Líkt og við sögðum frá í lok september kepptu minnst sex íslenskar konur um að verða forsíðustúlka karlablaðsins Maxim. Um er að ræða alþjóðlega keppni þar sem sigurvegarinn fær að launum 25 þúsund dollara og verður forsíðustúlka tímaritsins.
Af þessum sex standa fjórar þeirra eftir meðal fimm efstu í sínum hópi, það eru fyrirsæturnar Aníta Ösp Ingólfsdóttir, Bryndís Líf, Hulda Lind Kristins og Tanja Rós Viktoríudóttir.
Hinar tvær komust ekki áfram, María Birta lenti í 9. sæti í sínum hópi og Svanhildur Hjaltadóttir lenti í 17. sæti í sínum hópi (sama og Tanja Rós er í).
Í byrjun voru hóparnir 144 og þar af 29 alþjóðlegir hópar sem íslensku stúlkurnar kepptu í. Almenningur kýs hverjar komast áfram og fyrst voru valdar 30 efstu í hverjum hóp, síðan 20 efstu, 10 efstu og að lokum 5 efstu. Núna snýst kosningin um að velja eina í hverjum hópi og stendur kosning til 25. október.
Næst tekur við kosning milli þeirra efstu í hverjum hópi auk 24 „wild card“ keppenda sem samanstanda af þeim 144 konum sem lenda í öðru sæti í kosningunni sem nú stendur yfir. Þeim verður síðan skipt í 12 hópa með 14 konum í, þar sem ein verður kosin í hverjum hópi og munu þær 12 sem eftir standa 8. nóvember keppa um sigur.
Til mikils er að vinna í keppninni en sigurvegarinn verður myndaður af ljósmyndaranum Gilles Bensimon og mun prýða forsíðu fyrsta tölublaðs næsta árs. Þá fær sigurvegarinn 25 þúsund dollara, rúmlega 2,7 milljónir íslenskra króna í verðlaunafé.
Tímaritið Maxim var stofnað í Bretlandi árið 1995 og er í dag gefið út í 76 löndum um allan heim. Meðal þeirra sem prýtt hafa forsíðu blaðsins eru þær Britney Spears, Hilary Duff, Anna Kournikova og Lindsay Lohan.
Kjósa má stúlkurnar hér: Aníta Ösp, Bryndís Líf, Hulda Lind og Tanja Rós.