Menningarverðlaun DV voru veitt við hátíðlega athöfn í gær í höfuðstöðvum Frjálsrar fjölmiðlunar við Suðurlandsbraut. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Í þetta skiptið voru verðlaunin veitt í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna.
Þá voru einnig afhent verðlaun þeim sem fékk flest atkvæði meðal almennings í netkosningu þar sem almenningi gafst kostur á að velja úr hópi allra þeirra sem tilnefndir voru í öllum flokkum.
Í flokknum bókmenntir fékk Eiríkur Örn Norðdahl verðlaun fyrir Óratorrek. Í umsögn dómnefndar segir:
Óratorrek: ljóð um samfélagsleg málefni, er óþægilega skemmtileg og skemmtilega óþægileg bók sem sækir innihald sitt í þann flaum skoðana og viðbragða við nútímanum sem við syndum og hrærum öll í. Eiríkur Örn Norðdahl vinnur á spennandi hátt með persónulega leið til að binda mál sitt. Endurtekningar, viðsnúningar, tilbrigði og viðlög halda textunum saman, lauslega þó og textinn vinnur vel það verkefni ljóðsins að koma hreyfingu á huga lesandans og fá honum verkefni til úrlausnar.