fbpx
Miðvikudagur 22.janúar 2025
Fókus

Ævar Þór: „Þegar mistökin eiga sér stað verður þú að læra af þeim“

Tómas Valgeirsson
Mánudaginn 13. ágúst 2018 10:15

Ljósmynd: DV/Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Frá sex ára aldri átti Ævar Þór Benediktsson þann draum að gerast leikari. Þann draum fékk hann uppfylltan með meiru og er, ásamt mörgum heitum, orðinn einn vinsælasti höfundur Íslands. Eins og lengi hefur tíðkast eru mörg járn í eldinum hjá Ævari og á næstunni bíða hans stærri verkefni en hann hefur áður fengist við.

Ekki er nóg með að bókafjöldi hans verði kominn langt yfir fyrsta tuginn fyrir lok ársins, heldur vinnur hann hörðum höndum við metnaðarfulla leiksýningu og sjónvarpsþáttaröð af stærðargráðu sem á sér ekkert fordæmi á klakanum, en þess á milli tekst hann á við sitt mikilvægasta hlutverk, sem skákar öllum öðrum: hlutverk hins nýbakaða foreldris.

Ævar var ekki lengi að fanga athygli almennings þegar hann landaði stóru aukahlutverki í sjónvarpsþáttaröðinni Dagvaktinni fyrir tíu árum. Þar lék hann hinn feimna en hjartahlýja Óðin, ástmann Georgs Bjarnfreðarsonar, en hlutverkið barst honum í hendur eins og þruma úr heiðskíru lofti á þeim tíma. Þá var Ævar á þriðja ári í leiklistarnámi LHÍ og bjóst seint við því að fá stórt hlutverk vegna framkomubanns í skólanum. Þótti honum það vera besti tíminn til þess að fá sér spangir, en hann hafði ýtt því á undan sér í mörg ár.

„Það fyrsta sem ég heyrði þegar ég var nýkominn með spangirnar var að framkomubanninu hefði verið aflétt og við mættum taka við hverju sem okkur byðist. Eftir að hafa hugsað smástund að enginn myndi vilja ráða mig, þá fékk ég þetta hlutverk og þá kom einnig í ljós að karakterinn hentaði mjög vel,“ segir Ævar. „Ég er mjög ánægður að þetta tímabil í mínu lífi hafi verið skrásett jafn vel og raun ber vitni.“

 

Ástin kviknaði við fjarveru Stebba Hilmars

Nokkrum árum eftir sýningu og velgengni Dagvaktarinnar kynntist Ævar sinni heittelskuðu, Védísi Kjartansdóttur, sem hann trúlofaðist í fyrra. Þau hafa verið saman í átta ár og voru örvar Amors farnar að hitta mark þegar Ævar, nýútskrifaður úr leiklistardeild Listaháskólans, lék í sýningu sem Védís stóð að ásamt vinkonum sínum, þeim Berglindi Festival, Ásrúnu Magnúsdóttur og Rósu Ómarsdóttur en saman skipuðu þær sviðslistahópinn Hnoð. „Védís bjó úti í Brussel á þessum tíma og var að læra dans í P.A.R.T.S-dansskólanum en kom heim yfir sumarið. Þær vinkonurnar í Hnoð settu upp mjög súra og skemmtilega sýningu sem hét Snoð,“ segir Ævar.

„Þær vildu reyndar fá Stebba Hilmars í sýninguna til að koma og syngja lagið Ekkert breytir því. Hann var upptekinn, þannig að þær hringdu í mig og báðu mig um að koma og leika Stebba. Í miðju lagsins var svo hestur teymdur inn á sviðið, ég kom mér á bak og kláraði að sjálfsögðu númerið áður en við hrossið vorum teymd út af sviðinu.“

Tilfinningin að fara á hestbaki út af sviðinu í miðjum söng reyndist Ævari blendin, enda var hljómsveitin, sem spilaði lagið, á sviðinu og lætin því mikil. „Ég er alinn upp í sveit í kringum hesta og ég veit að ef það er trommusett einhvers staðar nálægt, þá getur brugðið til beggja vona. En þetta gekk vel, enda bæði fólk og hross hokin af reynslu, og þannig kynntumst við Védís,“ segir Ævar og tekur undir orð blaðamanns um að þetta hafi verið fínasta innkoma að kynnum þeirra skötuhjúa og bætir Ævar við að galdurinn sé auðvitað að fylgja henni eftir. Þó má segja að það sé alfarið fjarveru Stefáns Hilmarssonar að þakka að parið hafi komið sér saman og erfinginn í kjölfarið.

