Kristján Björn Tryggvason er látinn, 36 ára að aldri eftir langa en hetjulega baráttu við krabbamein. Hann var fjölskyldumaður, giftur Kristínu Þórsdóttur en þau kynntust í stefnumótaþættinum Djúpu lauginni eins og frægt er orðið. Saman eignuðust þau þrjú börn. Kristján greindist fyrst árið 2006 þegar hann var 25 ára. DV greindi frá því á síðasta ári að hann hefði ákveðið að hætta lyfjameðferð og njóta þess tíma sem eftir væri með fjölskyldunni í stað þess að ganga í gegnum erfiðar geisla – og lyfjameðferðir. Kristján og Kristín vöktu athygli og aðdáun þjóðarinnar fyrir ótrúlegt æðruleysi og fyrir að stíga fram og ræða á opinskáan hátt um þennan illvíga sjúkdóm sem krabbamein er. Þá hefur verið hafin söfnun fyrir börn Kristjáns og Kristínar og vill DV vekja athygli á söfnunarreikningi sem er neðst í fréttinni.
Þegar Kristján ákvað að hætta á lyfjunum og takast æðrulaus á við veikindin sögðu hjónin að þau væru ekki að gefast upp. Þau væru að berjast fyrir lífinu. Kristín sagði þá að ávinningur af meðferð á þessu stigi væri lítill sem enginn.
„Vill maður eyða lífinu sínu í að vera rosalega veikur þegar þú veist að það eru kannski mánuðir eftir eða viltu nýta það sem þú hefur núna og njóta þess að vera til þar til að því kemur.“
Hjónunum fannst mikilvægt að eiga góðar minningar þá mánuði sem þau áttu eftir saman.
Kristján tók þátt í Mottumars af fullum krafti og vakti athygli fyrir dugnað. Tvívegis lenti hann í öðru sæti í keppninni og einnig lenti hann bæði í þriðja sæti og því fjórða. Safnaði Kristján mörgum milljónum fyrir Krabbameinsfélagið en nú þurfa börnin hans á stuðningi að halda. Að vera ungur og greinast með krabbamein kostar mikil fjárútlát. Um það hefur verið fjallað í ótal fréttum.
Kristjáni eða Kiddi eins og hann var oft kallaður er lýst sem einstökum manni sem tókst á við sjúkdóminn með brosi og lífsgleði. Sigurjón Veigar Þórðarson vinur Kristján segir:
„Hann var ALLTAF brosandi og tók virkan þátt í mottumars átakinu með því að safna á öllum vígstöðvum. Mottóið hans var „Lífið er núna“ og það var akkúrat þannig sem hann lifði.“
Þá segir Anna Kristín Tryggvadóttir:
„Vegna fráfalls Kidda okkar langar mig að benda þeim sem vilja minnast hans á styrktarreikning í hans nafni og um leið þakka þeim fjölmörgu sem lagt hafa sitt af mörkum í gegnum tíðina. Allt mun þetta renna óskipt inn á framtíðarreikninga barnanna að hans ósk.“
0140-15-380088 Kennitala: 060681-3849