Menningarverðlaun DV voru veitt við hátíðlega athöfn í gær í höfuðstöðvum Frjálsrar fjölmiðlunar við Suðurlandsbraut. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Í þetta skiptið voru verðlaunin veitt í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna og lesendaverðlauna.
Þá voru einnig afhent verðlaun þeim sem fékk flest atkvæði meðal almennings í netkosningu þar sem almenningi gafst kostur á að velja úr hópi allra þeirra sem tilnefndir voru í öllum flokkum.
Í flokknum fræðirit fékk Steinunn Kristjánsdóttir verðlaunin fyrir verkið Leitina að klaustrunum.
Í umsögn dómnefndar sagði:
Leitin að klaustrunum er glæsilegt verk þar sem gerð er ítarleg grein fyrir rannsóknum höfundar og aðstoðarmanna hennar á sviði fornleifafræði. Auk lýsinga á vettvangi er vísað til fjölda tiltækra heimilda. Bókin er skrifuð á skýru og aðgengilegu máli og bregður upp lifandi myndum, bæði af sögu klausturhalds á Íslandi og af starfi fornleifafræðinga. Mjög er vandað til útgáfunnar sem prýdd er fjölda mynda, teikninga og korta. Útgefandi: Sögufélag, í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands.