Lesendur DV kusu Mann ársins og niðurstaðan var mjög afgerandi. Maður ársins 2018 er Stefán Karl Stefánsson og hlaut hann 72,38 prósent atkvæða. Næst á eftir honum kom Bára Halldórsdóttir, aktívistinn að baki Klaustursupptökunum frægu sem vörpuðu ljósi á fordómafulla og niðrandi orðræðu sex þingmanna á barnum Klaustri. Hún hún hlaut 5,79 prósent atkvæða. Rétt á eftir Báru var Guðmundur Fylkisson lögreglumaður, sem hefur helgað starf sitt leitinni að týndu börnunum. Hann hlaut 5,21 prósent atkvæða.
Stefán Karl, einn ástsælandi leikari landsins, lést í ágúst eftir erfiða baráttu við krabbamein í gallgöngum. Stefán kom víða við á ferlinum en er hvað þekktastur fyrir hlutverki Glanna glæps í þáttunum um Latabæ sem njóta mikilla vinsælda hérlendis sem og erlendis og einnig fyrir hlutverk Trölla í uppsetningum á jólasöngleiknum Þegar Trölli stal jólunum, bæði í Bandaríkjunum og í Kanada.
Þegar Stefán Karl var barn varð hann fyrir miklu einelti og eftir að hann varð fullorðinn vildi hann reyna að koma í veg fyrir að önnur börn yrðu fyrir því sama. Hann varð því mikill baráttumaður í eineltismálum og vann ötullega að því að auka fræðslu og forvarnir. Hann stofnaði eineltissamtökin Regnbogabörn og hélt mörg hundruð fyrirlestra um einelti og félagsmál barna og unglinga í skólum landsins. Hann kom fram í fjölda viðtala um málefnið og hélt baráttunni áfram, jafnvel eftir að starfsemi Regnbogabarna var hætt.
Stefán Karl var í júní sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar fyrir framlag sitt til leiklistar og samfélags. Þegar honum varð ljóst að baráttan gegn krabbameininu væri töpuð skrifaði hann á Twitter:
„Það er ekki fyrr en þér er sagt að bráðum munirðu deyja sem þú áttar þig á hvað lífið er stutt. Tíminn er það verðmætasta í lífinu, því hann kemur aldrei aftur. Hvort sem þú verð tímanum í fangi ástvinar eða einn í fangaklefa er lífið hvað sem þú gerir við hann. Dreymi ykkur stóra drauma.“