Menningarverðlaun DV voru veitt við hátíðlega athöfn í gær í höfuðstöðvum Frjálsrar fjölmiðlunar við Suðurlandsbraut. Verðlaunin hafa verið veitt árlega frá árinu 1979 fyrir framúrskarandi árangur á menningarsviðinu. Í þetta skiptið voru verðlaunin veitt í sjö flokkum; leiklist, tónlist, kvikmyndum, myndlist, bókmenntum, fræðiritum og stafrænni miðlun auk sérstakra heiðursverðlauna.
Þá voru einnig afhent verðlaun þeim sem fékk flest atkvæði meðal almennings í netkosningu þar sem almenningi gafst kostur á að velja úr hópi allra þeirra sem tilnefndir voru í öllum flokkum.
Í flokknum Stafræn miðlun sigraði söngkonan Björk Guðmundsdóttir.
Í umsögn dómnefndar sagði:
Björk notar stafræna miðla til fulls og hrífur notanda með sér á fallegan og tæran hátt. Hún nýtir alla anga tækninnar til að koma list sinni á framfæri, sem og tengdum verkefnum. Hún vekur áhuga á listsköpun sinni og þeirri sýn sem hún hefur á veröldina.