Á þeim nótum leynir Ævar ekki spenningi sínum um foreldrarulluna og hlakkar hann gríðarlega til þess að taka meiri þátt, hjálpa til í fjölskyldulífinu og ekki síður leyfa unnustunni að hvíla sig eftir því sem aðstæður bjóða upp á. „Maður reynir að standa sig eins vel og maður getur,“ segir Ævar. „Enginn er vissulega fullkominn en þegar mistökin eiga sér stað verður þú að læra af þeim.“

Sækir innblástur í söngleiki og kvikmyndatónlist

Ævar lagði á dögunum lokahönd á bókina Þitt eigið tímaferðalag, sem stendur til að gefa út í vetur. Sögurnar í þessum bókaflokki hjá höfundinum hafa selst eins og heitar lummur á síðustu árum og stefnir allt í að sú fimmta og nýjasta verði sú umfangsmesta til þessa. Lesandinn ræður hvað gerist í bókinni, en allar bækurnar bjóða upp á fleiri tugi mögulegra málalykta og þannig er hægt að lesa bókina aftur og aftur. Þá bætir Ævar við að Tímaferðalagið muni bjóða upp á enn fleiri málalok en venjulega og á einum stað gengur bókin í hring og verður þannig endalaus.

Ævar rifjar upp viðtökurnar sem fyrsta bókin í þessum flokki fékk á sínum tíma, en hún hreppti meðal annars Bókaverðlaun barnanna árið 2015. Segir höfundurinn að þarna hafi orðið til stemning sem hann gerði sér ekki grein fyrir fyrirfram. „Ég fór að heyra af því að systkini væru að lesa þetta saman, fjölskyldur og jafnvel vinir í frímínútum. Þarna er komin einhver hópstemning þar sem fólk ákveður framhaldið í sameiningu,“ segir hann.

„Ég segi oft við krakka að þetta séu fullkomnar bækur til að lesa með öðrum, því þá getur þú kennt hinum um ef illa fer. Ég hef líka oft hugsað að þetta séu fínar bækur fyrir fólk sem á erfitt með að velja, erfitt með að kjósa og slíkt. Þá er gaman að geta þess að léttlestrarbókaútgáfa af Þín eigin-bókunum kemur út um miðjan ágúst, þar sem áherslan er lögð á yngri lesendur, stærra letur og fleiri myndir.“

Aðspurður um skapandi ferlið sjálft segist Ævar oft fá innblástur eða aðstoð frá kvikmyndatónlist og söngleikjum, sem hann spilar títt í miðjum skrifum. Hann nefnir að tónlist úr kvikmyndum á borð við Logan, Mission: Impossible – Fallout, Moon og Swiss Army Man hafi reglulega farið í spilun undanfarið. „En síðan gerist það, þegar ég les yfir skrifin, þá hlusta ég á söngleiki,“ segir hann og nefnir þrjá lykilsöngleiki sem hann notast mikið við, en þeir eru Hamilton, Dear Evan Hansen og Groundhog Day-söngleikurinn.

„Ég hef meira að segja spáð í að búa til og deila lagalistum fyrir hverja bók, en á hverjum lista yrði þá tónlistin ég var að hlusta á þegar bókin var skrifuð. Þannig er hægt að fullkomna upplifunina og koma lesandanum lengra inn í heim bókarinnar,“ segir hann sæll.

Þitt eigið svið og sjónvarp

Í janúar á næsta ári má sjá lokaafrakstur Ævars í að flytja sögustíl bókanna frá lesendum til áhorfenda. Þá hefjast sýningar á Þínu eigin leikriti – Goðsögu, þar sem salurinn ræður því hvað gerist næst. Sýningar fara fram í Kúlunni í Þjóðleikhúsinu og segir Ævar markmiðið vera að búa til einstaka leikhúsupplifun. „Það var haldinn samlestur í vor og eftir það var handritið sett ofan í skúffu til að marínerast yfir sumarið. Ég hlakka til að kíkja á það aftur nú þegar skrifum á Tímaferðalaginu er lokið,“ segir hann hress. „Þú getur farið á leikritið aftur og aftur og færð aldrei nákvæmlega sömu sýningu.“

Ævar segir Kúluna vera fullkominn stað fyrir sýningu af þessu tagi. „Það er svo mikil nánd í Kúlunni. Það er ekki langt á milli leikara og áhorfenda, sem er fullkomið þar sem áhorfendur eru hluti af sýningunni því þeir ráða hvað gerist. Að því sögðu verður enginn dreginn upp á svið,“ segir hann en bætir þó við, ,,allavega ekki margir.“

Hitt verkefnið sem Ævar hefur glímt við er sjónvarpsþáttaröð sem byggð verður á bókinni Þín eigin þjóðsaga, sem að hans sögn verður „í anda Lemony Snicket og Tim Burton.“ Þættirnir eru unnir í samstarfi við RÚV, kvikmyndagerðarmanninn Guðna Líndal Benediktsson, bróður Ævars, og Fenrir Films.

„Góðir hlutir gerast hægt, en þetta er í vinnslu,“ segir Ævar. „Það er líka gott að það gerist hægt, því þá höfum við tíma til að virkilega vanda okkur. Þættirnir verða sex talsins og þegar áhorfendur sjá þá eru þeir rúmar 20 mínútur að lengd. Hins vegar verður búið að taka upp 50 mínútur af efni vegna þess að líkt og í bókunum og leiksýningunni munu áhorfendur ráða hvað gerist í hverjum þætti. Ég skrifa tvo og Guðni bróðir fjóra. Eins og við sjáum þetta fyrir okkur er þetta barnaefni á skala sem hefur ekki verið í boði hér á landi áður. Þetta verður stórt og öðruvísi.“

Ævar bætir því við að það sé æðislegt að takast á við svona verkefni með bróður sínum og fá um leið að kynnast betur kvikmyndagerðarmanninum í bróður sínum og vinna með honum.


Ágengara afþreyingarefni

Af þaulreyndum raddleikara að vera þykir Ævari það ekki fara á milli mála að barnaefni sé orðið miklu ágengara og hraðara í dag en áður fyrr, en segir það fylgja þróun þegar streymisveitur og sjónvarpsstöðvar eru við hvert horn. „Þegar allir eru með þúsund stöðvar, þá þarftu að ná fólki í þessar sekúndur sem það er að flakka á milli. Þetta er agressífara en til dæmis teiknimyndirnar voru sem ég horfði á í æsku, en í dag þarf að alltaf að vera eitthvað til þess að ná þér strax og halda þér,“ segir hann.

„Eftir að ég byrjaði að vinna við að talsetja komst ég að því að helmingurinn af starfinu er að öskra. Flestar teiknimyndapersónur eru ýmist að hrapa, detta eða meiða sig. Það er reyndar magnað, því maður kemur stundum sveittur út úr stúdíóinu. Ég var kannski búinn að vera öskrandi íkorni í einhverja klukkutíma og fannst eins og ég þyrfti að fara heim og leggja mig.“

Á móti segist Ævar fullkomlega skilja hvernig börnum þyki símar og spjaldtölvur ofboðslega spennandi. „Það er náttúrlega bara allt þarna,“ segir hann. „Ef þú hefur til dæmis áhuga á fótbolta, þá kveikirðu bara á YouTube og það er endalaust af myndböndum þar. Þegar ég var yngri og fékk lánað tölvuspil hjá vini mínum, þá þurfti strax að setja hálftímareglu og ekkert meira, annars hefði ég bara verið í þessu stanslaust. Ég skil því vel að síminn sé spennandi.“

Ævar vill meina að höfundum beri ákveðin skylda til að „búa til bækur sem eru vonandi nógu skemmtilegar, spennandi og áhugaverðar til að, ef ekki trompa símann, allavega sýna að bækurnar séu spennandi á allt annan hátt. „Þar býrðu til þinn eigin heim, þær ýta undir ímyndunaraflið og setja allt af stað. Það er nefnilega ekkert sem jafnast á við góða bók. Nema ef vera skyldi tvær góðar bækur.“

 

Mikil vakning í barnamenningu

Ævar hefur látið sig minnkandi lestraráhuga barna á tímum snjallsíma, samfélagsmiðla og offramboðs á YouTube miklu varða en í fjórum lestrarátökum Ævars vísindamanns hafa verið lesnar rúmlega 230 þúsund bækur samtals. „Þessar tölur sýna að krakkar nenna að lesa, en það þarf að hvetja þá á réttan hátt. Vonandi hefur þetta átak leitt til þess að nýir lesendur hafa orðið til, eða jafnvel nýir höfundar seinna meir,“ segir Ævar og tekur fram að í þjóðfélaginu hafi undanfarið verið mikil vakning hvað barnamenningu varðar.

„Barnamenningarsjóðurinn var til dæmis settur aftur á laggirnar, en það að honum hafi verið slaufað er náttúrlega fáránlegt til að byrja með. Sögur – hátíðin sem haldin var í Hörpu í vor er vonandi komin til að vera og svo sér maður á metsölulistunum í lok hvers árs að helmingur mest seldu bókanna er barnabækur, en þannig var það ekki fyrir nokkrum árum. Þess vegna kallar maður auðvitað á frekari umfjöllun í fjölmiðlum um barnabækur, en sú umfjöllun er varla til staðar í dag.“

Aðspurður hvort standi til að vera öflugur að lesa fyrir frumburðinn svarar Ævar kátur. „Ég var reyndar nýlega spurður: „Hvað ætlar þú að gera ef strákurinn þinn hefur svo engan áhuga á bókum?“ og ég svaraði að það væri bara í góðu lagi,“ segir Ævar. „Það verður þá bara verkefni að vekja áhuga hans á bókum, alveg eins og ég veit að hann á eftir að fá áhuga á einhverju sem ég hef aldrei spáð í og þarf þá að kynna mér. Hann á örugglega eftir að kenna okkur báðum foreldrunum heilan helling og hafa áhrif á okkur á ótrúlegasta máta. Ætli það endi ekki þannig að það verði lítill strákur í aðalhlutverki í bók eftir mig eftir eftir tvö ár?“

Ljósmynd: DV/Hanna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur

14 merki þess að veitingastaðurinn er slæmur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Ragna á von á barni

Ragna á von á barni
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu

Vissi að hjónabandið væri dauðadæmt þegar eiginmaðurinn sagði þessi tvö orð í brúðkaupinu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“

Taylor Swift sogast inn í stóra Hollywood-dramað – „Ég er Khaleesi og eins og hún þá vill svo til að ég á nokkra dreka“