgum gestum og það eru takmörk fyrir því hvað við getum komið með marga gesti, til dæmis í Bláa lónið. Við viljum aðallega tryggja að menn skemmti sér rosalega vel og að við sem stöndum að þessu getum sinnt þessu með góðu móti,“ segir hann en hópurinn sem kemur að skipulagningu hátíðarinnar telur um tólf manns.
Óhætt er að segja að þetta frístundaframlag þeirra, sem er unnið utan hefðbundins vinnutíma, hafi skilað góðum árangri. Bears on Ice er nefnilega ekki rekin í hagnaðarskyni og því fer allt það fé sem kemur umfram í kassann beint til góðgjörðamála. Í fyrra styrkti Bears on Ice HIV Ísland um 300.000 krónur og um 400.000 krónur árið 2015. Og það er fleira gott sem hefur sprottið úr gleðijarðvegi Bears on Ice síðan fyrsta hátíðin fór fram árið 2005. „Til dæmis hafa allnokkur hjónabönd komið úr úr þessu og nokkrir sem fundu ástina hér á klakanum hafa meira að segja komið aftur til landsins til að ganga í það heilaga,“ segir Frosti að lokum.