Menningarverðlaun DV voru veitt við hátíðlega athöfn í gær í höfuðstöðvum Frjálsrar fjölmiðlunar við Suðurlandsbraut. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Í þetta skiptið voru verðlaunin veitt í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna.
Þá voru einnig afhent verðlaun þeim sem fékk flest atkvæði meðal almennings í netkosningu þar sem almenningi gafst kostur á að velja úr hópi allra þeirra sem tilnefndir voru í öllum flokkum.
Sigurvegarar netkosningar voru Ragnar Bragason, Margrét Örnólfsdóttir, Unnur Ösp Stefánsdóttir og Nína Dögg Filippusdóttir fyrir sjónvarpsþáttaröðina Fangar.
Fangar sópuðu til sín verðlaunum á síðustu Edduhátíð og er það engin furða. Leikarahópurinn var sterkur, handritið beitt og Ragnar Bragason gætti þess að gefa öllum rými til að njóta sín. Í þáttunum sýndi Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir einnig að hún er ein okkar fremsta leikkona.