fbpx
Fimmtudagur 23.janúar 2025
Fókus

Þegar börn drepa: Ari myrti tvö sjö ára börn á Akureyri – „Ég er ábyrgur fyrir dauða barnanna ykkar“

Kristjón Kormákur Guðjónsson, Auður Ösp
Laugardaginn 18. ágúst 2018 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tímavélin:

„Kæra Sólveig og Bjarnheiður. Það sem mig hefur langað að segja er að, já það er rétt að ég átti mjög erfitt sem krakki og já, það hefði átti að grípa inn í mörgum árum fyrr, en það breytir ekki því að ég er ábyrgur fyrir dauða barnanna ykkar. Ég hef aldrei ætlast til þess af neinum að fyrirgefa mér á þeim forsendum að ég hafi átt erfiða æsku, heldur frekar á þeim forsendum að ég er betri maður í dag. Að sjálfsögðu var ég ekki að gera mér grein fyrir nákvæmlega hvað ég væri að gera á þessum tíma, en því eldri sem ég varð því meira rann upp fyrir mér alvarleiki þess.“

Þannig hljómar brot úr opnu bréfi sem Ari sendi Bjarnheiði Ragnarsdóttur og Sólveigu Bragadóttur árið 2014 í kjölfarið á ítarlegri umfjöllun Pressunnar það sama ár. Ari var tíu ára þegar hann myrti syni þeirra, þá Hartmann Hermannsson og Bjarmar Smára Elíasson. Þeir voru sjö ára gamlir þegar hann henti þeim með árs millibili út í Glerá á Akureyri. Þeir drukknuðu báðir í ánni. Áttu þessir hryllilegu atburðir sér stað á árunum 1989 og 1990.

Pressan fjallaði ítarlega um málið árið 2015. Voru viðtöl tekin við Sólveigu og Bjarnheiði. Þá tjáði morðinginn sig sjálfur um voðaverkin. Einnig var rætt við fleiri sem komu að málinu. Gerandinn sem heitir Ari, ekki var birt fullt nafn, átti síðan eftir að skrifa opið bréf og biðja konurnar afsökunar á að hafa myrt syni þeirra.

Drengirnir hverfa

Morðin á Bjarmari og Hartmanni eru einhverjir þeir sorglegustu og óhugnanlegustu atburðir sem átt hafa sér stað á Íslandi í seinni tíð. Bjarmar drukknaði í ánni í byrjun júní 1989. Í fyrstu var gengið út frá því að um slys hefði verið að ræða. Tæpu ári seinna, í apríl 1990, drukknaði Hartmann litlu neðar í ánni. Drengirnir voru eins og áður segir báðir sjö ára þegar þeir létust.

Fljótlega eftir seinna dauðsfallið vöknuðu grunsemdir um að ekki væri allt með felldu og hugsanlega væru tengsl á milli dauðsfallanna. Fljótlega beindist grunur að ungum pilti sem vitni höfðu séð nálægt slysstaðnum í bæði skiptin. Gerandinn var tíu og ellefu ára þegar hann henti þeim Bjarmari og Hartmanni út í ána. Hægt hefði verið að koma í veg fyrir seinna morðið en ungur piltur, Bragi Bragason, var skólafélagi Ara og sagði hann lögreglu að Ari hefði trúað honum fyrir því að hann hefði kastað dreng í Glerá. Bragi var hins vegar vandræðapiltur ef svo má að orði komast og tóku yfirvöld ekki mark á honum.

„Ég ákvað þá að segja þeim frá því sem hann hafði sagt mér, að hann hefði hent Bjarmari í ána. Þá var bara hlegið að því líka. Það var ekki tekið mark á neinu sem ég sagði þarna,“ sagði Bragi.

Ekki var fjallað að ráði opinberlega um þennan skelfilega harmleik svo ægilegur þótti hann. Í Ísland í aldanna rás er atburðarásinni gerð skil. Í byrjun júní árið 1989 fór Bjarmar ásamt tveimur eldri drengjum niður að ánni. Þar henti Ari Bjarmari í ána. Tæpu ári síðar drukknaði Hartmann litlu neðar í Glerá. Enginn vitni voru að þeim harmleik en þó spurðist fljótt út að Hartmann hefði sést með Ara og var viðstaddur þegar Bjarmar drukknaði. Það þótti vart geta verið tilviljun að eldri drengurinn, Ari, hefði tvisvar orðið vitni að drukknun smádrengja af hreinni slysni. Ari var yfirheyrður og viðurkenndi að bera ábyrgð á dauða Bjarmars og Hartmanns.

Gísli Guðjónsson kom að máli Ara

Ari beittur ofbeldi

Ari var snemma beittur skelfilegu ofbeldi. Ofbeldið var svo hryllilegt að vart er hægt að setja það á prent. Sjálfur vildi Ari ekki fara í saumana á því þegar hann settist á móti blaðamanni öllum þessum árum síðar.

„Ég sækist ekki eftir vorkunn,“ sagði Ari þegar hann var spurður um uppeldið og misþyrmingarnar sem hann varð fyrir. „Ég varð fyrir mjög grófu líkamlegu og andlegu ofbeldi á heimili mínu og þá sérstaklega af stjúpa mínum. Ofan á það bættist kynferðisleg misnotkun stjúpa míns og fleiri einstaklinga sem í dag hefur enn áhrif á mig. Móðir mín átti sjálf mjög erfitt á þessum tímum og hafði því ekki tök eða getu til þess að styðja mig gegn ofbeldinu“.

Ari fannst oft fáklæddur að næturlagi og ráfandi fjarri heimili sínu. Ástæðan var sú að hann þorði ekki heim til sín. Heima beið stjúpi hans með hnefann á lofti.

Fannst oft fáklæddur

Misnotkunin og ofbeldið hófst áður en Ari varð sjö ára. Í frétt Pressunnar frá 1993 segir að hann hafi oftar enn einu sinni fundist að næturlagi fáklæddur og ráfandi talsvert fjarri heimili sínu. Aðspurður hvernig hafi staðið á því svarar hann: „Ég hafði ekki kjark í mér til að fara heim af ótta við barsmíðar.“

Ástandið á heimili fjölskyldunnar var á margra vitorði en yfirvöld brugðust ekki við. Hann var aldrei fjarlægður af heimilinu. Áður hafði ofbeldishneigð hans gagnvart öðrum börnum ratað inn á borð lögreglu og Félagsmálastofnunar. Ekki þótti ástæða til að grípa í taumana.

Ari var sendur til Reykjavíkur og vistaður á barnageðdeild Landspítalans á Dalbraut í tvö og hálft ár. Hann líkti vistinni á Dalbraut við fangelsi. Eftir það var honum komið fyrir á nýstofnuðu vistheimili, Árbót í Aðaldal, skammt frá Húsavík. Heimilinu var sérstaklega komið á fót til að vista Ara. Var heimilið nokkuð einangrað en þrír kílómetrar voru til næsta bæjar. Þar dvaldi hann til 18 ára aldurs. Á þessum tíma var sjálfræðisaldurinn 16 ár en hann féllst á að vera vistaður á Árbót til 18 ára aldurs. Árbót var rekið af hjónum og komu þau að hans sögn fram við börnin líkt og sín eigin. „Þarna fékk ég í fyrsta sinn eins eðlilegt uppeldi og hlýju eins og hægt var undir þessum kringumstæðum.“ Þegar Ari var 18 ára var gert sálfræðimat á honum. Til verksins var fenginn Gísli Guðjónsson, einn helsti sérfræðingur heimsins á sviði réttarsálfræði. Niðurstaðan var að hann væri ekki hættulegur umhverfi sínu.

„Það hefði átt að grípa inn í fyrr. Það var því miður gert tveimur mannslífum of seint. Með því er ég ekki að afsaka það sem ég gerði, það er ekki hægt, en staðreyndin er sú að eftir að ég komst í réttar hendur og farið var að vinna með fortíð mína náði ég smám saman tökum á sjálfum mér,“ sagði Ari.

Hugsar oft til drengjanna

Hvernig er að lifa með líf tveggja drengja á samviskunni?

„Að hafa tvö líf á samviskunni er mjög erfitt. Það er ekki hægt að lýsa því. Hver sem er náinn mér eða í nánu sambandi við mig þarf að vita sögu mína. Þú getur ímyndað þér hvernig það er fyrir mig að segja fólki sem ég elska að ég hafi drepið börn.“

Í viðtalinu við Pressuna árið 2015 sagðist Ari ekki hafa brotið af sér eftir að hann hélt út í lífið að nýju en fortíðin fylgir honum hvert skref. Hann flutti til Bandaríkjanna í kringum árið 2002. Frá árinu 2008 til 2014 stundaði hann nám sem miðaði að því að aðstoða fólk sem hefur lent í ýmsum áföllum í lífinu, meðal annars heimilis- og kynferðisofbeldi. Sagði hann námið hafa hjálpað honum að takast á við fortíð sína.

„Ég hugsa mjög oft til drengjanna og þess sem ég gerði. Í hvert sinn sem ég les um eða heyri í fréttum að barn hafi látist fæ ég sting í magann,“ sagði Ari og bætti við: „Ég hugsa um þá í hvert skipti sem einhver talar um móðurást. Það versta sem getur gerst í lífinu er að missa barn, og þegar ég heyri af dauðsföllum, þá kemur þessi sára minning upp í hugann. Þetta gerist nánast hvern einasta dag. Oft vildi ég að foreldrarnir og fjölskyldurnar fyrirgæfu mér og ég gæti fundið leið til að fyrirgefa sjálfum mér. En hvernig get ég ætlast til þess þegar ég get ekki ímyndað mér þann sársauka sem ég olli þeim. Ég hugsa stundum hvort ég muni eignast börn, en partur af mér er hræddur við að ég verði fyrir sömu lífsreynslu. Mér finnst ég eiga skilið að upplifa sömu sorg, þess vegna vil ég ekki eiga börn. […]

Ég vona að sá tími komi að allir þeir sem ég olli sársauka fyrirgefi mér. Og að sá dagur renni upp að mér takist að fyrirgefa sjálfum mér,“ sagði Ari og bætti við: „Ég mun alltaf þurfa að lifa með því sem ég gerði. Það er mín refsing.“

Óhollt að dvelja í sorg

Sólveig Austfjörð Bragadóttir er móðir annars drengsins sem lést, Hartmanns Hermannssonar. Í viðtali við Pressuna var hún spurð hvort atburðurinn kæmi upp í huga hennar dagsdaglega. „Auðvitað sakna ég en ég dvel ekki í sorginni. Ég held að það sé engum hollt að dvelja endalaust í fortíðinni,“ sagði Sólveig sem á fimm uppkomin börn, þrjá stráka og tvær stelpur.

„Ástæðan fyrir því að ég hef ekki viljað ræða um þessa atburði við fjölmiðla er sú að ég hef viljað vernda hin börnin mín. Og ég tók þá ákvörðun að á meðan ég væri að ala þau upp þá ætlaði ég ekki að aðhafast meira í þessu,“ sagði Sólveig sem veitti Pressunni fyrsta og síðasta viðtalið um þetta átakanlega mál.

Hartmann fæddist árið 1982. Hann var miðjubarnið í systkinahópnum og var að sögn Sólveigar fyrirferðarmikill frá fyrsta degi. „Ég segi alltaf að ég hafi ekki bara misst eitt barn heldur fjögur. Um leið og hann byrjaði að hreyfa sig og ganga þá þurfti hreinlega að vakta hann. Hann var ör alla daga og gríðarlega orkumikill. Um leið og ég tók augun af honum þá var hann vís til að vera rokinn eitthvað í burtu og það var erfitt að segja til um hverju hann myndi taka upp á næst.“

Sólveig kvaðst þakklát fyrir þann tíma sem hún fékk með syni sínum. „Hann var ótrúlega skemmtilegur karakter. Það er svo gaman að hafa fengið að kynnast honum, og svo lærdómsríkt. Og það vantaði svo sannarlega ekki greindina hjá honum þrátt fyrir að hann léti hafa svona mikið fyrir sér. Þegar honum tókst að beina orkunni í rétta átt þá gekk honum mjög vel að læra.“

Hún á minningu sem hún yljar sér við í dag. „Hann var vanur að horfa upp og segja hvað hann langaði mikið til að fara upp í himininn og til stjarnanna. Það er gaman að hugsa um það núna.“

Allt í móðu

Hartmann Hermannsson sonur Sólveigar

„Ég man vel eftir þessum degi núna en lengi vel var hann algjörlega í móðu,“ sagði Sólveig þegar talið barst að deginum sem Hartmann lést. Það var 2. maí 1990. Hartmann var sjö ára. „Ég fæ símtal frá skólanum þar sem mér er sagt að Hartmann sé týndur og ég spurð hvort ég viti hvar hann gæti hugsanlega verið. Á þessum tíma vorum við nýflutt inn í bæ eftir að hafa búið á Keilusíðu. Ég vissi að hann var vís til að stinga af á gamla staðinn þannig að ég fór þangað að leita að honum en fann hann ekki.“

