fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Elín Sif kynnti sér grimman heim eiturlyfjafíkilsins: Kláraði stúdentinn og tökur á sama tíma

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 19. ágúst 2018 15:17

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Elín Sif Halldórsdóttir bíður spennt eftir frumsýningu kvikmyndarinnar Lof mér að falla. Þar fer hún með hlutverk Magneu, fimmtán ára stúlku sem flækist í veröld fíkniefna og undirheima. Þetta hlutverk hefur reynst Elínu gríðarleg áskorun og hefur hún varað afa sinn við því að horfa á lokaafraksturinn.

Blaðamaður DV ræddi við Elínu um áhugasvið hennar, brautina fram undan, erfiðar raunir og hvar hjartað liggur hjá ungri listakonu með allan heiminn og ferilinn frammi fyrir sér.

Árið 2015 lenti Elín í 3. sæti í Söngvakeppni Sjónvarpsins með laginu Í kvöld, en textann og lagið samdi hún sjálf. Síðan þá hefur hún meðal annars unnið Söngkeppni framhaldsskólanna árið 2016 ásamt hljómsveitinni Náttsól.

Einnig gaf hún út lag í sumar sem ber heitið Make You Feel Better og í september verður sannsögulega dramað Lof mér að falla frumsýnt. Myndin er úr smiðju Baldvins Z og fer Elín þar með annað burðarhlutverkið, sem er jafnframt fyrsta kvikmyndahlutverk hennar. Fyrir hafði hún sést í heimildamyndinni Out of Thin Air, um Geirfinnsmálið, ásamt þriðju seríu sjónvarpsþáttarins Rétti, sem Baldvin Z kom einnig að.

„Ég ætlaði bara að fara af fullu afli í tónlistarbransann, en stundum fer lífið í aðrar áttir en maður býst við. Ekki að ég sé að kvarta, en það var klárlega mjög óvænt að detta í leiklistina,“ segir Elín og rekur söguna af því krefjandi verkefni sem hennar beið, en það er heimur hinnar saklausu en áhrifagjörnu Magneu.

Gerði ráð fyrir misskilningi

Í kvikmyndinni kynnist Magnea hinni átján ára Stellu og þróar sterkar tilfinningar til hennar. Stella sér hrifningu hennar og sakleysi sem kjörna leið til þess að notfæra sér hana. Þá leiðir hún Magneu inn í grimman heim fíknarinnar hvaðan sem ekki er víst að verði aftur snúið. Myndin markar jafnframt fyrsta leikhlutverk Eyrúnar Bjarkar Jakobsdóttur, sem túlkar Stellu.

„Baldvin henti okkur Eyrúnu alveg á kaf í djúpu laugina, til að reyna að skilja þennan heim sem einkennir fíkilinn,“ segir Elín um undirbúningsferlið.

„Við lásum margar átakanlegar reynslusögur fólks og töluðum við margar stúlkur sem höfðu verið í neyslu eða þekktu einhvern. Fyrir verkefnið hafði ég rosa litla þekkingu á þessum heimi og ástandinu sem raunverulega á þessum hluta samfélagsins, hérna á Íslandi. Þær sögur sem ég heyrði bæði frá Baldvini og fólki sem hafði reynslu af þessum heimi voru margar svo grimmar að ég hefði áður ekki trúað því að þetta fyndist hérna. Ég held þó að það hafi setið mest í mér eitt sem Baldvin sagði við mig; að hver sem er, hver sem er getur fallið í greipar fíkninnar. Fíknin spyr ekki um gáfur eða hæfileika. Það var hátt í ár sem fór bara í að skilja um hvað myndin var og hvernig við ættum að nálgast þetta. Við höfðum aldrei leikið í heilli bíómynd og fyrir okkur tvær virkaði þetta mjög langsótt verkefni í byrjun. Við höfðum enga þekkingu á þessu fyrir.“

Leið Elínar að leiklistinni kom, að hennar sögn, í gegnum tónlistina. Baldvin Z hafði tekið eftir henni í Söngvakeppninni og fengið hana fyrir sjónvarpsþættina Rétt strax í kjölfarið, en þarna kom tækifæri sem hún var í fyrstu ekki viss um hvernig ætti að taka.

„Þegar ég var kölluð í þessar prufur, hélt ég að sumir væru bara eitthvað klikkaðir að fá mig inn. Ég hafði ekki leikið neitt og bjóst alltaf við einhverjum stórum misskilningi. Ég hafði aldrei fengið neina leiklistarþjálfun eða neitt slíkt,“ segir Elín, en á þeim tíma vöknuðu smám saman hjá henni grunsemdir um að rullan í Rétti hafi verið til þess að „testa“ hana. „Hann sagðist vera með kvikmynd á teikniborðinu sem ég myndi að öllum líkindum fá prufu fyrir. Svo hefur þetta gengið upp einhvern veginn.“

Fíknin sigrar allt

Ljósmynd: DV/Hanna

Í viðtali við Fréttablaðið segir Baldvin Z að markmiðið með Lof mér að falla hafi verið að skapa raunsæja tilfinningu sem fylgir því að vera aðstandandi fíkils. „Það eru svo mikil vonbrigði og sorg í kringum þetta. Maður fer að spyrja sig: Hvað með foreldrana?“ segir Baldvin.

„Það er mjög áhugavert að reyna að skilja þann part, með fjölskyldutengslin. Sumir hugsa kannski: „Hvernig gastu leyft barninu þínu að fara þangað?“ En það er ekki spurningin. Spurningin er: Hvernig ætlarðu að bjarga barninu þegar það er komið þangað? Þetta er algjörlega ekki í þínum höndum. Fíknin er eitt sterkasta niðurbrotsaflið sem við höfum. Hún sigrar allt. Þú verður svo eigingjarn þegar þú ert í fíkninni, tilbúinn að fórna öllu fyrir alla. Ástin er einnig gríðarlega sterkt afl sem er á hinum pólnum, en þetta er saga um það þegar fíknin sigrar ástina.“

Leikstjórinn segir að foreldrar leikaranna hafi eðlilega spurt sig: „Af hverju ertu að segja svona sögur?“ og því svaraði hann einfaldlega: „Af hverju ekki?“

Spurð að því hvort hún kvíði því að sýna foreldrum sínum myndina svarar Elín neitandi. „Mamma og pabbi lásu bæði handritið og í allra erfiðustu senunum var mamma með mér á setti. Þau verða bara að eiga það við sig ef þeim finnst erfitt að horfa á hana, en ég held að þau viti alveg við hverju er að búast. En hins vegar er ég búin að segja afa mínum að hann fái ekki að sjá hana,“ segir hún og hlær.

Raddirnar í hausnum

„Ég held að það sé gaman fyrir alla leikara að fá eitthvað krefjandi,“ segir Elín aðspurð hvernig viðbrögð hennar hafi verið þegar henni bauðst hlutverk Magneu. „En fyrir mig, þegar ég var að hugsa mig um, hvort ég ætti að þiggja hlutverkið, þá komu báðar raddirnar; já, þetta verður rosalega erfitt og ég er að fara að setja mitt andlit og minn líkama í Magneu í risastórri bíómynd. Slíkt er ekkert grín, enda er maður að fórna andliti sínu í einhvern tíma.

En á hinn bóginn var önnur rödd sem hugsaði: ég er aldrei að fara að afþakka þetta hlutverk. Mig langaði of mikið til þess að gera þetta. Það hjálpaði líka til hversu vel er talað um Baldvin og meira að segja var fullyrt við móður mína að ég væri í öruggum og góðum höndum hjá honum. Hún þurfti ekki að hafa miklar áhyggjur.“

Elín segir að það hafi einnig hjálpað gríðarlega að hafa Eyrúnu samferða sér í ferlinu, ekki síst vegna þess að hún hafði ekki heldur unnið við kvikmynd í fullri lengd eða tekið að sér svona stórt hlutverk. „Við áttum yfirleitt svipað erfiðar senur og gengum í gegnum þetta allt mjög samstíga. Við gátum alltaf leitað til hvor annarrar, það þótti mér mjög dýrmætt. Við munum alltaf eiga þetta mjög stóra verkefni saman. Þessa reynslu og minningarnar.“

„Svo farið þið í sleik núna, er það ekki í lagi?“

Samkvæmt tímalínunni var Elín ráðin á undan Eyrúnu, en hún segir að það hafi verið til þess að persónan Magnea gæti verið viðstödd hjá öllum þeim sem sóttust eftir hlutverki Stellu.

„Ég sat inni á öllum þeim prufum, til þess að geta skoðað kemistríuna á milli mín og tilvonandi Stellunnar. Baldvin vildi ekki ráða neina leikkonu í þetta sem mér hefði ekki fundist 100% þægilegt að vera í kringum. Hann sá eitthvað í Eyrúnu Björk sem honum fannst vera svipað mínu viðhorfi, útliti og eða hvernig ég tjái mig. Hann sá eitthvað sameiginlegt þarna,“ segir Elín.

Þegar Eyrún gekk fyrst inn í prufu kannaðist Elín samstundis við hana. Þær voru saman í grunnskóla og Eyrún er ári yngri, þrátt fyrir að persónan í myndinni sé þremur árum eldri en Magnea.

„Það var allt mjög fyndið þegar hún kom í prufuna og svo sagði Baldvin mjög vingjarnlega: Já, svo farið þið núna í sleik, er það ekki í lagi?“ En það var bara fallegt,“ segir Elín hress.

Jafnframt tekur Elín fram að heilmikið traust ríki á setti á milli leikstjórans og leikara hans. „Hér höfum við Baldvin, mann á fimmtugsaldri, en mér leið oft og tíðum eins og hann væri jafnaldri minn. Það er ekki lítil orka í honum og þú getur talað við hann um allt og hann er alltaf tilbúinn að ræða um allt í þaula áður en þú mætir á sett. Þú veist alltaf við hverju þarf að búast,“ segir hún.

„Ég hef reyndar ekki unnið með mörgum leikstjórum en miðað við það sem ég hef heyrt get ég skrifað undir að það er aldrei óþægilegt að vera með honum á setti. Mér fannst ég líka alltaf vita hvað hann vildi fá frá mér og út úr myndinni. Manni leið aldrei eins og einhverjum illa gerðum aukahlut á settinu, heldur fengum við að vera með í sköpunarferlinu.“

Ljósmynd: DV/Hanna

Skvísutímabil og stælar

Elín segir leikstjórann hafa útbúið mikið af Spotify-lagalistum til þess að hvetja leikara sína áfram og koma þeim í rétt hugarfar. Einhver af þeim lögum eru notuð í lokaútgáfu myndarinnar en leikkonan vill einnig meina að þetta hafi verið gert til þess að sýna hvar Magnea væri stödd í lífinu. Í kvikmyndagerð er fátt sjálfsagðara en að senur og kaflar séu teknir upp í ólínulegri tímaröð og það ferli þurfti ákveðna aðlögun.

„Við Eyrún bjuggum til okkar eigin „playlista“ til þess að tímasetja okkur alltaf betur og vita á hvaða tímabili við værum staddar, en í myndinni eru í kringum fjögur eða fimm mismunandi skeið sem við sjáum í lífi persónunnar. Þetta eru líka allt afar ólík tímabil,“ segir Elín.

„Maður fékk hárkollu og allt öðruvísi farða fyrir hvern kafla. Það er eitt ákveðið skvísutímabil sem hún tekur, svona hálfgert skinkutímabil, og svo um leið og það „lúkk“ var sett á mig þá var ég komin í gírinn. Þá var ég komin með stæla og leið eins og ég ætti heiminn og allt saman,“ segir hún kát.

Spurð að því hvernig einstaklingur Elín er, blæs hún það af að vera svokölluð skvísa og lýsir sér sem mjög listrænni týpu, með mikla sköpunarþrá sem og þorsta fyrir sköpunarferli eins og það leggur sig. „Ef ég missi eitthvert eitt verkefni úr höndunum þá þarf ég að finna mér annað,“ segir hún og segist enn vera með áætlun um að sinna tónlistinni og tónsmíðum, þennan vetur sérstaklega.

Hvatning í keyrslunni

„Ég er mjög veik fyrir indí-tónlist og sérstaklega fólki sem gerir mikið úr einhverju minimalísku. Einlægt fólk með kannski eitthvert hljóðfæri og syngur um eitthvað sem er alvöru og reynir ekki að semja einhverja formúlu sem auðvelt er að hlusta á,“ bætir hún við. „Það talar meira til mín þegar eitthvað kemur beint frá hjartanu. Ég skil fullkomlega þegar fólk semur lög til þess að gera þau grípandi, fjörug eða fyrir útvarp, en það er bara allt annar heimur og hentar mér ekki eins mikið eins og er.“

Í upptalningu á áhugamálum sínum segist Elín hafa fengið þá spurningu hvaða ástríðu hún hafi sem tengist hvorki leiklist né tónlist, en svarið við því var einfalt. „Það eru ekki mörg áhugamál sem ég hef út fyrir þessi svið,“ segir hún og tekur fram að ein ástæða þess að fara af fullum krafti í tónlistina aftur sé ekki eingöngu vegna tökutímabilsins, heldur lauk hún stúdentinum á sama ári frá Menntaskólanum í Hamrahlíð.

„Ég kláraði tökur á sama tíma og ég kláraði menntaskólann. Þetta lokaár, með undirbúningi, tökum og útskriftarönninni, var svo sannarlega áskorun og erfitt, en það gekk eins og í sögu,“ segir hún. „Ég held líka að settið og tökuvinnan hafi bara náð að efla mig meira í náminu og hvatt mig áfram. Það vekur mann alveg til lífsins að vera hluti af skapandi vinnu. Og í svona keyrslu þýðir ekkert annað en að harka af sér. Ef maður vill fylgja draumunum sínum þýðir ekkert annað en að gefa sig í öll hundrað prósentin. Það er bara þannig.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Egill Þór er látinn
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dallas-stjarna í heimsókn á Íslandi

Dallas-stjarna í heimsókn á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund

Þetta pöntuðu Íslendingar sér á Wolt á árinu – Dýrasta pöntunin kostaði 136 þúsund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu

Edda gefur töskusafn sitt til styrktar Kvennaathvarfinu
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng

Ólétt örfáum vikum eftir að hafa ættleitt ungan dreng
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þessar bækur eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna

Þessar bækur eru tilnefndar til Íslensku þýðingaverðlaunanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans

Sonur Pamelu Anderson er staðráðinn í því að rústa ranghugmyndum Hollywood um mömmu hans
Fókus
Fyrir 3 dögum

Íslendingar ósáttir – „Bara algjörlega ónýtt drasl og ekki sami jólasjarminn yfir því eins og áður“

Íslendingar ósáttir – „Bara algjörlega ónýtt drasl og ekki sami jólasjarminn yfir því eins og áður“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“

Móðir segir Ísland ekki lengur barnvænt og kallar eftir hugarfarsbreytingu – „Þetta er alvarlegt vandamál. Við þurfum hjálp!“