fbpx
Sunnudagur 22.desember 2024
Fókus

„Hann missti alla von“

Bergur Snær svipti sig lífi 19 ára – Varð fyrir kynferðisofbeldi – Kærunni vísað frá

Kristjón Kormákur Guðjónsson
Föstudaginn 12. ágúst 2016 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bergur Snær Sigurþóruson var 19 ára gamall þegar hann svipti sig lífi í mars á þessu ári. Móðir Bergs og uppeldisfaðir segja afleiðingar alvarlegs kynferðisofbeldis hafa leitt hann á vonarvöl. Að lokum sá hann aðeins eina lausn. Þau vilja koma fram með sögu hans í von um að opna umræðuna og vekja athygli á þeim skorti sem ríkir á úrræðum fyrir ungmenni sem glíma við afleiðingar áfalla.

Bergur Snær var elstur í systkinahópi fjölskyldunnar sem búsett er í fallegu timburhúsi á Seltjarnarnesi. Þegar hann var yngri kölluðu foreldrar hans, Sigurþóra Bergsdóttir og Rúnar Unnþórsson, hann gjarnan leyniþjónustumanninn. „Ef hann til dæmis gerði eitthvað af sér í skólanum eða eitthvað var skemmt, þá var aldrei mögulegt að fá neitt upp úr honum. Ekki séns. Hann var þögull sem gröfin,“ segir Rúnar. Sigurþóra minnist þess einnig að hinn litli Bergur hafi verið mikill sjarmör og undantekningarlaust heillað fólk upp úr skónum við fyrstu kynni. „Sérstaklega miðaldra konur!

En hann var alltaf mjög lokaður. Hann hleypti fáum að sér. Hann var meistari í að setja upp grímu og þannig bræddi hann alla í kringum sig,“ segir hún síðan.

Bergur greindist seint með athyglisbrest. Hann var fyrirferðarmikill strákur, orkumikill og alltaf á ferðinni. Hvatvís en samt varkár, að sögn Sigurþóru. Hann æfði fimleika og stundaði snjóbretti og var virkur í ýmsum íþróttum. En athyglisbresturinn háði honum í skóla. „Hann missti sjálfstraustið í námi. Hann komst að lokum að þeirri niðurstöðu að hann væri bara „þessi týpa“ sem gæti ekki lært. Hann kláraði samt eitt ár í Kvennó eftir grunnskólann.“

Bergur var á fimmtánda ári þegar hann komst í kynni við pilt sem var nokkrum árum eldri. Sá piltur er ótengdur fjölskyldunni en Rúnar og Sigurþóra könnuðust við hann.

Grunaði ekkert

„Samfélagið okkar bæði nær og fjær kom og sýndi okkur stuðning og samhug og það sýndi hversu margir tengdust Bergi og þótti vænt um hann."
Sigurþóra og Rúnar „Samfélagið okkar bæði nær og fjær kom og sýndi okkur stuðning og samhug og það sýndi hversu margir tengdust Bergi og þótti vænt um hann."

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Það leið einhver tími þar til Rúnar og Sigurþóra fóru að taka eftir breyttri hegðun hjá syninum. Bergur var ekki eins og áður. Strákurinn sem var einu sinni svo hlýlegur var skyndilega fjarrænn og erfitt að ná sambandi við hann.

„Við sáum það ekki alltaf en fólk hefur sagt okkur að það hafi séð hvernig hann varð fjarlægur í samskiptum og hvarf að lokum alveg inn í sig. Það var eins og hann gæti ekki tekist á við fullorðnis samskipti,“ segir Sigurþóra. „Hann kom kannski með okkur í boð og talaði við fullorðna fólkið í smá stund en fór svo að leika við börnin.“

Þau áttuðu sig ekki á hvað var að gerast. „Við gerðum bara ráð fyrir að þetta væri hluti af kynþroskanum, að vaxa úr grasi, þessum breytingum sem krakkar ganga í gegnum á unglingsárunum. Við höfðum ekki átt ungling áður og héldum að þetta væri svona svakaleg umbreyting, þetta gelgjuskeið,“ segir Rúnar.

