fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

Leikdómur: Kabarett – „Full ástæða til að byrja að hlakka til að sjá meira frá þeim“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 9. desember 2018 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Dagný Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum nútímabókmenntum við Íslensku og menningardeild Háskóla Íslands,  skrifar í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands, leikdóm um leiksýningu Leikfélags Akureyrar, Kabarett, sem frumsýnt var 26. október.

Marta Nordal er nýr leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar.  Við hana eru bundnar miklar vonir því að sýningar hennar með hinum frábæra leikhópi „Aldrei óstelandi“ voru með því frumlegasta og athyglisverðasta sem sést hefur síðari ár. Fyrsta verkefni hennar á Akureyri, söngleikurinn Kabarett er metnaðarfullt val.

Vinsæll – dáður – áhrifamikill

Á bak við söngleikinn er löng keðja af framleiðslu og endurframleiðslu, allt frá smásögu Christopher Isherwood, Goodby to Berlin (1939) gegnum leikgerðir, bíómynd og loks söngleik (1966) og aðra bíómynd (1972) sem varð feykivinsæl.  Þar lék og söng Liza Minelli hlutverk Sally Bowles og Joel Grey lék skemmtanastjórann.

Skýringin á sívaxandi vinsældum sögunnar af því þegar ameríski rithöfundurinn Cliff Bradshaw kemur til Berlínar á fjórða áratugnum eru margvíslegar. Í upphaflegu sögunni dvelur hann þrjú ár í Berlín, kynnist Sallý og fjölmörgum öðrum jaðarpersónum í skemmtanalífi Berlínar, fólkinu sem lenti í kreppunni miklu. Kuldi, hungur og örbirgð eru hinumegin við hornið, upplausn allra gilda og siðferðis og óttinn ryðja braut fyrir nasismann sem veður uppi hvert sem litið er. Þessi efniviður hefur verið slípaður og fágaður og aðlagaður að allra smekk í leikgerð, bíómynd og loks söngleiknum Kabarett (1966) með grípandi lögum John Kander, textum Fred Ebb og leikgerð Joe Masteroff.

Samkomuhúsið

Þegar ég var stelpa á uppvaxtarárum mínum á Akureyri gat ég ekki ímyndað mér að til væru stærri svið en leiksviðið í Samkomuhúsinu. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og stærri svið verið séð. Það hefur kostað mikla útsjónarsemi að koma þetta viðamikilli sýningu með tíu manna hljómsveit fyrir á fjölum Samkomuhússins. Það var samt mikils virði að hafa hana í bakgrunni og sjá og heyra þessa fínu tónlistarmenn undir stjórn Þorvalds Bjarna Þorvaldssonar. Tónlistin er náttúrlega í fyrsta sæti hér.

Leikmyndin sýndi næturklúbbinn KitKat og leiguhúsnæði Frau Schneider og var leyst með einföldum flekum sem var rennt til og frá. Útsjónarsamar sviðslausnir voru notaðar til að spara pláss, bar Sallýjar var til dæmis taska, hengd á snaga og opnaðist út. Annars var leikmynd Auðar Aspar Guðmundsdóttur hrjúf og naumhyggjuleg öfugt við búningana sem voru skrautlegir og dansatriði skemmtileg með hápunkti í górilludansi Fanný Lísu Hevesi.

Strákur hittir stelpu

Þó að Cliff Bradshaw virðist vera meira fyrir stráka en stelpur fellur hann fyrir Sallýju og þau verða par (í söngleiknum, ekki sögu Isherwood). Það breytir miklu því að þannig verður hann þáttakandi í lífi sem hann ætlaði bara að horfa á utan frá. Hjalti Rúnar Jónsson lék Cliff, var vinalegur og sjarmerandi og hefur fína söngleikjarödd. Sally Bowles var leikin og sungin af Ólöfu Jöru Skagfjörð sem sömuleiðis hefur fína rödd, er stórglæsileg og fór vel með hlutverk Sallyjar.  Fyrsta innkoma hennar var rosalega flott. Ég var hins vegar efins um leikgervi skemmtanastjórans, eða Master of Ceremony, sem leikinn var af Hákoni Jóhannessyni. Í KitKat klúbbnum er hann límið í sýningunni, kynnir, er söngvari með eigin númer og sá sem skapar og æsir upp losta gestanna og þar með viðskiptin. Í túlkun Joel Gray í bíómyndinni frá 1972 er hann hvorki karl né kona heldur hvort tveggja, háll eins og áll, feiminn dóni.

Hákon er fínn dansari en gervið var einhvers konar blanda af trúð og pönkara með svartan varalit og ógnandi eða ögrandi, stripbúllulegar hreyfingar. Þetta var eina hlutverkið sem var ekki í períódu og það var misráðið að mínu mati. Kabarett er sögulegt verk enda ekki hægt að gera hvort tveggja að staðfæra hann og hafa uppgang nasista í bakgrunninum.

Senunni stálu svo Fräulein Schneider, leikin og sungin af Andreu Gylfadóttur og Herr Schultz leikinn af Karli Ágústi Úlfssyni sem einnig þýðir textann. Þau voru reyndustu leikararnir, tilgerðarlaus, pottþétt og bónorðssenan var hjartaskerandi. Ég hef aldrei séð Andreu leika áður á sviði en bæði leikur hennar og söngur voru framúrskarandi.

Menningarferð norður

Við rétt sluppum norður og að norðan fyrir snjóa – bærinn er fallegri en nokkru sinni, maturinn góður og menningin blómstrar alls staðar. Það var mjög gaman að sjá þessa sýningu hjá Leikfélagi Akureyrir og ástæða til að óska Mörtu og hennar fólki til hamingju með hana  og full ástæða til að byrja að hlakka til að sjá meira frá þeim.

Greinin birtist fyrst í Hugrás, vefriti Hugvísindasviðs Háskóla Íslands.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það

Matarbloggari kom upp um framhjáhald og hafði ekki hugmynd um það
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“

Segir Íslendinga dæma ferðamenn fyrir þessi mistök – „Ekki gera þetta!“