fbpx
Þriðjudagur 21.janúar 2025
Fókus

Geta pabbar loksins grátið?: Um fjarverandi feður, neyslusamfélagið og tilvistarkreppu karla á 21. öld

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 25. mars 2018 10:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Út á hvað gengur tilvistarkreppa nútímakarla og skiptir karlmennska máli?

Fjölmargir íslenskir karlmenn hafa á síðustu dögum sagt frá því hvernig þeir hafa haldið í sér tárum af ótta við að virðast ekki nógu karlmannlegir, hvernig þeir fela áhugamál sín og ánægjuefni af ótta við að þykja ekki nógu karlmannlegir og bæla niður hlýjar tilfinningar.

Játningarnar hafa aðallega farið fram á Twitter undir myllumerkinu „karlmennskan“ og sitt sýnist hverjum.

Hér áður fyrr vafðist hugtakið „karlmennska“ ekki eins mikið fyrir fólki og það gerir í dag. Lífsbaráttan var hörð og öll merki um veikleika illa séð bæði hjá körlum og konum.

Til að komast af þurfti fólk að harka af sér og bíta á jaxlinn. Hlutverkaskipan kynjanna var jafnframt nokkuð fyrirfram ákveðin. Drengir námu af feðrum sínum og gerðust sjómenn, bændur, læknar eða skósmiðir meðan konur gengu í fótspor mæðra sinna og sinntu börnum og heimili enda lítið um valkosti.

Við upphaf tuttugustu aldar tók þetta hins vegar smátt og smátt að breytast en eftir síðari heimsstyrjöld, og svo aftur eftir tilkomu getnaðarvarna, fóru hlutirnir að gerast mjög hratt, svo hratt að nú virðast margir karlar komnir í töluverða tilvistarkreppu meðan flestar konur fagna þessum breytingum.

Fjarverandi feður koma drengjum í tilvistarkreppu

Árið 1990 kom út bókin Iron John: A book about men eftir John Bly og varð fljótt að metsölubók. Í henni fjallar höfundurinn um kreppu nútímakarlmanna og rekur hana til hinnar veiku stöðu föðurhlutverksins í samfélaginu.

Á öldum áður, allt frá fornum menningarheimum til bændasamfélagsins, hafi drengir numið af feðrum sínum en í dag séu þeir fyrst og fremst aldir upp af konum enda eldri karlmenn, bæði feður og kennarar, yfirleitt víðs fjarri.

Þessi fjarvera eldri karla í uppvexti drengja hafi haft eyðileggjandi áhrif á nútímamenninguna og útkoman sé meðal annars þunglyndi, léleg sjálfstjórn og óskýr ábyrgðartilfinning gagnvart fjölskyldu og samfélagi.

Boðskapur Bly sló rækilega í gegn. Í kjölfarið spruttu upp karlahreyfingar sem meðal annars buðu upp á bókleg og verkleg námskeið svo menn gætu tengst eigin karlmennsku. Til dæmis í gegnum einsemd og hvers konar þolraunir en slíkt er karlmönnum nauðsynlegt svo að þeir öðlist dýpt og þroska að mati höfundar.

„Geldir“ karlmenn sem ráfa um í leit að karlmennsku

Sumir vilja meina að tilvistarkreppu nútímakarla megi einnig rekja til kapítalíska neyslusamfélagsins sem byrjaði að dafna um miðja síðustu öld. Það henti karlmönnum almennt illa að skilgreina sjálfsmynd sína út frá borðstofuborði í IKEA-bæklingi líkt og karakterinn sem Edward Norton lék í hinni frábæru mynd Fight Club (1999). Nútíma kapítalismi og neysluhyggja láti hvítum gagnkynhneigðum körlum líða eins og þeir hafi lítinn samfélagslegan tilgang öfugt við til dæmis konur, hinsegin fólk og svertingja sem undanfarna áratugi hafa átt það sameiginlegt að berjast fyrir virðingu og jafnrétti.

Höfundur sögunnar Fight Club, Chuck Palaniuk, sagði frá því í viðtali að hann hafi sjálfur verið að drepast úr leiðindum sem vélvirki í Portland þar til dag einn er hann lenti í slagsmálum, sem leiddu til þess að hann breytti lífi sínu.

„Karlmenn eru ringlaðir gagnvart karlmennsku sinni,“ segir hann, „eða hvað þurfa þeir að gera til að verða karlmenn? Að fara í stríð eða bera sigurorð af ógnandi dýrum? Það eru engin stríð, engin rándýr á veginum, engin víglína. Hvað stendur eftir? Peningar, íþróttir, orðstír?“

Chuck Palaniuk segir kjarna sögunnar fjalla um tilraun „geldra“ karlmanna til að verða karlmenn á nýjan leik en söguhetjan er vægast sagt ringluð í upphafi myndarinnar. Hann ráfar á milli tólf spora hópa þar sem hann grætur í barminn á öðrum ringluðum körlum og þótt hann bæði eigi fín húsgögn og flott föt upplifir hann gríðarlegt tilgangsleysi í tilveru sinni. Dag einn verður svo sápusalinn Tyler Durden (Brad Pitt) á vegi hans og lífið tekur níutíu gráðu snúning. Saman stofna þeir slagsmálaklúbb fyrir karla og í gegnum það undarlega samfélag komast þeir í tengingu við karlmennsku sína. Tyler tekur að sér hlutverk foringjans og predikar að karlarnir séu hvorki bíllinn sem þeir eiga, bankainnistæðan, Boss-jakkafötin né sérsaumaða skyrtan.

Ingólfur Gíslason: Erfiðleikar og angist

 

Ingólfur V. Gíslason, dósent í félagsvísindum við Háskóla Íslands.

„Það að karlmenn skuli nú játa á Twitter að þeim þyki gott a fá sér Baileys, eða kvarti undan því að þeim hafi verið illa tekið þegar þeir ákváðu að taka leiklist fram yfir fótbolta, þykja mér góðar fréttir, – enda bendir það til að eitthvað sé að draga úr hugsanlegum kreppueinkennum karlmennskunnar,“ segir Ingólfur V. Gíslason dósent í félagsfræði við Háskóla Íslands en hann hefur stúderað karlmennskuhlutverkið frá því um miðjan tíunda áratuginn.

Nú þurftu forfeður okkar að hafa talsvert meira fyrir lífinu en tíðkast í dag. Heldur þú að þessi krafa um að sýna engin merki um veikleika sé kannski gamall arfur? Menn fóru til dæmis í hákarlaróðra í alls konar veðrum og væntanlega ekki vel séð að þeir væru að kveinka sér?

„Fyrst þú nefnir hákarlaróðra … Það náttúrlega blasti við að menn voru látnir ganga undir ákveðið manndómspróf áður en þeir gátu farið á sjóinn enda lá lífið við að þeir gætu treyst hver á annan. Á sama hátt lá lífið við að menn hlýddu formanninum. Ef hann kallaði að nú væri lag og allir ættu að róa þá þýddi ekkert að fara að ræða það því þá enduðu þeir dauðir. Það má alveg ímynda sér, að það sem virðist vera heldur meiri sókn karla en kvenna í svona „hírarkísk“ sambönd, sé einhvers konar arfleifð eða afleiðing af þessu. Karlar hafa í gegnum aldirnar verið bæði í störfum og/eða her þar sem menn verða að hlýða sínum foringja. Nú eru konur komnar inn á öll þessi svið karlanna, bæði í her, á vinnumarkaði og víðar. Að mörgu leyti hefur þróunin síðustu áratugi verið í þá átt að lífsmynstur og lífsferill karla og kvenna hefur nálgast verulega. Fyrst og fremst þannig að konur hafa nálgast hefðbundin lífsferil karla en í æ ríkari mæli eru karlar að koma inn á hefðbundin svið kvenna. Þátttaka þeirra í heimilisstörfum hefur til dæmis aukist mjög verulega, þeir eru virkari í barnaumhyggju en áður og svo framvegis,“ segir Ingólfur og bætir við að honum þyki þetta fagnaðarefni á báða bóga:

„Það er hins vegar enginn vafi á því að þessar breytingar geta valdið bæði erfiðleikum og angist. Þegar breytingar eiga sér stað með svona skjótum hætti þá verður svo mikill munur á reynslu kynslóðanna.“

Íslenskir feður þeir bestu í heimi

„Ef maður skoðar þróunina á skólakerfinu í heild þá hefur hlutfall þeirra barna, sem eru einvörðungu í umsjón kvenna, trúlega aldrei verið hærra. Börn eru á leikskóla frá tveggja ára aldri og þar eru kennarar 97 eða 98 prósent konur. Í grunnskólakerfinu eru þær ríflega 80 prósent og hlutfallið fer vaxandi. Það sama er að gerast í framhaldsskólum. Þetta gerir að verkum, að fyrir utan feður sína, þá umgangast börn nánast enga fullorðna karla sem koma að mótun þeirra,“ útskýrir Ingólfur og nefnir að hins vegar hafi breytingar á lögum um fæðingarorlof, sem gengu í gildi um síðustu aldamót, haft jákvæð áhrif á aðkomu feðra að uppeldi barna sinna. Svo góð að íslenskir feður teljast nú þeir allra bestu í heimi.

