fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Fókus

Týndu börnin eru þverskurður af íslenska samfélaginu

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 13. ágúst 2018 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Fylkisson lögreglumaður hefur í fjögur ár leitað að „Týndu börnunum“. Verkefnið hófst sem eins árs tilraunaverkefni í nóvember 2014, en er nú orðið fast verkefni, þar sem Guðmundur sinnir einn leitinni, en hefur sér til aðstoðar lögregluna í heild sinni.

„Þegar barn týnist er ferlið þannig að foreldri snýr sér til barnaverndarnefndar sem sendir lögreglunni formlega beiðni um leit. Þá fer í gang ákveðið ferli, barnið er skráð eftirlýst í okkar kerfi, þannig að ef einhvers staðar eru höfð afskipti af barninu þá sést að verið er að leita að því,“ segir Guðmundur, sem segir leitina oftast byrja á að hann reyni að ná sambandi við barnið með því að hringja eða senda því sms. „Ég hringi í vini og kunningja, fer af stað að leita eða sit kyrr og bíð eftir að barnið geri vart við sig.“

Í sumum tilvikum skilar barnið sér heim þegar það sér að leit að því er hafin, „það er kannski einhver pirringur búinn að vera í gangi heima fyrir, svo þegar þau sjá alvöruna, að ég sé að hringja eða senda þeim sms, þá fara þau heim.“

Í sumum tilvikum er lýst opinberlega eftir því barni sem leitað er að og segir Guðmundur þau mörg halda að hér sé reglan sú að ekki mega lýsa eftir þeim fyrr en sólarhringur sé liðinn, engin slík vinnu- eða lagaregla er þó í gildi hér á landi, heldur er það metið í hverju og einu tilviki. „Foreldrar og barnaverndarnefnd taka þessa ákvörðun, þótt ég hafi oft skoðun á hvað eigi að gera og í mörgum tilvikum hef ég beðið foreldra um að treysta mér aðeins lengur, þar sem að ég tel mig vita hvar barnið sé. Þegar við höfum ekki heyrt frá barni eða af ferðum þess í sólarhring eða lengur þá tökum við stöðuna á hvort rétt sé að auglýsa eftir því, en í sumum tilvikum þarf barnið til dæmis á lyfjagjöf að halda og þá þarf að taka tillit til þess. Vandi barnanna er nægur og bætist bara á hann með því að birta nafn og mynd af þeim opinberlega.“

Á fjórum árum hefur Guðmundur leitað að 85–90 börnum á ári, oftar en einu sinni að meira en helmingi þeirra, en að 20–25 prósent barnanna þarf að leita oftar, 4–20 sinnum á ári. „Sumum er ég að leita að ár eftir ár, að sumum þeirra hef ég leitað öll fjögur árin.“

Þó að hópurinn sé stór á hverju ári þá bendir Guðmundur á ekki sé um að ræða háa prósentu þegar litið sé til þess að það eru 3.000–4.000 börn í hverjum árgangi. Því er ekki rétt að tala um að það séu „allir í einhverju“. Guðmundur nefnir einnig að hann hafi oftast leitað að ungmennum fæddum 2002, árgangarnir 2000 og 2001 hafi komið betur út og væri það áhugavert fyrir félagsfræðing að skoða hvað valdi því.

„Ég vinn í þröngum hópi, en sá hópur er að verða hugsunarlausari gagnvart neyslunni en áður. Þau láta segja sér hvað sem er og eru óhrædd við að prófa. Neyslumynstrið er að breytast, árið 2016 var sprautufaraldur, núna er það læknadópið, hættulegri efni og þau virðast einhvern veginn óhrædd við að prófa.“

Yngsta barnið sem Guðmundur hefur leitað að var 11 ára, og það yngsta sem hann hefur leitað að í neyslu var 12 ára. Hann segir að hjá yngstu börnunum sé vandinn hins vegar meira hegðunar- eða andlegur, ekki neysluvandi.

Börnin eru þverskurður af samfélaginu, mörg koma frá heimilum þar sem þau búa ekki hjá báðum foreldrum, en flest tilheyra hinu venjulega heimilismynstri, venjulegum heimilum þar sem báðir foreldrar búa. „Meðal annars eru afrekskrakkar í íþróttum sem fara út af sporinu, sem sýnir að þú veist ekki fyrr en of seint hvað það er sem þú ert að prófa. Ein tafla getur verið einni töflu of mikið.

Sum má segja að hafi aldrei átt séns, börn sem voru í neyslu í móðurkviði, líf sumra einkennist af því hvað bakland þeirra er dapurt og önnur eru með þennan veikleika að það er ekki aftur snúið þegar þau hafa prófað eitthvað. Svo er hópurinn sem er á undan í þroska og þar er vandinn sá að skólakerfið og fleira er ekki að mæta þeim á þeirra stað, þau passa ekki í jafnaldrahópinn, en það er verið að berjast við að halda þeim þar. Stelpurnar sem tilheyra þessum hópi eru mjög erfiðar, ekki neyslulega, heldur í hegðun.

Fólk er með þá staðalímynd að börnin séu öll í einhverju greni. Raunin er ekki sú, flest þeirra eru bara úti á götu á ferðinni, þó að vissulega sé eitt og eitt sem fer í partí og eitt og eitt sem finnst í greni.“

Guðmundur bendir á að skoða þurfi hvort meðferðarúrræðin sem eru í boði í dag séu nægjanleg. „Þeir einstaklingar sem hafa verið erfið á þessu ári eru krakkar sem þurfa önnur eða betri meðferðarúrræði en eru í dag.“

Síðan Guðmundur hóf að leita að „Týndu börnunum“ hefur eitt þeirra látist, fyrir eigin hendi eldri en 18 ára. Árið 2012 létust þrír einstaklingar, sumir orðnir 18 ára. „Ef ekki væri fyrir þetta verkefni þá væru þau sennilega 2–3 sem hefðu látist á ári,“ segir Guðmundur og nefnir sem dæmi stúlku sem hann bjargaði eftir að hann fann hana meðvitundarlausa af morfínlyfjum í partíi. „Við fundum hana og aðra stúlku og ég leyfi mér að fullyrða að þær hefðu látist síðar um daginn, hefðum við ekki fundið þær. Þær sátu þannig að þær önduðu ekki, það var engin endurnýjun á súrefni.“ Þessi reynsla dugði þó ekki til að bjarga henni úr neyslunni, en Guðmundur segir hana þakka sér lífgjöfina í hvert sinn sem þau hittast.

 

Ef tölurnar eru skoðaðar í ár (1. ágúst) miðað við árið 2017, má sjá að leitarbeiðnum er að fjölga. Segir Guðmundur jafnframt að fleiri börn fari inn á Stuðla miðað við árið í fyrra.

Árið 2018 þann 1. ágúst – Árið 2017

Leitarbeiðnir 177 (113 vegna stúlkna/64 vegna drengja) – 173

Einstaklingar 68 (33 stúlkur/35 drengir) – 66

Heim 88 – 110

Stuðlar 75 – 60

39 einstaklingar eru með eina leit

3 stúlkur eru með 10 eða fleiri leitarbeiðnir það sem af er ári

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?

Frægt fólk í framboði – Skrautfjaðrir eða þarfir þegnar?
Fókus
Í gær

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“

Bjarki Steinn: „Ég átti allt sem ég gat hugsað mér veraldlega en innra líf mitt var í molum“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa

Drottning hrekkjavökunnar afhjúpar svakalegasta búninginn til þessa
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga

Sonur Eyrúnar lést aðeins 18 ára af krabbameini – Hún tileinkar honum grein um netvináttu unglinga
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag

Jón Gnarr bregður sér í nýtt hlutverk í dag
Fókus
Fyrir 5 dögum

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“

„Af hverju er svona mikil leynd yfir þessu. Hvað er verið að fela?“