Þau minnast þess að Bergur hafi ítrekað laumast út á nóttunni. Löngu seinna fengu þau að vita ástæðu næturbröltsins. Það kostaði átök að halda honum innan dyra á þeim tíma sólarhrings og gripu þau meðal annars til þess ráðs að stilla þjófavarnarkerfi hússins svo það myndi fara í gang. Bergur fann þó ávallt leið til að komast út og málin fóru að taka sífellt verri stefnu. „Bergur var að slæpast og hanga með vinum sínum og það var partístand á þeim. Hann fór að taka bílinn í leyfisleysi á nóttunni. Hann var aldrei í afbrotum eða hörðum fíkniefnum og hann var aldrei ofbeldisfullur. Bara rosalega þungur,“ segir Rúnar.

„Svo fór hann að fikta eitthvað við hassreykingar, líklega til að bæla niður vondar tilfinningar,“ segir Sigurþóra. Barnavernd komst í málið eftir að Bergur var gripinn með efnið og í kjölfarið var komið á svokölluðu MST úrræði. Sigurþóra afréð að lokum að keyra með Berg til vinkonu sinnar úti á landi til að forða honum frá vondum félagsskap. Þar dvaldi hann í þrjá mánuði. Bergur var þarna 16 ára. „Og ennþá grunaði okkur ekki neitt.“

Allt komst upp

„Hann komst að lokum að þeirri niðurstöðu að hann væri bara „þessi týpa“ sem gæti ekki lært."
Bergur litli „Hann komst að lokum að þeirri niðurstöðu að hann væri bara „þessi týpa“ sem gæti ekki lært."

Í febrúar 2014 barst símtal frá manni sem kynnti sig sem fulltrúa kynferðisafbrotadeildar lögreglunnar. Hann spurði hvort þau, foreldrarnir, hefðu orðið vör við einhverja breytingu á Bergi. Hafði hann breyst í hegðun?

Í ljós kom að nafn Bergs hafði komið upp í tengslum við umfangsmikið kynferðisbrotamál. Pilturinn sem Bergur hafði kynnst nokkrum árum áður var nú grunaður um kynferðisbrot gegn fjölda drengja á nokkurra ára tímabili. Einn af þeim var Bergur. Pilturinn, sem nú er kominn á þrítugsaldur, hafði áður verið sakfelldur fyrir kynferðisbrot gegn einum einstaklingi.

Sigurþóra og Rúnar vissu fyrir víst að maðurinn sæti í fangelsi og vissu að Bergur hefði verið í samskiptum við hann, meðal annars á Facebook. Þau höfðu áður spurt Berg hvort maðurinn hefði gert honum mein en hann hafði þverneitað. Og þau höfðu varað Berg við honum.

Þau vissu þó ekki hvers eðlis samskipti Bergs og piltsins höfðu verið. „Við fengum að sjá Facebook-skilaboð þeirra á milli og þó svo að það væri ekkert sagt beinum orðum þá var alveg augljóst hvað var þarna í gangi,“ segir Rúnar. „Þegar ég frétti þetta þá staðfesti það ákveðinn grun hjá mér,“ segir Rúnar.

Ég held að þarna hafi hann hreinlega misst alla von.