Leit berst að Glerá

Eftir því sem leið á daginn tóku fleiri þátt í leitinni sem átti að lokum eftir að berast að Glerá. Sólveig rifjar upp þegar hún kom að syni sínum látnum. „Ég keyrði að ánni og sá að þeir voru að slæða. Ég heyrði síðan kallað: „Ég er búinn að finna hann!“ Pabbi minn var kominn að ánni á undan mér og bar kennsl á hann. Ég mátti hins vegar ekki sjá hann. Pabbi kom síðan og settist inn í bíl hjá mér og sagði að best væri að við keyrðum heim. Ég sagði við hann að hann þyrfti ekki að segja mér neitt. Ég vissi hvað hefði gerst.“

„Mér leið eins og ég væri í bíómynd. Mér leið eins og ég færi út úr líkamanum, stæði þar fyrir utan og væri áhorfandi að öllu því sem væri að gerast. Skyndilega gerðist allt svo hægt. Ég fraus og fannst ég ekki hafa stjórn á neinu.“

Fær að vita seinna hvaða öfl voru að verki

Hartmann var jarðaður tólf dögum síðar. „Ég held að mannshugurinn sé þannig að hann skammtar okkur eins miklu og hann þolir hverju sinni,“ sagði Sólveig. Hún segist ekki bera kala til drengsins. „Ég kenndi þessum strák aldrei um þetta. Ég hef alltaf litið á það þannig að hann hafi fyrst og fremst verið óskaplega veikur. Ég var aldrei reið út í hann. Ég lít svo á að hann hafi fengið sinn dóm.“

Sólveig var ákveðin að láta ekki biturleika og reiði ná tökum á sér. „Ég horfði upp á manneskjur gjörsamlega eyðilagðar af sorg, bitrar og reiðar út í allt og hugsaði: „Nei, svona ætla ég ekki að vera.“ Sólveig bætti við: „Eftir að Hartmann dó sagði fólk við mig hvað Guð væri vondur að taka hann svona snemma. Ég held að þarna hafi verið fleiri öfl að verki. Ég býst við að fá vita hvaða öfl það eru þegar ég dey. Lífið býður ekki upp á öll svörin. Það eina sem við vitum fyrir víst í þessu lífi er að við eigum eftir að deyja.“

Síðasta máltíðin var Cheerios og ristað brauð

Bjarnheiður Ragnarsdóttir er móðir móðir Bjarmars Smára Elíassonar. Þegar Pressan ræddi við hana sagði hún erfitt að losna við reiðina og hatrið í garð Ara.

Hún man hvert einasta smáatriði varðandi daginn sem Bjarmar lést. Hún man hvað hann borðaði þennan dag: Cheerios og ristað brauð.

Hún þekkti til Ara sem seinna um daginn átti eftir að verða syni hennar  að bana. Hann var fjórum árum eldri en Bjarmar. „Ég hafði einu sinni hitt hann áður. Það var nokkrum vikum áður en þetta gerðist. Hann kom hingað heim og bað um að fá að taka Bjarmar með sér að hitta frænda sinn. Ég sagði honum að hann yrði þá að passa Bjarmar því hann var svo lítill. Hann lofaði öllu fögru og ég man hvað hann leit út fyrir að vera sakleysislegur og meinlaus. Hann var svo saklaus að þú getur ekki ímyndað þér það.“

Úrið gekk enn

Seinasta myndin sem tekin var af Bjarmari. Hún var tekin daginn áður en hann dó.

