fbpx
Föstudagur 08.nóvember 2024
Fókus

Þórunn Antonía: Er ekki á Tinder

Um fuckboys, karíókí, móðurhlutverkið og það að vera listamaður á ystu nöf

Margrét Gústavsdóttir
Miðvikudaginn 4. október 2017 10:46

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Klukkan er tíu árdegis. Þórunn Antonía Magnúsdóttir situr við stofuborðið í litlu bleiku stofunni í Vesturbænum og föndrar hálsfesti úr tréperlum handa dóttur sinni Freyju, meðan hún hlustar á bestu lög meistara Leonards Cohen. Þórunn sötrar jurtate úr fallegum bolla og morgunsólin kastar fallegri birtu yfir stofuna.

„Upprunalega átti þetta perl að vera eitthvað fyrir okkur mæðgurnar að dunda við saman, en svo finnst mér bara svo gaman að búa til hluti sem gleðja hana að ég geri þetta stundum hvort sem hún er heima eða ekki,“ útskýrir Þórunn og hlær sínum fallega, smitandi hlátri.

Þórunn Antonía er mikill þúsundþjalasmiður. Hún segist þrífast best í fjölbreytileikanum og finnst skemmtilegast að takast á við ólík verkefni.

Klár í karókí?

Karókíkvöldin á Sæta svíninu hefjast upp úr kl. 21.00 og standa til 00.30 öll miðvikudagskvöld.

„Stundum finnst mér eins og ég sé ekki að gera neitt af viti en svo þegar ég fer að skrifa þetta niður, eða segja fólki frá því sem ég hef verið að gera, þá átta ég mig á því að mín skilgreining á því að gera ekki neitt er alls ekki í takt við skilgreiningu flestra annarra. Ég er stundum eins og nokkrir persónuleikar í einni manneskju. Tónlistar-Þórunn er í einu verkefni, útvarps-Þórunn í öðru og svo dans-Þórunn í því þriðja. Stundum gleymi ég að taka saman hvað allir starfskraftarnir sem búa inni í mér eru að gera og þá rennur það upp fyrir mér að ég er í raun með alla anga úti,“ segir hún og bætir við að hún þurfi stundum að halda aftur af sér í framkvæmdagleðinni.

„Maður getur ekki verið að deita einhvern „fuckboy“ sem er ömurlegur við mann og hafnar manni bara til að geta samið lag um það. Það er ekki góð þróun. Mæli ekki með því“

„Til dæmis þurfti ég að taka mér tíma til að byggja mig markvisst upp eftir mikil veikindi á meðgöngunni. Ég vil reyndar meina að konur almennt, þurfi lengri tíma en hefðbundið fæðingarorlof til að ná sér, mynda tengsl við barnið og kynnast sjálfum sér upp á nýtt. Það tók mig tvö ár að komast aftur á skrið. Ég þurfti hjálp við að greiða úr ýmsum hlutum. Greindist með áfallastreitu og þunglyndi eftir inngrip og áföll á meðgöngunni og heimurinn breyttist, ég breyttist. En ég er þakklátari fyrir lífið og litlu hlutina eftir þessa lífsreynslu,“ segir hún.

Kennir krúttum að tjá sig í dansi og söng

Um þessar mundir er einn angi Þórunnar í því að kenna ungum börnum að tjá sig í gegnum söng og dans í ballettskólanum Plíei, en Þórunn stundaði sjálf dansnám alla barnæskuna og fram á fullorðinsár.

„Ég kenni þessum krúttum ballett, jazzballett og söngleiki. Yngsti nemandinn er þriggja ára og sá elsti er átta. Með kennslunni langaði mig að prófa eitthvað sem gæfi mér smá kitl í magann og tæki mig út úr þægindahringnum, gera eitthvað sem mér finnst kannski örlítið óþægilegt en venst síðan vel og gefur mér alvöru gleði. Minn þægindahringur er meðal annars fólgin í því að standa uppi á sviði og syngja fyrir framan fjölda fólks en ég pluma mig hins vegar ekki eins vel í alls konar öðrum aðstæðum og finnst því gaman að skora sjálfa mig á hólm,“ segir hún.