„WHO (World Health Organisation) hefur á nokkurra ára fresti gert könnun meðal barna þar sem spurt er út í samband þeirra við foreldra sína. Í niðurstöðum sem komu frá fyrstu árgöngunum sem nutu góðs af nýju fæðingarorlofslögunum kom á daginn að íslenskir feður eru í fyrsta sæti með tilliti til þess hversu auðvelt börnin (ellefu, þrettán og fimmtán ára) eiga með að koma til þeirra og tala um eitthvað sem þeim þykir erfitt. Íslenskar mæður hafa reyndar lengi verið í fyrsta sæti en það er ánægjulegt að íslenskir feður hafi nú tekið sér sæti við hlið þeirra.“

Ekki langt síðan fjölskyldan var saman allan daginn

Ingólfur segir að þótt allt virðist stefna í rétta átt megi þó enn gera betur. Þótt feður séu í fæðingarorlofi í þrjá mánuði og eitthvað áfram eftir það sé þetta tiltölulega stuttur tími og sérstaklega í framhaldinu þegar krakkar koma inn í skólakerfið.

„Þau hitta stundum enga karlmenn allan daginn þar sem þau eru umkringd konum í skólakerfinu og samvera með feðrum tiltölulega stuttur hluti af vökutímanum. Maður þarf hins vegar ekki að líta lengra en aftur til íslenska bændasamfélagsins þar sem fjölskyldan var saman allan daginn. Það var ekki fyrr en með iðnbyltingunni að þessi mikli aðskilnaður milli feðra og barna átti sér stað, þegar feður þurftu að mæta til vinnu fyrir allar aldir og komu heim seint á kvöldin en það fyrirkomulag hefur verið tiltölulega stuttur kafli í mannkynssögunni. Mér finnst mikilvægt að börn sjái að hver sem er getur unnið við hvað sem er án tillits til kyns en það þýðir ekkert að segja strákum að auðvitað geti þeir orðið leikskólakennarar þegar þeir sjá einungis konur í þeim hlutverkum. Almennt séð vil ég meina að tilveran verði betri eftir því sem hún verður fjölbreyttari og hún verður það ef bæði karlar og konur sinna börnum í samfélaginu.“

Gunnlaugur Jónsson: Skiljanleg gremja ungra karlmanna

 

Gunnlaugur Jónsson, frumkvöðull og framkvæmdastjóri.

Þann 4. júní næstkomandi er fyrirhugaður fyrirlestur með kanadíska sálfræðiprófessornum Jordan Peterson í Hörpu en hann er höfundur bókarinnar 12 rules for life: An antidote to chaos, sem hefur setið á topplista Amazon undanfarnar vikur. Kenningar Peterson hafa höfðað sérstaklega til ungra karlmanna en Gunnlaugur Jónsson, sem átti frumkvæði að því að fá Peterson til landsins, telur að ríflega 85 prósent miðanna hafi verið keypt af körlum.

„Ég held að boðskapur Peterson um að axla ábyrgð og sýna hugrekki höfði sérstaklega til karlmanna í dag. Mantra Vesturlandabúa síðustu áratugina hefur verið „all you need is love“ og vissulega þurfa allir á kærleika að halda. Hann er hins vegar ekki það eina sem menn þurfa,“ segir Gunnlaugur. „Við þurfum líka ábyrgð og hæfni vegna þess að án hennar gerist lítið. Það sem unga menn hefur kannski vantað eru skilaboð um að taka sig saman í andlitinu og reka sig áfram,“ segir hann og bætir við að Jordan Peterson hafi meðal annars verið þakkað fyrir að hjálpa ungum mönnum að draga úr innibyrgðri reiði og gremju, sem til dæmis hafi mögulega orsakast af því að þeir hafi upplifað sig jaðarsetta vegna ýmissa birtingarmynda femínismans, meðal annars kynjakvóta.

„Merkimiðapólitík sumra femínista hefur gert það að verkum að þessir menn hafa upplifað það sem svo, að þeir þurfi að borga fyrir einhvers konar forréttindi annarra karlmanna, þótt þeir hafi sjálfir aldrei átt hlutdeild í þessum forréttindum,“ útskýrir Gunnlaugur.

„Gremja þeirra er sumpartinn skiljanleg, en hún er ekki gagnleg, og það er því fagnaðarefni fyrir samfélagið í heild að þeir láti reiðina ekki hlaupa með sig í gönur og beini kröftum sínum heldur í uppbyggilegan farveg. Mig langar að taka fram að boðskapur Jordans Peterson höfðar líka sterkt til margra kvenna og hlutföllin hafa jafnast eftir að bókin kom út. Kannski vegna þess að konur lesa meira en karlar og kannski vegna þess að hlutfall karlmanna er mjög hátt meðal áhorfenda á Youtube-fyrirlestra, sem er upprunalegur markhópur Peterson utan háskólans.“

Hændust að karlkyns leikskólakennara á Laufásborg

Hlaupið ekki í hnút þótt ég líti svona út bókin er oft betri en spjöldin mín karlmennska dvín meðan dagsljósið skín en ég er þrælgóður elskhugi á kvöldin – þýð. Veturliði Guðnason

Nú snýst þessi karlmennsku umræða á Twitter kannski um innkomu karlmanna á það sem hingað til hafa talist kvenlegir eiginleikar og svið. Þeir eru til dæmis að játa viðkvæmni, aðdáun á bleika litnum, ást sína á hannyrðum og þess háttar. Heldur þú að samfélagið hefði kannski gott af því að karlar kæmu meira að þessum hefðbundnu kvennastörfum?

„Jú, eflaust væri það æskilegra að karlmenn kæmu meira inn í skólakerfið svo dæmi séu tekin. Ég man eftir því að þegar ég var á Laufásborg, fyrir tæpum 40 árum, þá urðum við drengirnir mjög hændir að leikskólakennara sem var karlmaður. Svo urðum við ægilega svekktir og lýstum því yfir að við ætluðum að hætta á leikskólanum þegar hann var að hætta. Stundum er hægt að réttlæta það að annað kynið sé ráðið fremur en hitt, það er í störf þar sem kyn skiptir beinlínis máli, en almennt séð tel ég það ekki æskilegt.“

Karlar af gamla skólanum blindir á færni kvenna

Sjálfur hef ég setið í kynjakvótastjórn hjá fyrirtæki og að mínu mati varð það algjört „disaster“. Ef fólk er valið í stjórnir og forystuhlutverk, ekki út á hæfni heldur kyn, þá grefur það undan hinum sem hafa eitthvað til brunns að bera einfaldlega vegna þess að hinir líta svo á að manneskjan hafi bara verið valin út af kyninu. Menn af báðum kynjum ganga jafnvel út frá því að konur hafi verið valdar út af kyni fremur en færni,“ segir Gunnlaugur og bætir við að vissulega hafi hann samt oft orðið vitni að því að karlar horfi framhjá hæfileikum og færni kvenna, einfaldlega vegna þess að þær séu konur.

„Karlar, og þá sérstaklega af gamla skólanum, eru stundum blindir á hæfileika kvenna. Ég hef séð dæmi um það sjálfur. Hins vegar verð ég að segja að konur eru líka oft alltof fljótar að kenna glerþakinu um. Við rekumst öll á alls konar ósýnilega veggi sem hægt er að kalla glerþök. Fólk getur verið á móti okkur út af ýmsum fordómum sem við getum kannski aldrei skilið til fulls. Þetta er erfitt fyrir alla enda er pláss fyrir mjög fáa á toppnum. Það er fjöldinn allur af körlum sem er að strögla á vinnumarkaðnum og þetta er langt frá því að vera einfalt. Það sem við getum hins vegar gert er að auka á meðvitund okkar um eigin fordóma og hætta að nota þessa kvóta.“

Það gráta allir einhvern tímann

Að lokum. Hvað finnst þér um játningarnar á Twitter? 

