fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Morgungöngur, súrefnisdrykkja og skipulagið sem fylgir því að eignast þrjú börn á einu bretti.

Dagur í lífi Ingibjargar Stefánsdóttur

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 5. nóvember 2017 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Jógakennarinn og leikkonan Ingibjörg Stefánsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1972. Hún ólst upp í Hallormsstað með eldri bróður sínum sammæðra, Ólafi, og foreldrum, Elínu Thorarensen og Stefáni Jökulssyni, til átta ára aldurs, eða þar til foreldrar hennar skildu.
Móðir Ingibjargar lést tæpum tveimur árum síðar, þegar Ingibjörg var níu ára en þá tók amma hennar, Ingibjörg Guðlaugsdóttir, við uppeldinu. Síðar eignaðist hún samfeðra bróður, Stefán Jökul. Ingibjörg hóf skólagöngu sína í Hallormsstaðaskóla, fór þaðan í Vogaskóla og Menntaskólann við Sund en lauk leiklistar- og dansnámi frá Neighbourhood Playhouse í New York árið 1997. Ingibjörg býr á æskuheimili sínu við Langholtsveg, ásamt eiginmanni, Víði Finnbogasyni lögfræðingi, hundinum Bellu og þremur börnum, Elínu, 8 ára, Ástu Lilju, 6 ára, og Finnboga Jökli, 4 ára. Ingibjörg opnaði jógastöðina Yoga Shala Reykjavík árið 2005 og hefur starfað þar sem jógakennari allar götur síðan.

Klukkan 07.30

„Ég vakna um klukkan 7.30 og kem börnunum af stað. Morgunmaturinn er gjarna þeytingur eða hafragrautur fyrir þau en sjálf sit ég á hakanum, sem er kannski ekki alveg nógu gott. Þegar ég er búin að skutla manninum mínum í vinnuna þá skutla ég börnunum í skólann. Formleg kennsla hefst ekki fyrr en klukkan níu hjá Hjallastefnunni og fyrir þetta er ég mjög þakklát enda ekki mikil morgunmanneskja, þótt mig langi að vera það. Þegar krílin eru komin í skólann þá förum við Bella yfirleitt í göngutúr um Öskjuhlíð. Þá byrjar mín andlega næring því ég elska alveg þessar morgungöngur. Á meðan ég geng stunda ég hugleiðslu og geri öndunaræfingar, sem ég kalla „að drekka loft“ enda fylli ég líkamann af hreinu súrefni og endurnærandi orku. Stundum sest ég einhvers staðar niður á leiðinni, loka augunum og hugleiði í kyrrðinni. Gönguhugleiðslan tekur svona hálftíma en eftir það næ ég mér oft í kaffibolla, og chia-graut, ef ég er ekki búin að borða morgunmat. Svo hefst vinnudagurinn í Yoga Shala, yfirleitt með margvíslegum undirbúningi fyrir morgun- eða hádegiskennslu. Undirbúningurinn getur til dæmis verið þannig að ég fer sjálf í jógatíma og ef það er heitur tími framundan hjá okkur þá hita ég salinn með infra-rauða hitakerfinu sem við vorum að taka í notkun. Infra-rauði hitinn, sem er allt öðru vísi en lofthitun, hefur alveg slegið í gegn enda mjög þægileg og heilnæm leið til hitunar fyrir jógakennslu.“

Klukkan 12

„Í hádeginu fer ég oft á staðina í kringum stöðina okkar í Skeifunni 7. Nú styttist þó í að við byrjum að selja þeytinga og þess háttar í Yoga Shala. Ég hef átt það til að gleyma að næra mig en eftir að hafa verið með börn á brjósti í næstum átta ár samfellt, komst ég að því að það gengur ekki að gleyma matnum. Maður þarf sína orku. Eftir hádegi er ég ýmist með einkatíma í jóga, fer með kennslu í fyrirtæki eða funda með frábæru sameigendum mínum í stöðinni. Við erum fimm sem eigum hana og öll brennum við fyrir því að hjálpa fólki til að líða betur. Mér finnst það algjör forréttindi að fá að vinna við að hlúa að öðrum.“

Klukkan 16.00

„Ég sæki börnin í skólann og þau fara að leika við vini eða í tómstundir. Að eignast þrjú börn á einu bretti kallar eðlilega á mikið skipulag en ég reyni samt að forðast að hafa þau í of stífu prógrammi. Um þetta leyti kemur svo alltaf upp sama leiðinlega spurningin: Hvað á að vera í matinn? Og þá hefst stússið í kringum það. Eldamennska er ekki mín sterka hlið en þetta reddast þó alltaf einhvern veginn.“

##Besta ráð sem þér hefur verið gefið?

Það var eitthvað verið að stríða mér í skólanum þegar ég var krakki og amma gaf mér þetta ráð: „Láttu eins og þú takir ekki eftir þessu, þá nenna þau ekki að stríða þér.“ Ég skildi þetta þannig að það er óþarfi að taka inn á sig neikvæðni í öðru fólki og það hef ég reynt að forðast.

Besta ráð sem þú getur gefið öðrum?

Það er að fara svolítið úr höfðinu sínu og reyna að finna og hlusta meira á hjartað, innsæið.

Hvað vildirðu að þú hefðir vitað fyrr?

Ég var lengi í skemmtanabransanum og þar var alltaf verið að segja manni að maður væri of gamall. Ég heyrði fyrst að ég væri of gömul þegar ég var svona tuttugu og fjögurra ára. Ég vildi að ég hefði aldrei hlustað á þetta enda er þetta algjört kjaftæði. Maður er aldrei of gamall fyrir neitt.

Klukkan 19.30

Ég er þakklát Hjallastefnunni fyrir að heimanám barnanna fer að mestu fram í skólanum. Vinnudagurinn þeirra er oftast búinn þegar skólatíma lýkur og því höfum við fjölskyldan tíma saman eftir kvöldmat til að lesa eða fara í heita pottinn. Dagur í mínu lífi var reyndar allt öðruvísi fyrir tveimur árum! Þá var háttatíminn erfiðasti tími dagsins en það er búið. Núna eru þau fjögurra, sex og átta ára svo lífið er smátt og smátt að verða auðveldara hjá okkur. Eftir að börnin eru sofnuð þá vinn ég stundum aðeins í tölvunni og nýt kyrrðarinnar en sleppi sjónvarpsglápi enda finnst mér það óttalegur tímaþjófur.“

Klukkan 23.30

Háttatími minn er í kringum hálf tólf þótt stefnan sé alltaf að sofna helst um 22.00. Ég er ekki með nein rafmagnstæki í svefnherberginu og ég les ekki heldur uppi í rúmi. Það vill nefnilega svo merkilega til að hugsanir mínar verða mjög virkar um leið og ég leggst á koddann og því er ég vanalega lengi að sofna. Núna er hins vegar búið að vera svo mikið að gera hjá mér að ég dett bara út um leið og ég loka augunum. Alveg örmagna.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld

Fyrsti jólasveinninn kemur til byggða í kvöld
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið

Mömmuáhrifavaldur sætir rannsókn eftir fjölda ábendinga um vanrækslu – Myndbandið sem gerði útslagið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?

Hulin ráðgáta hvenær Jay-Z og Beyoncé byrjuðu saman – Var upphafið óviðeigandi?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum

Dóri DNA selur glæsilega íbúð í Skerjafirðinum
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“

Jay-Z neitar að hafa nauðgað 13 ára barni – „Ég mun ekki gefa þér krónu með gati“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“

Fitness áhrifavaldur tók æfingu í miðju flugi – „Hún ber enga virðingu fyrir öðrum“