Til eru ótalmörg dæmi um einbýlishús sem selst hafa á 100 til 200 milljónir króna að undanförnu. En þau eru einnig til einbýlishúsin á landinu sem kosta lítið sé miðað við önnur hús, til dæmis á höfuðborgarsvæðinu.
Ódýrustu einbýlishúsin á landinu kosta á bilinu þrjár til fimm milljónir króna.
Hér að neðan má sjá yfirlit yfir 10 ódýrustu einbýlishús landsins. Hafa ber í huga að ekki er tekið tillit til ástands húsanna, en sum þurfa augljóslega á talsverðu viðhaldi að halda.
Vestmannabraut, Vestmannaeyjum
Stærð: 173 fermetrar
Byggingarár: 1913
Verð: 10,9 milljónir
Þetta er fimm herbergja einbýlishús, sem er kjallari, hæð og ris. Rýmið er hrátt og þarfnast endurbóta. Sum gler eru brotin og múrklæðning þarfnast skoðunar.
Búðir, Grindavík
Stærð: óuppgefið
Byggingarár: 1928
Verð: 9 milljónir
Um er að ræða 4 herbergja einbýlishús að Búðum í Grindavík. Ef nýta á húsið til búsetu er mikil þörf á endurbyggingu. Eignin er í mjög slæmu ástandi þarfnast mikilla endurbóta að utan sem innan. Svo dæmi séu nefnd eru lagnir ónytar og þarf að endurnýja alla ofna í húsinu. Loftaefni þarnast endurnýjunar. Baðherbergi þarfnast mikils viðhalds. Gólefni eru ónýt og er mjög mikill músagangur í eigninni.
Sandskeið, Dalvík
Stærð: 225 fermetrar
Byggingarár: 1914
Verð: 8,5 milljónir
Þetta hús á Dalvík þarfnast töluverðra endurbóta, meðal annars á klæðningu, gluggum, útihurðum og þaki. Rakaskemmdir eru á nokkrum stöðum í eign og merki um leka. Gólfefni vantar að nokkrum hluta og einnig innanhússklæðningu. Staðsetning er þó góð og nærri fjörunni syðst á hafnarsvæðinu.
Strandgata, Eskifirði
Stærð: 95 fermetrar
Byggingarár: 1914
Verð: 8,5 milljónir
Hér höfum við steinhús, byggt snemma á síðustu öld.
Höfum í einkasölu 95 ferm. gamalt og gott steinhús, byggt árið 1914. Á hæðinni eru forstofa, salerni, eldhús, búr og tvær stofur. í risi eru þrjú svefnherbergi, eitt þeirra mjög lítið. Í kjallara er þvottahús og geymslurými. Húsinu fylgir þúsund fermetra eignarlóð.
Borg, Egilsstöðum
Stærð: 165 fermetrar
Byggingarár: 1964
Verð: 7,5 milljónir
Hér er gott fimm herbergja hús á góðu verði, en þarfnast mikils viðhalds að utan. Vatnslagnir eru ónýtar og eru rakaskemmdir víða í íbúðinni. Ofna vantar í húsið og hitalagnir eru í ólagi. Einnig fylgir 28 fermetra bílskúr með, þó þörf séu á viðhaldi þar einnig.
Keflavíkurgata, Hellissandi
Stærð: 153 fermetrar
Byggingarár: 1942
Verð: 6,9 milljónir
Fjögurra herbergja steinsteypt einbýlishús sem er kjallari og hæð ásamt timbur bílskúr. Húsið stendur hátt og frá því er mikið útsýni til allra átta. Kjallari er með sér inngangi og lúgu í gólfi frá efri hæð. Bílskúrinn er sagður vera í slæmu ástandi og er rafmagnstafla hússins skemmd. Innréttingar, gólfefni og innihurðar eru einnig mjög lélegar og má segja hið sama um þak, þakjárn og girðingu.
Miðbraut, Vopnafirði
Stærð: 71 fermetri
Byggingarár: 1949
Verð: 6,5 milljónir
Þetta hús er á tveimur hæðum ásamt geymslukjallara. Burðarvirki hússins þarfnast lagfæringar og því er mælt með því að kaupendur hafi fagaðila til að skoða eignina sem er með tveimur svefnherbergjum.
Sólvellir, Bakkafirði
Stærð: 99 fermetrar
Byggingarár: 1951
Verð: 5,8 milljónir
Þetta hús er á Bakkafirði og hefur verið endurbætt talsvert upp á síðkastið. Þannig var það málað að utan árið 2013, gluggi lagaður og þá var ráðist í endurbætur að innan. Fjögur svefnherbergi eru í húsinu sem sagt er henta vel sem sumarhús.
Miðvangi, Bakkafirði
Stærð: 84 fermetrar
Byggingarár: 1987
Verð: 4,5 milljónir
Hér er um að ræða ekki eiginlegt einbýlishús heldur parhúsaríbúð úr timbri. Húsið er þó skráð sem einbýli á vef Morgunblaðsins. Íbúðalánasjóður á íbúðina og eru áhugasamir kaupendur hvattir til að skoða hana með fagmönnum og mynda lagnir. Þrjú herbergi eru í húsinu.
Tjarnarholt, Raufarhöfn
Stærð: 109 fermetrar
Byggingarár: 1976
Verð: 3 milljónir
Hér er um að ræða timburhús á Raufarhöfn sem byggt var árið 1976. Húsið er fjögurra herbergja og 110 fermetrar. Sérstaklega er tekið fram að eignin sé í mjög slæmu ástandi og þarnist töluverðra endurbóta. Komið er að viðhaldi á gluggum, gleri, útihurðum, timburklæðningu, þaki og þakkanti. Þá eru gólfefni og innréttingar léleg eða ónýt. Rakaskemmdir eru víða í eign.