„Það gráta allir einhvern tímann en að kveikna sér og setja sig í fórnarlambshlutverk er almennt ekki til þess fallið að skapa sér virðingu hjá karlmönnum. Auðvitað er eðlilegt að gráta við jarðarfarir og stundum gráta menn gleðitárum en almennt held ég að konur laðist frekar að karlmannlegum mönnum sem eru hugrakkir og kunna að bíta á jaxlinn. Annars getur það verið karlmannlegt í mínum augum að dansa ballett eða gera fleira sem almennt hefur ekki talist karlmannlegt. Hugrekki finnst mér vera karlmennska.“

Stefán Eiríksson: Óþarfi að láta gamaldags hugmyndir um karlmennsku hefta komandi kynslóðir

Stefán Eiríksson, borgarritari og fyrrverandi lögreglustjóri, á fimm ára son sem er hrifinn af kjólum og bað um að fá að mála herbergið sitt bleikt en Stefán er einn þeirra sem tjáðu sig á Twitter.

„Sonur minn hefur fjölbreytt og skemmtileg áhugamál eins og fleiri börn. Ég held að það sé mikilvægt að sýna ekki vanþóknun á áhugamálum barna, hvort sem um er að ræða stráka eða stelpur enda er það ein leið til að viðhalda þessum steríótýpum. Mér fannst ágætt að blanda mér í þessa umræðu á Twitter enda á þetta að vera fullkomlega eðlilegt og í lagi. Við eigum ekki að láta gamaldags hugmyndir um hlutverk kynjanna hefta börnin okkar,“ segir Stefán. „Við erum nógu heft sjálf og eigum ekki að færa það yfir á næstu kynslóð,“ segir hann og hlær.

Lýðheilsumál að hugsa út í neikvæð áhrif karlmennskunnar

Lögreglan er ein þeirra starfsstétta þar sem karlmenn hafa lengi verið í miklum meirihluta en Stefán telur það vera að breytast smátt og smátt.

„Árið 1997 var settur sérstakur fókus á að bæta stöðu kvenna og auka á jafnrétti innan lögreglunnar. Það hefur reyndar gengið hægar en menn vonuðust eftir og enn er langt í land þar innan dyra þótt margt hafi gengið vel. Það sama gildir fyrir marga aðra geira sem eru hressilega kynbundnir í báðar áttir. Konur eru enn í miklum meirihluta meðal hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og kennara svo fátt eitt sé nefnt og svo eru aðrar stéttir þar sem karlmenn eru í meirihluta. Það er hagsmunamál að auka áhuga karlmanna innan þeirra starfsgeira sem hingað til hafa verið svo gott sem einokaðir af konum, – og öfugt.“

Hvað finnst þér um þá skilgreiningu á karlmennsku að það skipti máli að vera nagli og harka af sér? Og að það sé beinlínis niðrandi fyrir karlmenn að vera líkt við konur samanber „hleypur eins og stelpa,“ „vælir eins og kerling,“ og svo framvegis?   

„Ég held að það sé mikilvægt lýðheilsumál að fólk velti aðeins fyrir sér neikvæðum áhrifum karlmennskunnar. Við höfum þurft að horfast í augu við það að ansi hátt hlutfall karlmanna sviptir sig lífi enda hefur það hingað til ekki verið viðurkennt í heimi karlmanna að tjá tilfinningar sínar; segja frá því ef þeim líður illa eða séu að glíma við andlega erfiðleika. Það að opna umræðuna og reyna að brjóta niður þessa ósýnilegu veggi, er ekki aðeins til hagsbóta fyrir konur heldur fyrir samfélagið allt. Þessi harða karlmennskuímynd heftir karla með margvíslegum hætti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi

Fyrrum landbúnaðarráðherra og sagnamaður selur miðbæjarperlu á Selfossi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina

Sérstæð vinátta ræstingakonu og kolkrabba hefur heillað heimsbyggðina
Fókus
Fyrir 3 dögum

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“

Davíð lýsir martraðarkenndri læknismeðferð í Svíþjóð – „Ég var í einhverjum svaka slag í hausnum á mér að reyna að lifa þetta af“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér

Leikkonan harðlega gagnrýnd eftir að hún deildi söfnun fjölskyldumeðlims – Segir gagnrýnendum að fokka sér
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“

Hafa miklar áhyggjur af Katie Price eftir að hún birti nýtt myndband – „Einhver þarf að hjálpa henni“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni

Birti mynd af nánast nöktum líkama eiginkonunnar – Netverjar í áfalli og segja ekki öruggt að skoða hana í vinnunni