##Fólk sem er ríkt og frægt er ekkert glaðara

Hópur fastagesta sækir Sæta Svínið alla miðvikudaga og sumir syngja sömu lögin aftur og aftur.
Kátir karaokefuglar Hópur fastagesta sækir Sæta Svínið alla miðvikudaga og sumir syngja sömu lögin aftur og aftur.

Það má segja að hlátur og gleði séu lífsspeki Þórunnar í hnotskurn. Hún veit ekkert eftirsóknarverðara, segir peninga aukaatriði og að það skipti meira máli að hafa nægan tíma til að skapa, og vera með þeim sem manni þykir vænt um, en að eiga fullt af peningum. Hún segir það hafa verið dýrmætt ferðalag sem leiddi hana að þessari niðurstöðu en á árabilinu 2002 til 2009 bjó hún meðal annars í Los Angeles og London þar sem hún starfaði með heimsþekktu tónlistarfólki. Meðal annars Beck, Junior Senior og James Dean Bradfiled. Hún fór jafnframt í margar tónleikaferðir og hitaði þá upp fyrir sveitir á borð við B52’s, Interpol, Blonde Redhead og Nelly Furtado.

Dóra Júlía og Þórunn Antonía halda uppi dúndrandi karaoke stuði á Sæta Svíninu öll miðvikudagskvöld.
Sætastar á Sæta Svíninu Dóra Júlía og Þórunn Antonía halda uppi dúndrandi karaoke stuði á Sæta Svíninu öll miðvikudagskvöld.

„Mér finnst mikilvægt að finna eitthvað sem gleður sál mína. Ekki að verða rík eða fræg heldur einfaldlega að hafa það gaman, vera hamingjusöm og hlæja mikið. Þegar maður er búin að sjá lífið frá öllum sjónarhornum þá áttar maður sig á þessu. Ég þekki fólk sem er bæði ríkt og frægt og það er sko ekkert glaðara en ég,“ segir hún.

Ekki reyna að ganga í augun á öðrum

„Samkvæmt uppskriftinni þá hélt ég að ég myndi bara springa úr gleði við að ná risastórum plötusamningi og ferðast um með heimsþekktu tónlistarfólki en þegar öllu er á botninn hvolft þá eru þetta bara allt verkefni sem maður er að vinna, og um leið og eitt verkefni er búið þá tekur það næsta við,“ segir Þórunn hugsi og bætir við að maður þurfi að lifa lífinu út frá sjálfum sér og því sem gleður mann.

„Er ég að gera þetta til að ganga í augun á öðrum eða er ég að gera þetta fyrir sjálfa mig? Það er mikilvægt að geta svarað þessari spurningu. Maður á að lifa lífinu á sínum forsendum en ekki annarra. Við eigum ekki að gera eitthvað, bara af því að við höldum að þá munum við ganga meira í augun á einhverju fólki úti í bæ. Aðalmálið er að þekkja sjálfan sig og sækja svo í það sem maður veit að gleður mann.“

Freyja syngur um hafragraut og háttatíma

Móðurhlutverkið var Þórunni kærkomið og hún segir það hafa gefið henni mikinn þroska og gleði. Meðal annars til að sjá og finna sanna hamingju í hversdagslegum athöfnum. Þær mæðgur sitji gjarna saman, drekki te og dundi sér við perl eða annað föndur. Hún segir þá stuttu mjög skapandi karakter og að hún elski, líkt og mamma sín, að syngja og semja lög um allt á milli himins og jarðar.

„Ég útskýrði nýlega fyrir Freyju að hún mætti semja lög um allt sem hana langaði til. Það þyrfti ekki endilega að hlusta á tilbúin lög og að það væri hægt að syngja um allt. Hvað sem er. Hún tók þessu auðvitað rosalega bókstaflega og núna syngur hún um að borða hafragraut, háttatíma, fara í bað, finna sér föt. Allt þetta hversdagslega og allt þar á milli,“ segir Þórunn og hlær dátt.

Mynd: BB

Það er alltaf þessi eldur undir, ástarsorg eða raunir

„Fyrir mörgum árum heyrði ég máltækið „bad people don’t sing“ sem útleggst einfaldlega „vont fólk syngur ekki.“ Þetta sat svolítið í mér af því ég held að það sé ótrúlega mikið til í þessu. Maður getur ekki sungið ef manni líður illa,“ segir Þórunn sem vil jafnframt meina að sársaukinn sé vanalega undanfari kröftugrar sköpunar en hún segist aldrei semja eins mikið eins og eftir tilfinningalegar hremmingar. „Það er alltaf þessi eldur undir, ástarsorg eða raunir, sem hvetur mann til að semja tónlist. Maður syngur sem sagt mikið þegar maður er glaður, en semur mikið þegar maður er leiður. Það er svolítið þannig,“ segir hún og bætir við að tónlistarfólk þurfi samt að ná að aga sig til að reyna að skapa tónlist þótt það sé ekki alltaf á tilfinningalegri heljarþröm.

„Maður getur ekki verið að deita einhvern „fuckboy“ sem er ömurlegur við mann og hafnar manni bara til að geta samið lag um það. Það er ekki góð þróun. Mæli ekki með því,“ segir hún og brosir út í annað meðan hún hrærir í tebollanum.

Listamenn á ystu nöf

Hefur þú reynslu af þessu sjálf?

„Já, auðvitað og ég held að mjög margir listamenn geri þetta meðvitað eða ómeðvitað. Ef þú semur alltaf góða tónlist þegar þú ert leið eða reið, þá leitarðu ósjálfrátt í þannig aðstæður. Sérstaklega ef tónlistin er lifibrauð þitt. Undirmeðvitundin man bara eftir þessu og allt í einu ertu komin í aðstæður sem hrista upp í öllu og kalla fram sköpunarkraftinn.“

Útskýrir þetta kannski af hverju t.d. Keith Richards er eins lifaður og raun ber vitni?

Mynd: BB

„Já, algjörlega. Og fleiri listamenn. Til dæmis hún Amy Winehouse, heitin, sem ég þekkti reyndar mjög vel meðan ég bjó í London. Hún var skýrt dæmi um manneskju sem gerði sér enga grein fyrir eigin hæfileikum og leitaði í alls konar vitleysu sem á endanum dró hana til dauða,“ segir Þórunn og nefnir um leið að hún hafi lesið margar rannsóknir sem sýni fram á að listamenn lifi lífi sínu yfirleitt nokkuð á skjön við það sem tíðkast hjá venjulegu millistéttarfólki. Til dæmis eigi þeir gjarna fleiri rekkjunauta og finni sig stundum í aðstæðum sem aðrir myndu vanalega forðast.
„Ef fólk er mjög skapandi þá fylgir því oft þessi óseðjandi lífsþorsti. Til að geta sagt spennandi sögur er líka nauðsynlegt að hafa frá einhverju að segja. Ef þú ætlar að skrifa um hluti þá dugar ekki að vera bara heima að spila lúdó. Maður þarf að lifa lífinu til að geta skrifað um það. En fólk þarf líka að kunna að fara vel með þetta.“

Hefur aldrei unnið níu til fimm-vinnu

Heldurðu að staða kvenna í þínum geira hafi breyst mikið á síðustu árum?

„Já, svo sannarlega. Ég efast um að konur á mínum aldri, einstæðar mæður, hafi fengið tækifæri til að eyða dögunum sínum í að semja popptónlist hérna á Íslandi árið 1975. Ég er svo lánsöm að geta að minnsta kosti gefið sjálfri mér smá rými fyrir sköpunina á milli þess sem ég sinni móðurhlutverkinu og öðrum verkefnum. Maður finnur samt alveg enn fyrir þessu gamla íhaldssama viðmóti; að maður eigi að hætta þessu rugli og fá sér almennilega vinnu. Stundum þarf ég að hafa mig alla við til að láta mótlætið ekki brjóta niður sköpunargleðina,“ segir Þórunn sem hefur á undanförnum árum sinnt fjölbreyttum störfum innan lista- og fjölmiðlageirans. Margir muna til dæmis eftir henni úr Steinda-þáttunum þar sem hún og sannaði sig sem afbragðs grínleikkona. Þá var hún dómari í hæfileikakeppninni Ísland Got Talent en í fyrrasumar tók hún að sér að vera fjölmiðla- og kynningarfulltrúi fyrir hátíðina Secret Solstice, svo fátt eitt sé nefnt. „Ég hef alltaf verið mjög dugleg að vinna og hef gengið í hin og þessi störf þótt ég hafi aldrei nokkurn tímann unnið svokallaða níu til fimm-vinnu. Ætli ég kunni það nokkuð? Ég held ekki.“

Mynd: Íris Dögg

Vann víbrator og kampavínsflösku í bingó Sódómu

Undanfarna mánuði hefur Þórunn stýrt stórskemmtilegum karókíkvöldum í kjallara veitingastaðarins Sæta svínið. Hún segir hugmyndina hafa fæðst eftir bingókvöld hjá Sigríði Klingenberg á sama stað.

„Ég hélt að þetta væri bara svona venjulegt bingó á sunnudagskvöldi. Allir slakir. Svo kom ég þarna inn og fólk var bara að fara úr að ofan, Sigga að hella úr staupum upp í fólk og einhverjir að dansa uppi á borði. Ég hugsaði bara … í hvaða Sódómu er ég eiginlega komin? Ég elska þetta!! Svo settist ég niður með bingóspjaldið mitt í algjöru hláturskasti, vann einhvern víbrator og kampavínsflösku og fór með vinningana heim, alsæl.“

Maður þarf ekkert að kunna að syngja

Hún segir að stemningin hafi minnt hana á pöbb í austurhluta London sem hún sótti reglulega þau ár sem hún bjó þar. Á staðnum, sem heitir The Legion, voru haldin „pub quiz“- og karókíkvöld en hún segir þau hafa verið rjómann af því besta sem stórborgin hafði upp á að bjóða á þessum árum.

„Karókíkvöldunum var stjórnað af alveg ótrúlega skemmtilegu og fyndnu pari. Þau voru alltaf klædd í mjög skrautlega búninga og svo voru þau með svona lukkuhjól sem þau sneru eftir að fólk var búið að syngja. Þá gastu fengið alls konar skrítna vinninga, sem virkaði auðvitað svolítið hvetjandi fyrir þá sem þorðu ekki að taka lagið,“ útskýrir hún með tilheyrandi handahreyfingum. „Venjulegt karókí er yfirleitt þannig að þangað kemur eingöngu fólk sem virkilega kann að syngja og langar bara til að gera það, en þegar búningar og vinningar og alls konar annað rugl bætist við þá verður þetta svo miklu skemmtilegra. Alls konar fólk, sem vanalega er örlítið feimið, er allt í einu mætt með míkrófóninn í svaka stuði. Alveg burtséð frá því hvort það kann að syngja eða ekki. Það finnst mér svo æðislegt. Enda þarf enginn að kunna að syngja til að vera með í karókí,“ segir Þórunn og ákafinn í röddinni sýnir að hún hefur einlæglega gaman af þessum kvöldum.

Mynd: BB

Hollt fyrir sálina að syngja geggjað lag

Eftir að hafa upplifað sæluna á hinu sódómíska bingókvöldi Sigríðar Klingenberg talaði Þórunn við rekstrarstjóra Sæta svínsins og bar undir hann þá hugmynd að hafa sambærileg partíkarókí skemmtikvöld á miðvikudagskvöldum í kjallara staðarins.

„Af hverju ekki? Lífið snýst jú um að gera það sem manni finnst skemmtilegt. Mér finnst ógeðslega gaman að syngja og hlusta á annað fólk syngja. Við bara slógum til og núna hef ég alltaf eitthvað til að hlakka til á miðvikudögum,“ segir Þórunn og bætir við að þegar hafi myndast lítill hópur af fastagestum sem mætir næstum alla miðvikudaga auk annarra gesta.

„Sumir syngja alltaf sama lagið og aðrir syngja alls konar lög. Þetta er svo frábært. Það er nefnilega svo ótrúlega hollt fyrir sálina að syngja eitthvert geggjað lag. Hvort sem maður er leiður eða glaður. Að syngja Total Eclipse of the Heart eftir sambandsslit eða Girls Just Wanna Have Fun þegar þú ert í stuði með vinkonum þínum. Nú eða gott Britney-lag þegar þú ert alveg „single“. Þetta er bara eitthvað ótrúlega skemmtilegt kikk sem fólk fær út úr þessu!“

Bannað að vera fáviti

Þórunn segir kvöldin oft byrja frekar rólega en svo færist fjör í leikinn eftir því sem líður á kvöldið. „Þetta eru drauma djammkvöldin mín því ég nenni yfirleitt ekkert út um helgar. Þarna er bara hægt að mæta með vinum sínum, borða, drekka og mana hvert annað upp í að syngja. Þetta er tóm gleði. Fólk er oft hlédrægt til að byrja með en í lokin eru menn næstum því farnir að slást um míkrófóninn, svo mikill er ákafinn í sönginn. Þetta eru samt alltaf friðsamleg, og stundum falleg, kvöld, enda er líka alveg bannað að vera fáviti í partíkarókí.“

Mynd: Íris Dögg

Er ekki á Tinder

Að lokum snúum við talinu að ástarlífi söngkonunnar laglegu sem hefur nú verið einhleyp um nokkurt skeið.
„Ég er ekki á Tinder og ég er ekki virk í að leita að ástinni. Ég er mjög róleg í þessum málum og sátt við líf mitt eins og það er núna. Ef einhver skyldi skjóta upp kollinum sem mér þætti sætur þá myndi ég ekki hefja samband af því ég gæti ekki hugsað mér að vera ein. Samband á bara að virka sem viðbót við það sem er gott fyrir. Ég get ekki ætlast til þess að það komi einhver karl og geri mig hamingjusama. Maður verður að byrja á sjálfum sér og læra að elska sjálfan sig. Þetta er ótrúlega mikil klisja en svo innilega satt. Við erum alltaf svo dugleg að rífa okkur niður, refsa og skamma í huganum. Við verðum að hætta því og læra að elska okkur sjálf eins og við vildum að aðrir myndu gera. Með aldrinum verður maður líka sáttari við sig og öruggari. Það er samt alveg á hreinu að ég nenni alls ekki einhverjum „bullshit“ týpum. Betra er autt rúm en illa skipað. Svo einfalt er það nú.“

Heillast af fólki sem er einlægt og sér húmorinn í lífinu

Hvað þarf áhugasamur vonbiðill svo að gera ef hann langar að heilla Þórunni Antoníu?
„Sko. Það kemst enginn inn fyrir skelina hjá mér með einhverjum stælum. Ég fíla fólk sem er einlægt, fyndið og jákvætt. Það hafa allir milljón hluti til að nöldra yfir og lífið skuldar manni enga hamingju, maður skapar hana sjálfur, svo ég heillast af fólki sem er heiðarlegt og sér húmorinn í hlutunum af því það er raunverulega hægt að hlæja að öllu. Ég á til dæmis myndir af mér þar sem ég er með meðgöngueitrun og lít út eins og sólbrenndur blöðruselur. Auðvitað er þetta hrikalega fyndið eftir á. Það er bara þannig. Maður þarf líka bara að muna að lífið drepur mann alltaf á endanum. Maður kemst ekkert frá því lifandi. Þess vegna er eins gott að hafa bara gaman af þessu,“ segir hin hæfileikaríka Þórunn Antonía Magnúsdóttir að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Leikkona varar við Ozempic og segir fólki að gera þetta í staðinn – „Hlustið á ráð mín“

Leikkona varar við Ozempic og segir fólki að gera þetta í staðinn – „Hlustið á ráð mín“
Fókus
Í gær

Dísa í World Class slösuð á handlegg á afmælisdaginn

Dísa í World Class slösuð á handlegg á afmælisdaginn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Missti 30 kíló eftir að hann hætti á Ozempic

Missti 30 kíló eftir að hann hætti á Ozempic
Fókus
Fyrir 2 dögum

Frosti rifjar upp stóra tónlistarverðlaunamálið – „Í fyrsta skipti þar sem var gerð massíf tilraun til að slaufa mér“

Frosti rifjar upp stóra tónlistarverðlaunamálið – „Í fyrsta skipti þar sem var gerð massíf tilraun til að slaufa mér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Matt LeBlanc spottaður í nýju dularfullu vinnunni eftir að hafa sagt skilið við Hollywood

Matt LeBlanc spottaður í nýju dularfullu vinnunni eftir að hafa sagt skilið við Hollywood
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er í raun hellamálverk“ – Heillandi föðurráð Bubba

„Ég er í raun hellamálverk“ – Heillandi föðurráð Bubba