Sigurþóra segir að örvæntingartilfinning hefði gripið um sig ofan á áfallið sem hún fékk við fréttirnar. „Ég hugsaði bara: hvernig munum við komast í gegnum þetta? Hvað verður um fjölskylduna? Erfiðast var samt að geta ekki gert neitt. Að þurfa að sætta sig við það að einhver manneskja hefði leyft sér að rústa barninu manns á þennan hátt.“

Heilmikið ferli fór í gang og fleiri upplýsingar komu fram í dagsljósið. „En Bergur þverneitaði að nokkuð hefði gerst. Það var sama hve mikið var gengið á hann. Bergur skammaðist sín svo hrikalega mikið,“ segir Sigurþóra sem sjálf lagði fram kæru án þess að Bergur hefði gefið vitnisburð. Bergur fór loksins í skýrslutöku hjá lögreglu og sagði frá því hvernig samskiptum þeirra hefði verið háttað. Maðurinn var nokkrum mánuðum síðar hnepptur í gæsluvarðhald vegna brotanna, þá nýlega laus úr fangelsi.

Sigurþóra hefur ekki treyst sér til að lesa allar skýrslur og lýsingar Bergs á samskiptum hans við manninn. Það sem þau Rúnar vita segja þau að komi heim og saman við lýsingar hinna brotaþolanna: úthugsuð taktík sem feli meðal annars í sér ýmiss konar gylliboð, heimsóknir á dýr hótelherbergi, og að lokum hótanir.

„Við erum að tala um ungan strák sem lenti í vonda kallinum sem með einhverjum útsmognum hætti náði honum algjörlega á sitt band. Og heldur honum síðan í einhverju neti,“ segir Rúnar og Sigurþóra bætir við:

„Sektarkenndin var að buga hann eftir að sannleikurinn komst upp á yfirborðið. Honum fannst hann hafa verið svo vitlaus að hafa látið hafa sig út í þetta, sama hvað við reyndum að segja honum. Seinna sagði hann okkur að hann myndi eftir því hvað honum fannst hann vera fastur á þessum tíma, en hann bara gat ekki sagt okkur frá þessu.“

Gífurlegt áfall

„Erfiðast var samt að geta ekki gert neitt. Að þurfa að sætta sig við það að einhver manneskja hefði leyft sér að rústa barninu manns á þennan hátt.“
Örvænting „Erfiðast var samt að geta ekki gert neitt. Að þurfa að sætta sig við það að einhver manneskja hefði leyft sér að rústa barninu manns á þennan hátt.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Maðurinn hlaut að lokum, í lok sumars í fyrra, þriggja ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn fjölda drengja. Ríkissaksóknari ákvað að gefa ekki út ákæru í máli Bergs á þeim grundvelli að ekki væru nægar sannir til sakfellingar, meðal annars þar sem Bergur hafði áður eytt Facebook-samskiptum á milli hans og mannsins. Þau samskipti þóttu vera lykilatriði í málinu. Skiptir þá engu máli þó að fjöldi annarra drengja hefði kært manninn fyrir sömu sakir.

„Fram að þessu var eins og Bergur hefði verið að halda niðri í sér andanum. Hann beið og beið eftir að maðurinn yrði kærður, það var eins og þá fyrst ætlaði hann að vinna í þessu og takast á við þetta. Þegar úrskurðurinn var ljós, þá varð það gríðarlegt áfall, fyrir hann og okkur öll,“ segir Sigurþóra og leggur áherslu á orðið gríðarlegt.

Fjölskyldan er afar ósátt við vinnubrögð ríkissaksóknara og segir framkomu embættisins við hana mjög ófaglega. Sigurþóri og Rúnari er mikið niðri fyrir þegar þau ræða þann hluta.

Meira að segja bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi mætti hingað með blóm.

„Úrskurðinum var bara hent í okkur án nokkurra útskýringa. Við fengum ekkert að vita fyrr en seinna. Okkur er ómögulegt að skilja af hverju málinu var vísað frá á þeirri forsendu að ekki hafi verið nægar sannanir – eftir að búið var að ganga á eftir honum í allan þennan tíma og þrýsta á hann að segja frá, sem var gríðarlegt erfitt fyrir hann. Ofan á það staðfesti reynt fagfólk sem ræddi við hann, að frásögn hans væri trúverðug og þau efuðust hvergi. Þá voru fleiri strákar sem höfðu nákvæmlega sömu sögu að segja. Það var engin ástæða til að trúa honum ekki,“ segir Sigurþóra og Rúnar tekur undir. „Okkur fannst þetta mál vera meðhöndlað eins og hver annar smáglæpur, eins og þetta væri bara eitthvert búðarhnupl. Blaðinu væri hent efst á bunkann og ekkert verið að hugsa um tilfinningarnar á bak við.“

Höfnunartilfinningin sem Bergur fékk við þessar fréttir var svakaleg. Ég held að þarna hafi hann hreinlega misst alla von,“ segir Sigurþóra alvarleg.

Þau segja allt hafa breyst eftir úrskurð saksóknara, enda annað áfall ofan á hitt. Bergur hafi þá sokkið dýpra og dýpra í þunglyndi og glímt við gríðarlega áfallastreituröskun og enginn hafi þekkt hann sem sama dreng og áður. Inni á milli hafi komið góð tímabil, þar sem jafnvel sást glitta í „gamla“ Berg en það hafi þó ekki staðið lengi. Þau vita til þess að hann hafi hugleitt að binda enda á lífið, þó að hann hafi ekki látið verða af því.

„Þetta var orðið þannig að ég þurfti að hafa hann undir sólarhringsvakt. Við urðum dauðhrædd um hann. Vinir hans, sem vissu ekki hvað hafði komið fyrir vegna þess Bergur vildi það ekki, þeir skildu ekki þessar sveiflur hjá honum. Svo sleit hann samband við alla í kringum sig,“ segir Sigurþóra og bætir við að Bergi hafi staðið til boða hjálp, til að mynda viðtöl hjá sálfræðingi á vegum Áfallastreitumiðstöðvar, sem og geðlækni sem hafi skrifað upp á þunglyndislyf. Þá hafi hann verið á löngum biðlista eftir að komast í teymi á vegum Landspítalans fyrir þolendur áfallastreituröskunar.

„Hann fór tvisvar á Vog en það segir sig sjálft að það var engan veginn rétti staðurinn fyrir hann. Úrræðin sem voru í boði voru bara ekki að virka. Hann sagði sjálfur að hann sæi ekki tilganginn með þessu. En samt var hann virkilega að reyna. Hann vildi fá hjálp og líða betur,“ segir hún síðan og bætir við:

„Ég man að eitt sitt sagði hann við mig hvað hann þráði að vera venjulegur, bara venjulegur unglingsstrákur sem væri í skóla með vini og kærustu og íþróttum.“

Batt enda á líf sitt

Stuttu fyrir kvöldmatarleytið, föstudaginn 18. mars 2016 var Rúnar heima þegar tveir ungir menn bönkuðu upp á heimili fjölskyldunnar á Seltjarnarnesi. Ekkert hafði þá sést eða spurst til Bergs í tvo daga. Rúnar hélt í fyrstu að þarna væru á ferð einhverjir vinir Bergs. Síðan sá hann glitta í hvítan prestakraga hjá öðrum þeirra.
„Megum við tala aðeins við þig um Berg Snæ?“ spurði hann.

Fjölskylda og vinir slógu skjaldborg utan um Sigurþóru, Rúnar og börn þeirra. Húsið á Seltjarnarnesinu fylltist af fólki um leið og fregnirnar spurðust út.

„Samfélagið okkar bæði nær og fjær kom og sýndi okkur stuðning og samhug og það sýndi hversu margir tengdust Bergi og þótti vænt um hann.

„Við vorum bara tekin og hreinlega vafin inn í bómull. Meira að segja bæjarstjórinn á Seltjarnarnesi mætti hingað með blóm. Það var algjörlega ómetanlegt,“ segir Sigurþóra.

Þau ákváðu strax að koma hreint fram varðandi fráfall Bergs. Yngri börnin í fjölskyldunni vita hvernig og af hverju hann dó. Eins vinir hans, sem höfðu ekki hugmynd um hver væri ástæða þess að Bergur breyttist svo mikið.

Sérhæfð úrræði skortir

Auðveldara að vita til þess að hann sitji inni.

Það eru bráðum komnir fimm mánuðir síðan Bergur dó. Þau sitja ennþá eftir með ótal spurningar, en búast ekki við að fá nokkurn tímann svör.

Ein spurning er þó sú hvað hafi leitt til þess að ungur strákur sá ekki aðra leið út úr vanlíðan sinni en að binda endi á líf sitt. Þau segja sérhæfð úrræði skorta þegar kemur að ungu fólki sem glímir við áfallastreituröskun og afleiðingar hennar. Þau kvarta ekki undan „kerfinu“ – þar hafi vissulega verið hjálp í boði, en rétt úrræði hafi ekki verið til staðar.

„Þennan hóp vantar einhvern góðan, öruggan stað. Athvarf þar sem þau geta komið og fengið meðferð þar sem er ekki alltaf verið að einblína á fíkn eða hegðunina sem er afleiðing af þessu,“ segir Sigurþóra.

Í kjölfar fráfalls Bergs var komið á fót Minningarsjóði Bergs Snæs. Sjóðinn vilja þau nota til að minnast hans og einnig til að styrkja aðila sem vinna með ungmennum sem orðið hafa fyrir áfalli eða ofbeldi. Þannig vilja þau að fráfall Bergs muni leiða eitthvað gott af sér. Jafnvel búa til einhvers konar faghóp sem myndi koma á úrræði fyrir ungmenni í þessari stöðu, ungmenni sem eru með fleiri en eina greiningu.

Átti drauma

„Hann sagði sjálfur að hann sæi ekki tilganginn með þessu."
Gríðarlegt áfall „Hann sagði sjálfur að hann sæi ekki tilganginn með þessu."

Þau vita líka að maðurinn sem var kærður fyrir að hafa brotið á Bergi mun fyrr eða síðar losna úr fangelsi. Þau hafa í raun litlar skoðanir á því. Þau geta ekki haft áhrif á það. „Ég vona bara að hann muni halda sig frá minni fjölskyldu – eins langt frá og hægt er. Það hefur enga merkingu fyrir mig að hata hann,“ segir Sigurþóra. „En það yrði vond tilfinning að mæta honum úti á götu,“ segir Sigurþóra.

„Það hefur reynst okkur auðveldara að vita til þess að hann sitji inni. Vegna þess að við vitum að hann mun halda sinni iðju áfram þegar hann sleppur út,“ bætir Rúnar við.

Og þau syrgja það sem hefði getað orðið.

„Við höfum séð jafnaldra hans útskrifast úr menntaskóla og skemmta sér og eiga allt lífið framundan. Mér finnst hann hafa verið svikinn um svo mikið,“ segir Sigurþóra. Rúnar minnist einnar stundarinnar snemma á þessu ári þegar „gamli“ Bergur birtist.

„Við fórum að ræða um framtíðina og hvað hann vildi verða. Hann talaði um að hann langaði að verða barþjónn. Honum fannst það spennandi og hann ljómaði allt í einu allur þegar hann talaði um það. Hann átti drauma en hann bara réð ekki við þessa drauga sem hann barðist við.“

Þeir sem vilja styðja við Minningarsjóð Bergs Snæs er bent á reikningsnúmerið 301-26-8898. Kt. 7005161130. Tilgangur Minningarsjóðs Berg Snæs er að styðja við aðila sem hafa það að markmiði að hjálpa ungmennum sem hafa lent í áföllum/ofbeldi hvers konar.

Þá hyggjast aðstandendur og vinir Bergs Snæs taka þátt í Reykjavíkurmaraþoninu á menningarnótt og safna áheitum fyrir sjóðinn. Hægt er að heita á hlaupara inni á heimasíðu Hlaupastyrks.

Margt smátt gerir eitt stórt

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum