Kolbeinn Sigþórsson, landsliðsmaður í fótbolta og leikmaður Nantes í Frakklandi, gæti verið á förum frá franska liðinu. Gríska stórliðið Panathinaikos hefur áhuga á íslenska landsliðsmanninum. Þetta staðfestir Andri Sigþórsson, bróðir og umboðsmaður Kolbeins, í samtali við 433.is.
Kolbeinn virðist ekki vera inni í myndinni hjá Nantes, en eins og kunnugt er hafa undanfarin tvö ár verið erfið fyrir Kolbein sem hefur glímt við meiðsli.
Andri segir að Kolbeinn hafi mikinn áhuga á að ganga í raðir Panathinaikos en boltinn er nú í höndum forráðamanna Nantes. Félagaskiptaglugginn lokar á morgun og því rétt rúmur sólarhringur til stefnu.
Gríska liðið er eitt það stærsta og sögufrægasta í Grikklandi og hefur unnið titilinn þar í landi 20 sinnum, síðast árið 2010.
Helgi Sigurðsson, fyrrverandi landsliðsmaður Íslands í fótbolta, lék með gríska liðinu á árunum 1999 til 2001. Skoraði Helgi 10 mörk í 32 leikjum fyrir liðið.
Kolbeinn er orðinn leikfær og er hann til að mynda í leikmannahópi íslenska liðsins fyrir leikina gegn Belgíu og Sviss í Þjóðadeildinni í september. Kolbeinn, sem er 28 ára, hefur spilað 44 landsleiki fyrir Ísland og skorað í þeim 22 mörk.