Þetta var seinasta skiptið sem hún sá son sinn á lífi: „Hann var alltaf svo samviskusamur. Hann tók úrið hans Óla fósturföður síns og setti það á sig. Hann ætlaði að vera viss um að koma heim á réttum tíma,“ rifjaði hún upp. „Þegar hann síðan fannst  um nóttina, eftir að hafa verið í ánni í allan þennan tíma, þá gekk úrið enn þá.“ Um kvöldmatarleytið renndi lögreglubíll í hlað hjá heimilinu. Lögreglumaður tilkynnti fjölskyldunni að Bjarmar hefði dottið í Glerá. Snemma um nóttina bankaði prestur upp á hjá fjölskyldunni. Lík Bjarmars hafði fundist í ánni. „Ég sagði: „Nei, það getur ekki verið. Það hrundi allt á þessu augnabliki. Gjörsamlega.“

Bjarnheiður sá Ara sem myrti son hennar í nokkur skipti eftir að hann losnaði af vistheimilinu. „Nokkrum árum síðar las ég grein sem hann skrifaði í Morgunblaðið um sveitarstjórnarmál. Ég klippti út myndina af honum og á hana enn þá. Mér var síðan allri lokið þegar ég var að horfa á Djúpu laugina á Skjá einum eitt kvöldið og sá að hann var þátttakandi þar. Mér blöskraði rosalega þegar ég sá hann vera að trana sér svona fram í fjölmiðlum.“

Barnavernd og Félagsmálastofnun kunnugt um vandræði Ara

Áður en voðaverkin áttu sér stað hafði borið á ofbeldishneigð hjá Ara. Einkum höfðu börn orðið fyrir barðinu á honum. Hafði Ari verið kærður fyrir að misþyrma sex ára barni og rataði það inn á borð lögreglu og var að lokum vísað til Félagsmálastofnunar.

Ari bjó fyrst á Akureyri en síðar flutti fjölskyldan til Hafnarfjarðar. Árið 1988, þegar Ari var tíu ára, flutti fjölskyldan aftur norður til Akureyrar. Nokkur mál tengd honum höfðu þá þegar komið inn á borð félagsmálaráðs og Barnaverndar bæði í Hafnarfirði og á Akureyri en ekki var gripið í taumana.

Ólafur Ásgeirsson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, stjórnaði leitinni

Afi Hartmanns stóð við hlið Ólafs þegar hleypt var úr stíflunni

Ólafur Ásgeirsson, fyrrverandi aðstoðaryfirlögregluþjónn á Akureyri, stjórnaði leitinni að Bjarmari Smára Elíassyni og Hartmanni Hermannssyni. Ólafur sat einnig í félagsmálaráði í tvö kjörtímabil. Aðspurður hvort honum væri kunnugt um að Ari væri beittur ofbeldi á heimili sínu sagði hann: „Á þessum árum fengum við oftar fjárhagsvandræði fjölskyldna inn á borð til okkar í félagsmálaráði. Ofbeldi á heimilum lá mikið í þögninni eða voru þögguð niður.“

Um leitina að drengjunum sagði Ólafur: „Við hleyptum úr stíflunni. Þá fundum við Hartmann. Ég man þegar hann fannst. Afi hans stóð við hliðina á mér á bakkanum. Hann var kunningi minn. Þá rann upp fyrir mér að ekki var allt með felldu. Þetta reyndist mér erfitt. Ég þekkti persónulega vel fólkið sem átti drengina sem dóu. Þetta tekur alltaf á, sérstaklega þegar um börn er að ræða en lögreglumenn reyna að brynja sig frá þessu.“

Áin ekki vandamálið

Harmleikurinn hafði djúp áhrif á Akureyri. Hafin var undirskriftasöfnun og vildi hluti bæjarbúa að Glerá yrði girt eða sett í stokk.

„Það var ekki áin sem var vandamálið. Það þarf að vinna með fólkinu og inni á heimilunum. Það þýðir ekki að fara og girða ána eða setja hana í stokk. Fólk ætlaði að byrja á kolvitlausum enda,“ sagði Ólafur og bætti við að hann hefði glaðst fyrir hönd Ara þegar hann uppgötvaði nokkrum árum síðar að hann hefði náð nokkrum bata. „Slíkt gleður alltaf lögreglumenn að fá góðar fréttir af fólki sem hefur átt erfitt uppdráttar í lífinu. Þá er skálað í kaffibolla, ekki ósvipað og að við værum að ná árangri í starfi.“

Ari stígur fram

Eftir ítarlega umfjöllun Pressunnar, sem aðeins hefur verið birt brot úr í Tímavélinni á DV, steig Ari fram og birti opið bréf til Sólveigar og Bjarnheiðar. Þar velti Ari fyrir sér hvort umfjöllunin hefði haft áhrif til góðs. Sagði Ari sjálfur að það hefði tekið á að lesa viðtölin við þær.

„Það er að sjálfsögðu skiljanlegt að það sé enn mikil reiði í minn garð og þá sérstaklega frá þér Bjarnheiður. Þá er oft gott að geta tjáð sig á opinberum vettvangi þar sem samúð og samhygð fylgir. En kannski er eitthvað meira sem vantar. Eftir að ég las allar greinarnar þá fann ég ekkert nema sorg inni í mér. Það var margt sem kom fram hjá ykkur báðum um hvernig líf ykkar hefur verið eftir þessa atburði, og eins og fyrr kom fram þá hefur Sólveig getað unnið úr sinni sorg í gegnum árin og fundið frið í sínu hjarta en Bjarnheiður glímir enn við mikla sorg og reiði,“ sagði Ari í bréfi sínu.

„Það sem mig hefur langað að segja er að, já það er rétt að ég átti mjög erfitt sem krakki og já, það hefði átti að grípa inn í mörgum árum fyrr, en það breytir ekki því að ég er ábyrgur fyrir dauða barnanna ykkar. Ég hef aldrei ætlast til þess af neinum að fyrirgefa mér á þeim forsendum að ég hafi átt erfiða æsku, heldur frekar á þeim forsendum að ég er betri maður í dag. Að sjálfsögðu var ég ekki að gera mér grein fyrir nákvæmlega hvað ég væri að gera á þessum tíma, en því eldri sem ég varð því meira rann upp fyrir mér alvarleiki þess.“

Sólveig Austfjörð

Þessi tími var ekki bara erfiður fyrir mig, heldu báru þessir atburðir mikla skömm í garð fjölskyldu minnar á marga vegu. Auðvitað hefði einhver átt að hafa samband við ykkur og votta þá samúð sem þið áttuð skilið. Ég get líka skilið hvers vegna enginn hafði kjark í sér til þess, hvað getur manneskja sagt í svona tilfellum sem gerir ekki illt verra?

Það sem hefur ekki komið almennilega fram hingað til er að ég vil votta ykkur og ykkar fjölskyldum samúð og ég tala fyrir hönd minnar fjölskyldu líka. Einnig vil ég frá mínu hjarta biðjast fyrirgefningar á þessum hörmulegu atburðum. Það er mér að kenna að drengir ykkar eru ekki með ykkur lengur og engin réttlætanleg skýring á hvers vegna ég gerði þetta. Ég skil vel ef það er langt í þá fyrirgefningu hjá sumum. Jú, tíminn læknar kannski, en það eru djúp ör. Ef hluti af minni refsingu er að lesa greinar um þá sorg sem hrjáir ykkur á nokkurra ára fresti og sem fjölmiðlar vilja birta sem spennandi efni, og sumt fólk vilji kannski ekki umgangast mig eða vera tengt mér, ég litinn hornauga eða ég muni aldrei geta flutt heim og stundað vinnu af ótta að vera dæmdur af þjóðfélaginu, þá er það ekki nema brot af þeim sársauka sem þið hafið þurft að fara í gegnum og ég mun taka því.“

Bjarmar

Bjarnheiður Ragnarsdóttir

„Það gleður mig mikið Bjarnheiður að þinn sonur hafi komist á réttan kjöl í lífinu og að nú eigir þú barnabörn sem lýsa upp líf þitt, þótt það sé ekki það sama, þá kannski sýnir það að fólk getur breyst og náð bata. Það er mín von að einn dag finnir þú langþráðan frið í hjarta þínu og jafnvel hafir það í þér að fyrirgefa mér. Einnig vil ég segja þér Sólveig að það er ómetanlegt að vita að þú hafir fyrirgefið mér.

Þessir atburðir gleymast aldrei enda eiga þeir ekki að gera það, en ég samt vona að einn góðan veðurdag getum við lagt þessa fortíð til hinstu hvíldar og litið framávið.

Kveðja,

Ari.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi

Er steinhissa á því sem hann sér aftur og aftur á Íslandi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir

Einkaspæjari afhjúpar nýja leið hvernig makar fela framhjáhald – Forrit sem er í öllum iPhone símum og vekur engar grunsemdir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“

Tímamót hjá Helga Ómars – „Af einhverjum óútskýranlegum ástæðum er það rétt“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“

Hera Björk varð fyrir hatrammri aðför: „Þetta var í hundraðatali og endaði í þúsundatali og var augljóslega skipulagt“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina